12.02.1981
Neðri deild: 51. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2273 í B-deild Alþingistíðinda. (2470)

189. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Tveir hv. þm., Sighvatur Björgvinsson og Halldór Blöndal, hafa vikið að reglugerðarákvæðum um sjómannafrádrátt og spurt hvort ekki stæði til að gera breytingar hvað hann varðar. Þeir hafa einnig spurt að því, og þá sérstaklega fyrri ræðumaðurinn, hvaða óskir hefðu komið fram um breytingar á sjómannafrádrætti og hvað hefði verið sagt eða gert í þeim viðræðum. Ég vil af þessu tilefni láta það koma hér fram, að ég hef ekki átt í viðræðum við einn eða neinn um sjómannafrádráttinn. Það hefur enginn leitað til mín varðandi breytingar á sjómannafrádrætti, enginn svo ég minnist rætt það mál sérstaklega við mig, og ég get því ekkert um þetta mál sagt frekar.

Það má vel vera að einhvers staðar hafi einhverjir verið að ræða saman um að gera þyrfti breytingar á þessu reglugerðarákvæði, en það hefur þá ekki verið svo að ég væri áheyrandi eða nálægur. En þetta, sem þeir hafa hér nefnt, er vafalaust athyglisvert og sjálfsagt að kanna það nánar.

Ég vil þakka hv. fjh.- og viðskn. fyrir að hafa brugðist vel við og afgreitt þetta frv. með skjótum hætti. Sérstaklega vil ég þakka þeim hluta stjórnarandstöðunnar sem hefur tekið höndum saman við stjórnarþm. um að afgreiða málið þ.e. þm. Alþfl., fyrir góða framgöngu í þessu máli. Ég verð hins vegar að segja það, að mér finnast mjög kynlegar umkvartanir hv. þm. Sjálfstfl. um að ríkisstj. skuli hafa sett saman sérstakt frv. um þetta mál og flutt það hér í þinginu. Manni skilst helst að eftir að þeirra frv. kom fram hér í Nd. megi enginn annar flytja frv. um þetta efni það sé stórhneyksli, að ríkisstj. skuli hafa leyft sér að flytja annað frv. um málið — og það meira að segja í allt annarri deild en þeim þóknaðist að flytja sitt mál. Þetta er stórhneyksli.

Ég held að menn séu furðufljótir að gleyma gömlum dögum. Frsm. stjórnarandstöðunnar hér í Nd., Matthías Á. Mathiesen, er fyrrv. fjmrh., og vafalaust minnist hann þess, ef hann skoðar vel í hugskot sitt, að oft flutti hann frv. um breytingar á tekju- og eignarskatti, alveg óháð því hvaða till. eða frv. höfðu komið fram frá þáv. stjórnarandstöðu. Ég var t.d. sérstaklega duglegur í fjmrh.-tíð hans að flytja till. í skattamálum hér í þinginu en ég minnist þess ekki að mér eða raunar nokkrum öðrum hafi dottið í hug að ég ætli að stjórna því hvaða frv. fjmrh. flytti, í hvaða deild hann flytti þau o.s.frv.

Þar að auki er nú staðfest af talsmönnum minni hl., talsmönnum Sjálfstfl. hér í Nd., að frv., sem hv. sjálfstæðismenn fluttu hér í upphafi, var meingallað. Þeir hafa viðurkennt það sjálfir, að þeir vissu ekki hvað stóð í núgildandi skattalögum. Þeir hafa viðurkennt að þeir héldu að sá skattfrádráttur, sem þeir voru að leggja til væri allt annar en sá sem hann raunverulega var samkv. till. Þarna skeikaði nú bara einum litlum 3 milljónum. Till. þeirra gekk út á það, að skattfrádráttur vegna vaxta ætti að vera 8 millj. hjá hjónum. En hann var í reynd 11 millj. og það höfðu þeir ekki hugmynd um. (HBI: Veist þú nokkuð um það?) Ég veit fullvel um það, vegna þess að till. gekk út á það, að vaxtafrádráttur hjá hjónum væri upp á 8 millj. gkr., en flm. höfðu ekki áttað sig á því, að síðan hefði þessi upphæð tekið breytingum samkv. skattvísitölu og bætt við sig 45%, og þá er upphæðin komin upp í rúmar 11 millj. Sem sagt, till. var botnlaus. Þegar hv. sjálfstæðismenn koma síðan með nál. úr fjh.- og viðskn. treysta þeir sér ekki til að standa við þetta gamla frv., vegna þess að þeir gera sér grein fyrir að það er botnlaust og getur ekki staðist. Mér finnst því, þegar þetta liggur fyrir, dálítið ósvífið að gera ráð fyrir að ríkisstj. geti ekki leyft sér að flytja eigið frv. um þetta mál í þinginu og þurfi að taka mið af því frv. sem þeir nú hafa viðurkennt að var reist á sandi og byggðist á misskilningi.