17.02.1981
Sameinað þing: 49. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2314 í B-deild Alþingistíðinda. (2513)

370. mál, viðskiptahættir ríkisbanka

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Þetta bréf sem ég las upp hér áðan frá viðskrn. til Seðlabankans er alveg skýrt í þessum efnum. Það er skoðun rn., að þessir viðskiptahættir séu ekki eðlilegir, um vaxtakjör og öll inn- og útlánakjör, hverju nafni sem nefnast, eigi að fara eftir þeim reglum sem auglýstar eru almenningi. Ég álít að viðskiptavinir bankanna hafi ekki neina aðstöðu til þess að semja um eitt eða annað á jafnréttisgrundvelli í slíkum efnum, vegna þess að þeir eiga engan annan kost en að skipta við sinn banka. Þeir geta ekki gengið inn í hvaða banka sem er og skipt við hann, eins og kunnugt er. Þess vegna álít ég að þessa viðskiptahætti eigi að leggja af. Ég er þeirrar skoðunar og mun gera mitt til þess að reyna að stuðla að því. Ég vona að Seðlabankinn hafi tekið þessi mál fastari tökum en áður og það muni leiða til þess, að þessir viðskiptahættir verði lagðir niður. Þannig háttar til núna, að bankarnir hagnast ekki á svona fyrirkomulagi, en þeir gátu gert það í eina tíð. Og ég veit um fyrirtæki, sem hefur greitt verulegt fé vegna þess að það var með raunverulega bundnar innistæðu inni á bók sem greiddir voru miklu lægri vextir af en þeir vextir sem þurfti að borga af víxillánum og öðrum þeim lánum sem fyrirtækið þurfti að sæta. Ég get því svarað þeirri spurningu, að fyrir mitt leyti mun ég stuðla að því, að þessir viðskiptahættir verði lagðir af.