17.02.1981
Sameinað þing: 49. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2309 í B-deild Alþingistíðinda. (2508)

369. mál, vaxtaútreikningur verðtryggðra lána

Fyrirspyrjandi (Guðmundur G. Þórarinsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. viðskrh. fyrir þessi svör, þó að ég verði að játa að mér þykja þau nokkuð fátækleg. Ég fæ ekki séð að í svari bankans komi raunverulega fram skýring á því sem um er að ræða. Ég hef undir höndum útreikning á því frá hagfræðingadeild eins ríkisbankans, samanburð annars vegar á verðtryggðu innláni og hins vegar á verðtryggðu útláni, sömu upphæð yfir sama tíma með sömu vöxtum. Nú er það auðvitað skiljanlegt mál, að útlán beri hærri vexti en innlán. En mér er gersamlega ómögulegt að skilja það, hvers vegna bankar geta leyft sér að reikna vexti á annan hátt af verðtryggðum innlánum en af verðtryggðum útlánum, hvernig unnt er að leyfa sér og gefa sér þá reglu að reikna vexti af útlánum verðtryggða en af innlánum óverðtryggða, þó að enginn möguleiki sé fyrir hinn almenna borgara, ef bornir eru saman skilmálar þessara reikninga og kjör, að sjá að þarna geti verið um mun að ræða.

Skýringar Seðlabankans eru almenns eðlis um fasta gjalddaga útlána, en á innlánsreikninga má leggja nánast hvenær sem er. Þessi atriði snerta í engu þau atriði sem hér er spurt um. Hér er spurt um það grundvallaratriði að reikna vextina á mismunandi vegu. Þessar útreikningsaðferðir eru þannig: Ef um er að ræða 1 millj. gkr. — þetta er hugsað eða tilbúið dæmi — sem lögð er inn 30. des. 1979, og síðan beitt lánskjaravísitölu þess árs og ávöxtun 1%, þá mundi vera inni á þessum verðtryggða reikningi í árslok 1 527 992 gkr. Ef hins vegar er athugað jafnhátt vísitölutryggt útlán yfir sama tíma með einum gjalddaga, þá væri það útlán orðið 1 530 538 gkr. þó um sömu vexti væri að ræða, munurinn væri 2266 gkr., en það svarar því að áunnir vextir væru verðbættir á innlánsreikningi.

Mér er alveg ómögulegt að skilja hvernig ríkisbankar geta meðhöndlað vaxtareikning á þennan hátt, og ég vil mjög eindregið beina þeim tilmælum til hæstv. viðskrh., að hann hlutist til um að þessum útreikningsreglum verði breytt. Það er feiknalegt atriði, þegar verðtryggðir reikningar eru stofnaðir, að traust almennings á slíkum reikningum sé vakið og menn sjái að þeir séu í reynd verðtryggðir. Nú er ég ekki að draga úr því, að svo sé, en reikningskúnstir á borð við þetta gera náttúrlega ekkert annað en að draga úr trausti á þessum stofnunum og trausti á þeim innlánsreikningum og reikniaðferðum sem þarna er beitt.