16.02.1981
Neðri deild: 53. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2287 í B-deild Alþingistíðinda. (2496)

5. mál, barnalög

Frsm. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Hv. 10 landsk. þm. gerði hér að umtalsefni 17 gr. frv. og beindi til mín spurningum sem ég mun reyna að svara.

N. tók það ekki sérstaklega fyrir að gera þyrfti breytingu á því ákvæði sem víkur að innheimtu samkv. úrskurði frá valdsmanni um greiðslu á meðlagi til starfsþjálfunar. Mér er til efs að skynsamlegt sé að láta það atriði valda deilum, jafnvel þó svo menn hefðu eitthvað skiptar skoðanir á því.

Á hinu vil ég vekja athygli, að ef við hefðum samþykkt ákvæðið til 24 ára aldurs hefðu óskilgetin börn haft meiri rétt í þessu landi en skilgetin því að ekkert ákvæði íslenskra laga mælir fyrir um að þú skulir greiða með börnum þínum eftir að þau eru búin að ná lögaldri. Ég held að við ættum að trúa því, að reynist þarna um vandamál að ræða í framtíðinni sé auðvelt að kippa því í liðinn, annaðhvort í gegnum almannatryggingalöggjöfina eða þá með smávægilegum breytingum á barnalögum seinna meir. En ég mælist eindregið til þess, að það verði ekki farið að tefja málið með breytingum nú í deildinni.