12.02.1981
Neðri deild: 51. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2272 í B-deild Alþingistíðinda. (2469)

189. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég nenni ekki að elta ólar við útúrsnúninga hv. síðasta ræðumanns og ýmissa annarra í sambandi við almennan frádrátt á vöxtum launamanna við tekjuskatt í ár. Við vitum að það er búið að skipa sérstaka nefnd til þess að breyta lausaskuldum húsbyggjenda í föst lán, og það sannast, svo að ekki er um villst, að þær reglur, sem hér stendur til að lögfesta og er raunar búið að semja um á milti stjórnarflokkanna og Alþfl., eru við það miðaðar að koma ekki til góða þeim húsbyggjendum sem verst eru settir. Og ég vek athygli á því, að hv. þm. Halldór Ásgrímsson, 3. þm. Austurl., dró þá almennu ályktun af ástandi lánamála, að bankarnir hefðu ekki fullnægt sjálfsögðum leiðbeiningarskyldum sínum við lántakendur varðandi frádráttarhæfni skatta. Það er þess vegna alveg ljóst, að þeir stjórnarsinnar, sem nú beita sér fyrir því að breyta hinum almennu frádráttarreglum vaxta, gera það vitandi vits og er fullvel kunnugt um þá erfiðleika sem steðja að fjölda launþega sem eru annaðhvort strandaðir með sínar íbúðir eða við það að missa þær. Ég veit að það er þýðingarlaust að flytja brtt. við frv. sem hér liggur fyrir, en þeir menn, sem kunnugir eru ungu fólki sem er að berjast í því að eignast þak yfir höfuðið, vita að ég fer hér með rétt mál.

En það voru önnur tvö atriði sem ollu því einkum, að ég stend upp nú. Það er í fyrsta lagi sú breyting, sem gert er ráð fyrir í 1. gr. þess frv. sem hér er til umr., þar sem verið er að tala um ýmsan kostnað vegna handverkfæra og hljóðfæra sem ákvarðast skuli af ríkisskattstjóra. Ég vil varpa þeirri fsp. til fjmrh. eða frsm. meiri hl. nefndarinnar, hvort þeir hugsi sér að þessi frádráttarheimild miðist almennt við það, að um það sé samið í kjarasamningum milli viðkomandi iðnaðarmannafélags og atvinnurekenda, eða hvort þetta er almenn heimild fyrir utan ákvæði kjarasamninga. En eins og þessum mönnum er báðum kunnugt miðuðust þessar frádráttarreglur samkv. eldri skattalögum við það, að um það væri samið sérstaklega í kjarasamningum.

Ég vil jafnframt varpa þeirri fsp. til formanns nefndarinnar og eins hæstv. fjmrh., hvers vegna hér eru teknar ákveðnar atvinnustéttir út úr, og vil benda á það, að ýmsar aðrar stéttir, eins og t.d. verslunarmenn, blaðamenn, verkamenn og ýmsir aðrir, leggja einnig til undir vissum kringumstæðum verkfæri, þannig að það gildir hið sama þar um. Ég vil fá nánari útlistun á því, hvers vegna þarna er sérstaklega talað um löggiltar iðngreinar og hvaða rök liggi fyrir því, að þessi regla er ekki almenn. Menn, sem kunnugir eru úti á landi, vita t.d. að verkamenn, sem eru laghentir og fást við viðgerðir á sveitabýlum eða í hinum smærri þorpum, þar sem fátt er um iðnaðarmenn, leggja sjálfir til handverkfæri. Mig langar til að spyrja hvers vegna þvílíkir menn eigi jafnan rétt gagnvart skattalögum og þeir menn sem eru í löggiltum iðngreinum.

Ég vil í öðru lagi vekja athygli á því, að hæstv. fjmrh. gaf á s.l. sumri út reglugerð um sjómannafrádrátt, sem takamarkaði mjög hinar almennu heimildir til sjómannafrádráttar samkv. lögunum eins og þau voru ákveðin á Alþingi. Það er reglugerð um sjómannafrádrátt nr. 310, 27 júní 1980, undirskrifuð af Ragnari Arnalds og Höskuldi Jónssyni. Í 30. gr. laga um tekju- og eignarskatt, lið C, segir afdráttarlaust, með leyfi hæstv. forseta:

„Sjómannafrádrátt að fjárhæð 2700 kr. fyrir hvern dag sem lögskráður maður á íslensku skipi telst stunda sjómannsstörf. Sama regla skal gilda um hlutaráðna sjómenn og landmenn enda þótt þeir séu ekki lögskráðir.“

Um fiskimannafrádrátt segir, með leyfi hæstv. forseta: „Fiskimannafrádrátt er nema skal 10% af beinum tekjum sjómanna af fiskveiðum á íslenskum fiskiskipum. Þessi ákvæði eiga einnig við um hlutaráðna landmenn.“

Nú hefur hæstv. fjmrh. gefið út reglugerð, þar sem hann takmarkar þennan sjómannafrádrátt við beitingamenn á línu, enda séu þeir hlutaráðnir, en á hinn bóginn er það fram tekið að þótt menn séu hlutaráðnir á netabátum, þá skuli þeir ekki njóta þessa réttar. Hér er horfið frá þeirri framkvæmd laganna sem verið hefur á undanförnum árum. Ég veit ekki hvort hæstv. fjmrh. er það kunnugt, en á Norðurlandi víða tíðkast það, að menn séu hlutaráðnir á netabátum ekki síður en tínubátum. Ég óska eftir upplýsingum um það, hvaða sérstöku ástæður lágu til þess, að hæstv. fjmrh. sér ástæðu til að takmarka afdráttarlaus lagaákvæði hvað þetta varðar. Ég vil einnig vekja athygli á því, að í leiðbeiningunum við útfyllingu skattframtals einstaklinga árið 1981 og skattmatsframtals árið 1981 er ekki kveðið á um þessa takmörkun, þannig að ljóst er að þetta mun valda miklum ruglingi í framtölum manna og að menn munu ætla rétt sinn meiri en hann er. Ég þarf ekki að taka fram, að víða tíðkast að fleiri menn eru lögskráðir á skip heldur en þarf í hvern róður. Menn skiptast kannske á um að vera í landi. Í allri framkvæmd þessara mála er miklu einfaldara að hafa hina gömlu reglu og láta eitt yfir alla ganga að þessu leyti, hvort sem menn eru beitingamenn eða netamenn. Ég vil einnig vekja athygli á því, að víða tíðkast það, t.d. fyrir norðan, að sömu bátarnir eru til skiptis á línu og netum, og þá getur orðið allflókið mál að gera upp að ári loknu, hver fór í hvaða róður o.s.frv. Ég sé ekki hvaða rök hníga að því, að eðlilegt sé að greina þarna á milli, og óska sem sagt eftir að fá upplýsingar um hvaða sérstöku ástæður lágu til þess, hvaða nauðsyn bar til þess að gera að þessu leyti upp á milli sjómanna.