12.02.1981
Neðri deild: 51. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2277 í B-deild Alþingistíðinda. (2473)

189. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég skal ekki leggja efnislega meira til þessarar umræðu en ég hef þegar gert við 1. umr. þessa máls, svo og reyndar þegar ég flutti framsöguræðu fyrir frv. sem við hv. þm. Halldór Blöndal fluttum. En ástæðan fyrir því, að ég stóð hér upp, er sú, að hæstv. fjmrh. sá sérstaka ástæðu til þess í sinni ræðu að hnýta í okkur flm. frv. um tekjuskatt og eignarskatt og taldi að við hefðum ekki vitað hvað við værum að gera þegar við lögðum fram okkar frv. Ég rifja upp í því sambandi að ég tók það skýrt fram og hef alltaf tekið það skýrt fram þegar ég hef talað fyrir þessu máli, að við ætluðumst til þess að sú 4 millj. kr. vaxtafrádráttarupphæð, sem við töluðum um, væri grunntala. Ég sá sérstaka ástæðu til þess að ítreka það vegna þess, að hæstv. fjmrh. hefur rangtúlkað það í opinberum umræðum, hver væri okkar hugur og vilji í þessu efni. Fjmrh.: Þið hafið ekki kynnt ykkur þetta.)

Mér finnst það koma úr hörðustu átt frá hæstv. fjmrh., þegar hann er að væna almenna þm. hér um það, að þeir viti ekki hvað þeir eru að gera í skattamálum, því að ef það er einhver maður í þessum sat sem hefur sýnt það og sannað, að hann viti ekki hvað hann er að gera, þá er það hæstv. fjmrh. Við fáum hér hvað eftir annað frv. til breytinga á skattalögum. Við fengum frv. til breytinga á skattalögum í febrúar í fyrra sem hæstv. fjmrh. sá um að væri endanlega afgreitt hér í Alþingi. Við fengum frv. til breytingar skattalaga í maí í fyrra og það var ekki betur undirbúið og hæstv. fjmrh. vissi ekki betur hvað hann var að gera þá en svo, að við fengum hverja brtt. á eftir annarri frá hæstv. ráðh. við hans eigið frv. Hann dró til baka eigin till. og setti nýjar fram í staðinn. Síðan leggur hæstv. fjmrh. fram nú frv. til breytinga á skattalögum í Ed. og þá hefðu menn haldið að nóg væri að gert. Nei, hæstv. fjmrh. boðar að það eigi enn eftir að koma frv. til breytinga á skattalögum áður en þessu þingi verður slitið. M.ö.o.: hæstv. ráðh. hefur sýnt það og sannað, að hann hefur ekkert vald á skattamálunum. Hann nær alls ekki utan um þau á þann hátt sem gera verður kröfu um til ráðh. Það kemur því úr hörðustu átt, þegar hæstv. ráðh. sér sérstaka ástæðu til þess að hnýta í okkur almenna þm., þegar við gerum hér tillögur af góðum hug um réttmætar breytingar á skattalögum. Hann með allan sinn sérfræðingaskara á hælunum hefur sýnt það og sannað, að hann veit sjálfur alls ekki hvað hann er að gera eða hvaða þýðingu hinar einstöku till. hafa sem hann leggur hér fram.