12.02.1981
Neðri deild: 51. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2274 í B-deild Alþingistíðinda. (2471)

189. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það undrar mig sérstaklega að heyra í ræðu hæstv. fjmrh., að hann virðist ekki kannast við neina umræðu um umbætur á svokölluðum skattfríðindum sjómanna. Nú er ég persónulega kunnugur því, að margir af forustumönnum úr röðum sjómanna hafa talið að meðal margra loforða, sem þeir áttu að fá í sinn félagsmálapoka, oftar en einu sinni, væru umbætur á skattfríðindum þeirra. Og eitt af því, sem þar kom til umræðu, var það vandamál sem hv. 3. þm. Vestf., Sighvatur Björgvinsson, benti réttilega á, það skattafrádráttartap sem sjómenn hafa orðið fyrir af því að afskráð er af skipunum í stuttan tíma þegar skipin hafa orðið að stöðvast, t.d. vegna veiðibanns sem hefur orðið til vegna stjórnvaldsaðgerða, m.a. vegna fjölgunar skipa sem íslensk sjómannastétt hefur ekkert ráðið við.

En ég hef ekki heyrt að í umræðum manna hér hafi verið minnst á forsendu þess, að þessi skattafrádráttur væri veittur, og kemur mörgum ókunnuglega fyrir, þ. á m. sumum yngri þm. Ég verð líka var við það í bréfum sem koma til Alþingis, að svo er einnig um iðnrekendur. Þeir telja það geta orðið stóran þátt í vænlegri björgun íslensks iðnaðar að fólk á þeirra vegum fái slíkan frádrátt líka. Nú vil ég leyfa mér að nota örfáar mínútur af tíma þingsins til að benda á af hverju þessi frádráttur er til kominn m.a. Hann er til kominn fyrst og fremst af því, að það er viðurkennd staðreynd nú í dag og hefur verið vísindalega sönnuð um leið og reyndar þekkt í okkar sögu um aldaraðir að það er erfiðara að standa að störfum á sjó en á landi. Það hefur verið sannað, að þetta getur þýtt um 25–30% meira álag á sjómenn en þá sem hafa fast land undir fótum. Þetta er líka að nokkru leyti viðurkenning þjóðfélagsins á þeirri hættu sem þetta starf hefur í för með sér. Ég geri ekki ráð fyrir að það séu margar stéttir í þessu þjóðfélagi sem þurfa að standa upp eftir hvert starfsár og telja jafnvel í prósentum þann hluta af sínu starfsliði sem hefur farist í starfi á liðnu starfsári. Ég þekki ekki til þess annars staðar.

Svo skulum við líka hafa í huga þá sérstöðu þessara manna — sem fleiri búa að vísu við nú orðið, þ. á m. virkjunarmenn og fleiri, en þó engir frekar en sjómenn — að þessir menn fara vegna vinnu sinnar á mis við margt af því sem tekið er af þeim gjald fyrir í sameiginlegri skattheimtu, en þeir fá ekki notið vegna sinnar fjarveru, en aðrir landsmenn hafa að sjálfsögðu full not af.

Þetta eru þrjú stærstu atriðin sem eru ástæðan fyrir því, að sjómenn hafa fengið þessi fríðindi viðurkennd. Þetta minnir mig á það, að í einum samningaviðræðum, sem voru komnar í strand milli farmanna og útgerðarmanna farskipa á tímum viðreisnar, leystist málið með því, að þáverandi fjmrh. og reyndar skattayfirvöld önnur viðurkenndu það — enda voru lögin öðruvísi orðuð þá — að farmenn ættu rétt á nákvæmlega sama frádrætti og fiskimenn. M.a. vegna þess að lofað var að þetta kæmi til framkvæmda á næsta ári náðust samningar. En svo skeður það, að vinstri stjórn tók við völdum í þjóðfélaginu árið 1971, og fyrsta skattalagabreyting, sem sú stjórn lét framkvæma, var að svipta farmenn þessum frádrætti. En það var þó nokkur bót í þeirri breytingu, að fiskimenn fengu réttmæta hækkun.

Ég hef spurt nokkra af fjárhagsnefndarmönnum um það í sambandi við umræður um gildandi lög — sem við erum að ræða — hvað hafi orðið af svokölluðum björgunarlaunafrádrætti sem sjómenn aðallega nutu. Sjómenn hafa spurt mig að þessu að undanförnu, þ. á m. tveir yfirmenn af skipi. Þeir lögðu þar svo gífurlega mikið bæði á skipshöfn og sjálfa sig, að þeir urðu frá vinnu vikum saman á eftir. Þeir treystu sér bókstaflega ekki til — eftir það andlega og líkamlega álag sem þeir lentu í — að fara til sjós aftur í nokkra mánuði. En björgunarlaunum var að fullu bætt við tekjur þeirra og þeir urðu að borga fullan skatt af þeim. Aðrar reglur giltu hér áður, og það kemur mér ókunnuglega fyrir að þessi breyting hafi verið gerð. Það hefur farið fram hjá mér þótt ég hafi margoft spurt að þessu og ýjað að því, hvort þetta gæti virkilega verið. Ég vil því gjarnan spyrja hæstv. fjmrh. hvort þetta hafi verið gert að hans undirlagi og hvort hann mundi ekki vilja beita sér fyrir því, að þetta væri aftur tekið inn í lögin.

Ég vil svo að lokum, vegna þess að það hefur orðið nokkur umræða um þann frádrátt sem nú er veittur bæði vegna verkfæra og hljóðfæra, taka undir og styðja það eindregið vegna hinnar miklu sérstöðu sem hljóðfæraleikarar hafa. Þetta er sú atvinnustétt í landinu sem er með ákaflega dýr verkfæri sem þeir verða að fjármagna sjálfir og gæta og nota við sína atvinnu, og mér finnst vera réttlætismál að þeir fái þennan frádrátt.