12.02.1981
Neðri deild: 51. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2278 í B-deild Alþingistíðinda. (2474)

189. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður, enda var um það talað og samið að afgreiða þetta mál í dag fyrir kl. 4 úr deildinni. En ég vildi aðeins endurtaka þann skilning sem ég legg í sjómannafrádráttinn. Það stendur skýrt í lögunum, að þessi ákvæði eigi einnig við um hlutaráðna landmenn, en eins og hv. þm. Halldór Blöndal flutti sitt mál hér, þá sagði hann að það væri ekki framkvæmt svo og það stafaði af því sem stæði í reglugerð, sem ég vissi að vísu ekki um að hefði verið sett og hef ekki haft tækifæri til að kynna mér, þó að ég hafi rétt aðeins getað rennt augunum yfir hana. En ef það er bannað í þessari reglugerð sem í lögum stendur, þá stenst hún að sjálfsögðu ekki, hver svo sem hefur sett þá reglugerð. Lög eru hafin yfir reglugerðir. En ég á afskaplega erfitt með að trúa því, að ágætir embættismenn í fjmrn., sem hafa reynst mér afskaplega nákvæmir og góðir embættismenn, hafi komið því þannig fyrir í reglugerð, þó að e.t.v. megi misskilja þetta orðalag eitthvað og það hefði átt að vera skýrara. En mér finnst ástæðulaust að deila um það. Það verður að gilda sem í lögum stendur.

Ég vil einnig taka það fram í sambandi við þetta mál, að þegar þessi breyting varð á sínum tíma, þá var um það talað að sjómannafrádrátturinn yrði sem næst óbreyttur. Þess er hins vegar að geta, að fyrri hluti sjómannafrádráttarins, þ.e. 2700 kr. á dag, sem nú er orðinn 4000 kr., er fyrst og fremst hugsaður vegna kostnaðar sem sjómenn hafa af öflun tekna. Það er hlífðarfatafrádráttur, sem einu sinni hét, og annað slíkt sem var sameinað í þennan frádrátt. Þessi liður frádráttarins verður alltaf að einhverju leyti tengdur því, hversu lengi er starfað. Það er komið þar upp sérstakt vandamál sem þarf að taka á þegar farið er að afskrá menn og þeir taka fríi jafnvel í 1–2 mánuði. Á þetta þarf að líta, en áður fyrr er mér ekki kunnugt um að sjómenn hafi fengið frádrátt vegna þessa tíma. Hins vegar fengu þeir alltaf frádrátt vegna annarra starfa í þágu útgerðarinnar. T.d. ef þeir unnu við viðhald og annað slíkt, þá nutu þeir þessa frádráttar einnig vegna þeirra starfa. Og mér finnst spurningin vera um það, hvort þessu hefur verið breytt, en þennan frádrátt höfðu sjómenn áður.

Ég vil aðeins að lokum taka það fram, að mér finnst óvarlegt að gera allt of mikið úr því, hvað þessar reglur um vaxtafrádrátt séu flóknar. Þær eru í sjálfu sér ekkert flóknar ef menn lesa í gegnum þær. Menn gera allt of mikið úr því hvað hlutirnir séu flóknir í sambandi við skattalög, m.a. vegna þess að ég held að mörgum leiðist þessi mál og þeir vilji ekki hafa mikið fyrir að setja sig inn í þau. Þetta er tiltölulega einföld regla. Hún er fyrst og fremst þannig, að það eru allir vextir frádráttarbærir vegna öflunar eigin húsnæðis. Þetta er alveg ótakmarkað í fimm ár, ef verið er að byggja, og í þrjú ár, ef verið er að kaupa, en síðan þarf fólk á þessum tíma að breyta lánum sínum í ákveðið form til að þessi frádráttur geti haldist áfram, umfram þessi fimm ár og þessi þrjú ár. Þetta er nú það sem fólk almennt gerir. Það stendur í vandræðum og að vísu ná þau oft yfir miklu lengri tíma. Fólk reynir síðan að breyta sínum lánum í lengri lán, þannig að mér finnst allt of mikið gert úr því hvaða erfiðleikum þetta muni valda. Að sjálfsögðu eiga menn í ýmiss konar erfiðleikum í þjóðfélaginu, en ég held að þetta atriði breyti þar ekki öllu.

Einnig vildi ég taka það fram í sambandi við iðnaðarmennina, að þessi frádráttur var viðurkenndur áður. Það er að vísu ýmiss konar kostnaður sem menn geta lent í vegna öflunar tekna, en iðnaðarmenn hafa þá sérstöðu að þeir starfa yfirleitt sjálfstæðar en aðrir. Þeir eru ekki á ákveðnum vinnustað þar sem þeir geta gengið að verkfærum og ýmsu slíku. Þeir þurfa frekar að eiga verkfæri sjálfir en almennt gerist á vinnustöðum. Það er út frá þessu sjónarmiði sem rétt þykir að taka sérstaklega tillit til þeirra.

Menn, sem taka að sér að vinna úti um sveitir og á ýmsum stöðum, eru þá almennt atvinnurekendur. Þeir hafa bílkostnað og ýmsan annan kostnað og taka laun sem atvinnurekendur og í skjóli þess geta þeir að sjálfsögðu dregið frá allan þann kostnað sem þeir hafa við öflun tekna.