11.02.1981
Sameinað þing: 48. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2247 í B-deild Alþingistíðinda. (2451)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu mjög né fara ítarlega ofan í þau atriði sem varða fiskverðsákvörðun, enda yfirlýst að það mál sé á viðkvæmu stigi. En ég tek undir það, að það er óviðunandi dráttur sem hefur átt sér stað á ákvörðun fiskverðs, og þau sjónarmið, sem þm. Karl Steinar Guðnason lýsti hér áðan, geri ég að mínum.

Hitt er athyglisvert, að fyrir viku sagði ráðh. frá því, að það stæði ekki á neinni ákvörðun hjá ríkisstj. að því er varðaði ákvörðun fiskverðs, en nú stendur hann upp hér í dag og tíundar afrek sín frá því í gærmorgun og í morgun og í fyrradag, sem hann hafi verið að vinna að innan ríkisstj., m.a. til þess að koma í kring fiskverði. Ég verð að segja það, að ég fæ ekki þessa skýrslu ráðh. frá því í fyrri viku og núna til að ganga upp. En það er kannske ekki í fyrsta skipti sem ummæli af þessu tagi og yfirlýsingar af hans hendi ganga ekki upp.

Hæstv. ráðh. gerði það líka að umtalsefni, að auðvitað hefði í upphafi átt að miða við meðalgengi eins og venjulega. Það er þá ekki heldur í fyrsta skipti sem menn vilja eitt, en gera svo hitt. Það virðist ætla að verða regla, a.m.k. hjá Framsfl.

Annars er það merkilegt með þetta gengi og sérstaklega þá yfirlýsingu sem gefin hefur verið út um það hvers vegna ætti að miða við dollar eða við meðal Evrópumyntir, vegna þess að rökstuðningurinn fyrir því að miða við dollar hefur verið talinn sá, að dollarinn væri svo mikilvægur í útflutningsatvinnuvegum Íslendinga, en rökstuðningurinn fyrir því að breyta nú og miða við meðalgengi er að Evrópumyntirnar séu svo mikilvægar fyrir útflutningsatvinnuvegi Íslendinga.

Ég veit ekki hvað menn eiga að binda sig við að því er gengi varðar eða hvað þess konar gengisskráning heitir sem gildir nú, en uppástunga hefur komið um það, að ef menn endilega vilja vera að binda sig við eitthvað tækju menn bara ísraelska pundið. Þá ættu menn að vera nokkuð öruggir.

En það er eitt mál sem er kannske öðrum mikilvægara í sambandi við þá fiskverðsákvörðun og þær yfirlýsingar sem hafa verið gefnar um hana núna. Það eru yfirlýsingar um að ávísa á framtíðina, ávísa á tóman sjóð eftir formúlu frá 1975. Ég vil vara við því, að þetta sé gert. Verðjöfnunarsjóðurinn á að vera til að sveiflujafna, hann á að vera til að draga úr áhrifum verðlags erlendis á íslenskt efnahagslíf. Ef menn ávísa á tóma sjóði mun það hafa verðbólguáhrif. Og ég er hræddur um að úr því, sem ríkisstj. hefur gumað mjög mikið af, að hún væri nú að ná hugsanlega greiðsluafgangi á ríkissjóði og það mundi draga úr verðbólgunni, — úr því verði heldur lítið ef menn sleppa síðan taumnum fram af sér annars staðar, búa sér til nýtt tæki á öðrum stað til að prenta peninga. Þá er ég hræddur um að greiðsluafgangur hjá ríkissjóði skipti litlu sem viðnám gegn verðbólgu.

Það er óheilbrigð leið sem hér er farið inn á. Ég vara við því að taka upp þær aðferðir sem beitt var hér á árunum 1975 og 1977. Þær eru rangar. Þær eru hættulegar. Sem betur fer tókst okkur að fikra okkur út af þeirri braut. Það mun ekki góðri lukku stýra ef menn ætla nú inn á þá braut aftur því að með aðgerð af þessu tagi er verið að ávísa annaðhvort á gengisfellingu eða á ríkissjóð.