30.10.1980
Sameinað þing: 12. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í B-deild Alþingistíðinda. (245)

22. mál, félagsleg þjónusta fyrir aldraða

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Mér finnst gæta nokkurs óróleika og kapps um hver eigi að vera fyrstur til að flytja eða tilkynna mál sem horfa til almenningsheilla. Mér finnst engin ástæða til þess. Ég get tekið undir þau orð hv. síðasta ræðumanns, að það er alveg sama hvaðan gott mál kemur og góðar till., en þær verða sennilega ekki framkvæmdar nema með því að að hafa til þess fjármagn og þessum málum verður ekki skipað nema leita fyrst og fremst til þeirra sem lengsta og besta reynslu hafa, bæði hvað snertir þessi mál og önnur.

Við getum glaðst yfir því, að á síðustu árum hafa orðið verulegar breytingar til batnaðar, og það má segja að Reykjavík hafi á vissan hátt haft forgöngu í þessum málum fram yfir önnur sveitarfélög í landinu. En nú eiga aftur á móti ýmis önnur sveitarfélög, sjálfseignarstofnanir og fleiri í mikilvægum framkvæmdum sem bæta mjög aðstöðu aldraðs fólks.

Ég hygg að við deilum ekki um að samfélagið á að reyna að skapa hverjum og einum þá aðstöðu að hann geti sem lengst verið heima hjá sér. Við þurfum ekki heldur um það að deila, að hvort sem maðurinn er ungur eða gamall á hann auðvitað rétt á því að fara á hvaða sjúkrahús sem er, eftir hvað að honum er. Ef hann þarf að gangast undir uppskurð verður hann auðvitað og á rétt á því að vera settur á fullkomnustu sjúkrahúsin sem völ er á. En ef maðurinn er langlegusjúklingur, sem ekkert er hægt að gera fyrir annað en láta honum líða vel, eru ódýrari sjúkrahúsin fyrir hann, eins og t.d. Hátúnsdeildin sem er deild frá Landspítalanum. En það er rétt sem kom fram hjá hv. 3. þm. Reykv., að það eru því miður allt of oft teknar ómanneskjulegar ákvarðanir þegar fólki er skipað heim af sjúkrahúsum. Ég þekki það ekki síður en aðrir. Ég fékk af því ákaflega mikla reynslu í fjögur ár og þurfti oft — það eiga ekki að þurfa í neinu landi að koma til heilbrmrh. mýmörg dæmi þess — að reyna að koma í veg fyrir að ósjálfbjarga sjúklingar væru fluttir inn á heimili þar sem fólk var alls ekki þess umkomið að taka á móti þeim. Þetta ómanneskjulega í kerfinu verðum við að komast yfir og eyða því.

Hitt er svo annað mál, í sambandi við frv. til l. um öldrunarþjónustu telst til tíðinda að Sþ. fái vitneskju um frv. ráðh. frá ákveðnum þingmönnum eða þingmanni í þessu tilfelli sem segist vera með það í höndunum og þetta sé alveg að koma og því hafi hún Jóhanna ekki þurft að flýta sér svona mikið og henni væri hollast að lesa Þjóðviljann. Ég ætla ekkert að ráðleggja Jóhönnu, hvorki til né frá. Hún hlýtur að lesa Þjóðviljann eftir því sem henni sýnist eða lesa hann ekki.

En eitt er athyglisvert. Þegar frv., sem hér kemur fram með þessari sérkennilegu fréttatilkynningu, kemur til umr. verðum við um leið að líta á aðrar samþykktir Alþingis í heilbrigðismálum. Alþingi hefur sett lög um heilbrigðisþjónustu. Alþingi hefur markað stefnu í heilbrigðismálum. Þess vegna er það ekki allt að halda stórar og margar ráðstefnur um að marka stefnu í heilbrigðismálum. Sú stefna er fyrir hendi. Það má eðlilega breyta um stefnu, en ég hygg að tæplega verði breytt um stefnu á þann veg að hætta við hálfnaðar framkvæmdir eða framkvæmdir sem er byrjað á. Það verður að ljúka þeim framkvæmdum. Ég held að við getum ekki látið sögu úr öðrum málaflokki eins og Krýsuvíkurskólann endurtaka sig í heilbrigðisþjónustunni. Þar eru margar framkvæmdir í gangi, bæði framkvæmdir á vegum ríkisspítalanna í Reykjavík og sjúkrahúsa á vegum Reykjavíkurborgar og síðast en ekki síst uppbygging heilsugæslustöðva víðast hvar um landið. Mér finnst að framlag til þessara mála á fjárl. þessa árs hafi ekki verið með þeim hætti að hægt sé að marka víðtæka stefnu í málaflokknum og taka meira fyrir en gert hefur verið, vegna þess hvað menn hafa dregið fæturna í þessum efnum. Ég sé ekki, eftir framlögum til byggingar einstakra sjúkrahúsa á síðustu tveimur árum að dæma, fram á annað en það muni taka með sama móti og svipaðri verðbólgu töluvert fram yfir árið 2000 að ljúka þeim. Ég gæti fært rök fyrir máli mínu, en læt það bíða eftir því að hæstv. heilbr.- og trmrh. sé viðstaddur.

En það er ekki alltaf nóg að tala um að það vanti þetta og hitt, að við verðum að gera þetta og lögfesta það svo, en stöndum svo ekki við neitt af því sem sagt er og þessi virðulega stofnun, Alþingi, hefur tekið ákvörðun um og markað stefnu í. Það er þetta sem ég vil vekja athygli á. Við þurfum að fara að stemma nokkuð stigu við kapphlaupi um það að vilja eigna sér góð mál, en standa heldur betur að því að framkvæma það sem við höfum áður markað stefnu í og erum byrjaðir að framkvæma.