17.02.1981
Sameinað þing: 49. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2319 í B-deild Alþingistíðinda. (2518)

363. mál, Framleiðslueftirlit sjávarafurða

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Karlsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. sjútvrh. fyrir svör hans. Vissulega er þarna um endalaust matsatriði að ræða, hvernig á að standa að þessum málum. Vitanlega hlýtur aukin vöruvöndun og bætt gæði að vera það markmið sem við stefnum að, en alltaf verður spurning hvernig að þessu á að standa. Og fram hjá því getum við ekki gengið, að við höfum orðið fyrir meiri eða minni skakkaföllum á mörkuðum okkar á undanförnum árum, ekki bara í frystum afurðum, heldur og saltsíld, saltfiski og skreið, þrátt fyrir hið opinbera fiskmat sem hér hefur verið starfandi. Það er ekkert undarlegt í sjálfu sér þó að stofnun sem þessi verði fyrir stöðugri gagnrýni. Það er ekki nema eðlilegt. Hún hlýtur að verða fyrir gagnrýni bæði frá seljendum hráefnisins og kaupendum.

Það er staðreynd, að endanleg ábyrgð og fjárhagsábyrgð vörunnar verður alltaf hjá framleiðandanum. Ég tel því eðlilegt að hann annist meira af því eftirlits- og matsstarfi sem til þessa hefur verið unnið hér. Og ég vona að stjórnkerfi okkar standist það próf sem það gengur undir um að endurskipuleggja þessa stofnun.