03.11.1980
Neðri deild: 9. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í B-deild Alþingistíðinda. (251)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Á þeim tíma, sem liðinn er síðan ég fékk vitneskju um þessa fsp. frá hv. 1. þm. Reykn., — hann ræddi við mig nokkru fyrir hádegi, — hef ég reynt að kynna mér þetta mál, en ekki tekist það nema að nokkru leyti á þessum skamma tíma.

Talið er að útgerðarfyrirtæki togarans Guðsteins eigi við örðugleika að etja, og það mun hafa spurst, að togarinn væri falur. Mér er tjáð að tveir aðilar hafi gert tilboð um að kaupa skipið, annar í Reykjaneskjördæmi, en hinn annars staðar á landinu.

Nú er það auðvitað ljóst, að það er stórt mál fyrir hvert byggðarlag ef svo mikið atvinnutæki eins og togari hverfur þaðan á brott. Ég hef kynnt mér hvort málið hafi borist til Framkvæmdastofnunar, en eftir samtali bæði við stjórnarformann Framkvæmdastofnunar og forstjóra mun svo ekki vera, að nein erindi hafi borist þangað í sambandi við þetta mál.

Mér finnst sjálfsagt að verða við tilmælum hv. 1. þm. Reykn. Ég mun biðja Framkvæmdastofnun að kynna sér málið og mun reyna að fylgjast með gangi þess.