17.02.1981
Sameinað þing: 49. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2315 í B-deild Alþingistíðinda. (2515)

370. mál, viðskiptahættir ríkisbanka

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. viðskrh. fyrir svar hans. En það er ekki fullnægjandi fyrir mig, að ráðh. segi að hann muni beita sér fyrir, að það sé hans ósk, sín skoðun o.s.frv. Ráðh. hefur völdin til þess að fyrirskipa að óeðlilegir viðskiptahættir eigi sér ekki stað í viðskiptabönkunum.

Það er ekki bara þetta mál sem þyrfti þá að rannsaka. Hvernig í ósköpunum stendur á því, að í þjóðfélagi, sem byggt er upp á þann hátt sem okkar er, geti einstakar ríkisstofnanir skipst þannig á upplýsingum sín á milli, að þær hafi sama yfirlitið yfir fjárhagslega stöðu manna og viðskipti þeirra við peningastofnanir bankanna allra? Þetta eru persónunjósnir sem þýða það, að menn geta ekki sem frjálsir aðilar farið inn í hvaða peningastofnun sem er og óskað eftir viðskiptum. Ef staðan er sú fyrir einstaklinginn, að hann er skráður viðskiptavinur á einum stað, þá eru aðrir bankar honum lokaðir yfirleitt. Þessar persónunjósnir, sem ganga á milli ríkisstofnana, eiga sannarlega að hætta.