11.02.1981
Sameinað þing: 48. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2260 í B-deild Alþingistíðinda. (2459)

187. mál, vegáætlun 1981--1984

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. Sverrir Hermannsson ætti að vera í salnum, en ég sé að hann er hlaupinn aftur svo að það er kannske til lítils að lesa fyrir hann fleiri tölur úr því súlnariti sem hann var með og er í þeirri þáltill. sem ég flutti nýlega. Þar kemur að sjálfsögðu fram, að fjármagn til vegamála á viðreisnarárunum, frá 1964 og allt fram til 1970, er það lægsta sem hér hefur verið eða nærri því lægsta. Það er 1.5% árið 1966, en er yfirleitt á bilinu, svo að ég lesi ekki hverja tölu, 1.59 til 1.90%. En ég geri ráð fyrir að það hafi verið talið hæfilegt fjármagn til vegamála í þá tíð. Það munar satt að segja æðimikið um þau 0.20% sem nú er gert ráð fyrir umfram það sem hæst var á þeim árum. Það er ekki fyrr en á árinu 1971, á kosningaári, að aukning verður í 2.27%.

Ég vil hins vegar taka undir það, að sannarlega var brotið í blað þegar Halldór E. Sigurðsson kom að þessum málum og sérstaklega 1972 og 1973, þegar varið var 2.36% og síðan 2.24 til vega, en síðan fer þetta því miður fallandi. Það hefur sýnt sig, að þegar menn hafa teygt sig þetta hátt upp hefur ekki tekist að halda þeim framkvæmdamætti. Fellur framlagið síðan niður á árunum 1976, 1977, 1978 og 1979. Reyndar vill nú svo til, að það var einmitt, ef ég man rétt, á fjmrh.- árum þess hv. þm. sem talaði síðast og taldi ekki mikið í lagt nú, því má segja að sitt sýnist hverjum eftir því hvar hann situr.

Ég sagði, þegar ég mælti fyrir till. til þál. um langtímaáætlun í vegamálum, að ég vildi miklu fremur fá samþykkta raunhæfa áætlun, sem við gætum staðið við, sem á mætti byggja áætlanir um framkvæmdir sem við yrði staðið, en ekki hlaupist frá. Vitanlega er ljóst að verðbólgan hefur skekkt þessi mál hjá okkur undanfarin ár, og ætla ég ekki að deila á hæstv. fyrrv. fjmrh. út af því að verðbólgan hafi haft áhrif í hans tíð. Hún hefur það nú líka og varð t.d. til þess að heldur minna var til framkvæmda nú en að var stefnt og náði þó 1.92%.

Ég vil leiðrétta það, sem kom fram í síðustu ræðu, að jafnvel þótt verðbólgan yrði 50% væri um aukningu að ræða. En ég legg áherslu á það, sem ég hef hvað eftir annað sagt, að það er ekki nóg gert í verðlagsmálum og verðbólgan þarf að komast neðar og það er það stóra verkefni sem fram undan er til að tryggja að fjárveitingar til vega og fleira fái staðist. Hér er því um verulega aukningu að ræða frá því sem hefur verið öll ár nema fjögur á því tímabili sem sýnt er í súlnariti allt frá árinu 1964–1980.

Ég held að sé til lítils að setja fram og leita eftir samþykkt á þingi fyrir miklum fjölda ágætra sérverkefna, brúa yfir firði og göt á fjöll og vegsvalir og allt það, án þess að það liggi fyrir hvað slík verkefni kosta og jafnvel hvort viðkomandi hugmyndir séu rétta lausnin á verkefninu. Ég get ekki kallað slíkt annað en sýndarmennsku. Ég fagna því stórlega, framkvæma mætti öll þau gífurlegu verkefni sem í till. sjálfstæðismanna eru talin í Vestfjarðakjördæmi. Ég verð að segja að ágætir þm. Vestfirðinga í þeim flokki hafa sannarlega fengið sinn skref á þeim lista. Ég held þó að mörg þau verkefni þurfi nánari athugunar við og m.a. við þm. kjördæmisins að vega og meta hvernig þau verði leyst.

Ég vil alveg sérstaklega taka undir það sem kom fram hjá hv. 1. þm. Vesturl. um nokkur mál sem ég vil flokka undir öryggismál. Ég vil flokka undir öryggismál mál eins og Ólafsvíkurenni, Ólafsfjarðarmúla og Óshlíðina. Ég hef rætt um það við vegamálastjóra hvort unnt væri að taka þessi verkefni fyrir alveg sérstaklega og gera ákveðnar tilraunir með lausn þeirra fyrir utan hið almenna fé sem skipt er á kjördæmin eða á sérverkefni.

Ég tel að slík stór öryggismál eigi að fara með eða megi leysa með sérstakri fjáröflun. Almennt talað tel ég varhugavert að vera með, eins og iðulega var, verkefni utan hinnar almennu vegáætlunar. Ég er ekki að segja að átak eins og að loka hringveginum hafi ekki átt rétt á sér með sérstakri fjáröflun, en hins vegar ber að forðast að skekkja þannig hina almennu vegáætlun.

Ég vil leyfa mér að segja, að af þeim fáu stóru verkefnum, sem eru fram undan, sem ég tel koma til greina að fjármagna nánast fyrir utan hina almennu vegáætlun þó að vitanlega yrði slíkt að koma inn í heildarramma hennar, séu þau gífurlega stóru öryggismál sem ég taldi upp. Það mætti fjvn. gjarnan fjalla um. Ég mun hlusta á hverjar þær tillögur sem fram koma um slíkt, en vil geta þess, að að athugun allra þessara verkefna er nú unnið hjá Vegagerð ríkisins.