16.02.1981
Neðri deild: 53. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2290 í B-deild Alþingistíðinda. (2499)

209. mál, tollskrá

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég fagna því, að þetta frv. er loksins fram komið. Ég hafði reyndar átt von á því fyrr. Þegar ég lagði fram fsp. vegna þessa máls í október s.l. kom það fram hjá hæstv. fjmrh. við umr. um fsp. að þetta frv. yrði lagt fram alveg á næstu dögum, en síðan eru reyndar liðnir nær fjórir mánuðir. Ástæðan fyrir því, að ég lagði mikla áherslu á að frv. yrði lagt fram í upphafi þings s.l. haust, var að úthlutun þessara bifreiða fer fram síðari hluta febrúar — eða á allra næstu dögum — og því mikilvægt, að málið tefjist ekki hér á hv. alþingi, og æskilegt hefði verið að þm. fengju eðlilegan tíma til að fjalla um málið.

Þegar sams konar mál var til umr. hér á hv. Alþingi s.l. vor, rétt fyrir þingslit, komu fram nokkrar brtt. við frv. sem þá lá fyrir þinginu, en flm. brtt. féllust á að draga þær til baka, enda yrði þá tekið tillit til þeirra við endurskoðun þessa máls í heild. Mér sýnist í fljótu bragði að tillit hafi verið tekið til flestra þeirra ábendinga og brtt., sem fram komu við umr. um þetta mál hér á hv. Alþingi fyrir tæpu ári, m.a. þeirrar brtt. sem ég lagði fram, að upphæð niðurfellingar gjalda á bifreiðar öryrkja fylgdi þróun verðlags á hverjum tíma, en það þyrfti ekki samþykki löggjafans á hverju ári, svo sjálfsögð sem sú breyting er. Ég get því fyrir mitt leyti fallist á þær breytingar, sem fram koma í 1. gr. frv., og tel þær allar til bóta þó ég hefði heldur kosið að í 4. mgr. 1. gr., þar sem segir að fjmrh. sé heimilt að breyta fjárhæðunum til samræmis við þróun framfærsluvísitölu, kæmi fram að í stað heimildar væri skylt að breyta fjárhæðunum til samræmis við þróun framfærsluvísitölu hverju sinni. Ég vænti, að nefnd sú, sem fær þetta mál til meðferðar hafi þetta í huga, og beini því til hennar að hún athugi sérstaklega það atriði.

Í frv. hefur fjöldi bifreiða, sem fella má niður gjöld af, verið aukinn og er það vel, þó auðvitað megi deila um það fram og til baka hvort talan 500 sé sú rétta. Í fyrra sóttu t.d. 700 öryrkjar um þessa niðurfellingu og er mér tjáð að í ár séu þeir a.m.k. ekki færri.

Herra forseti. Ég skal ekki orðlengja þetta frekar, en legg áherslu á að nefndin, sem fær málið til meðferðar, hraði störfum hvað þessu máli viðvíkur og að þm. geti sameinast um framkvæmd málsins þannig að úthlutun, sem á að fara fram núna alveg á næstu dögum, tefjist ekki.