17.02.1981
Sameinað þing: 49. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2325 í B-deild Alþingistíðinda. (2521)

374. mál, kannanir á tekjuskiptingu og launakjörum

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Varðandi síðustu orð hæstv. ráðh., að ég hefði getað fengið upplýsingar um þetta hjá Kjararannsóknarnefnd, þá tel ég varla að Kjararannsóknarnefnd hefði getað upplýst mig um það, á hvern veg hæstv. ríkisstj. hyggst haga framkvæmd þeirrar þál. sem samþykkt var á Alþingi í apríl 1980. En ég vil segja það, að svör hæstv. ráðh. valda mér nokkrum vonbrigðum. Þau voru meira lýsing á því, hvaða upplýsingar lægju fyrir um einstaka liði hjá Kjararannsóknarnefnd og hvað sé raunar á færi Kjararannsóknarnefndar í þessu máli að framkvæma, heldur en hvernig ríkisstj. hefur hagað framkvæmd þál. og hvort ekki liggi fyrir að þegar hafi verið hafist handa um framkvæmd hennar.

Þær upplýsingar, sem fram koma hjá ráðh., sýna raunar að ekki hefur verið hafist handa um framkvæmd þessarar þál. Það lá alveg ljóst fyrir þegar þessi till. var samþ., að fleiri aðilar en Kjararannsóknarnefnd kæmu inn í þetta dæmi. Vil ég benda á að t.d. um fyrsta liðinn segir í grg.:

„Hinar margvíslegu upplýsingar, sem hér kynnu að koma að notum, eru fyrir hendi á víð og dreif um þjóðfélagið, t.d. hjá Þjóðhagsstofnun, Kjararannsóknarnefnd, verkalýðsfélögum, Hagstofu, verðlagsstjóra, skattstofum og fleiri aðilum.

Eðlilegt má telja að slíkar upplýsingar séu varðveittar á einum stað, þar sem hægt sé að endurbæta þær eins og tilefni gefast til og vinna úr þeim.

Ekki er óeðlilegt að álíta Kjararannsóknarnefnd í tengslum við Þjóðhagsstofnun, rétta aðila til að sinna slíku verkefni, þó að einstaka verkefni mætti fela öðrum aðilum. T.d. mætti e.t.v. fela Háskóla Ístands sum rannsóknar- og könnunarverkefnin.“

Vitanlega geri ég mér það ljóst, að hér er um yfirgripsmikla og viðamikla könnun að ræða. Engu að síður taldi ég að fleiri aðilar kæmu inní málið en Kjararannsóknarnefnd, en eins og fram kemur hjá ráðh. hefur einungis verið leitað álits Kjararannsóknarnefndar í málinu og raunar ekki verið unnið úr svari Kjararannsóknarnefndar. Ég vil þó fagna því, að fram kemur hjá ráðh. að hann hyggst nú á næstunni athuga í samráði við Kjararannsóknarnefnd, Jafnréttisráð og fleiri aðila hvernig þessum málum verði best fyrir komið.

Og ég vil vekja athygli á því, að Alþingi hefur gert sér það ljóst, að þetta verkefni væri kostnaðarsamt, vegna þess að um 15. lið till. segir í grg.: „Vissulega er hér um ærið yfirgripsmikið og jafnvel kostnaðarsamt verkefni að ræða.“ Alþingi hefur því gert sér grein fyrir því, að auðvitað kostar talsvert að framkvæma slíka könnun. En ég vil samt leggja áherslu á það, að ríkisstj. fari að vilja Alþingis í þessu máli og að þessar kannanir verði framkvæmdar. Auðvitað taka sum verkefni þarna nokkurn tíma, ég geri mér það alveg ljóst. En ég tel nauðsynlegt að framkvæmd þessarar þál. verði hraðað eins og kostur er, því að ég tel að án slíkrar þekkingar, sem fengist gæti við framkvæmd þál., verði allar ákvarðanir í kjaramálum og tekjuskiptingu í þjóðfélaginu handahófskenndar og kannske ekki síður óréttlátar, þar sem raunsætt mat og yfirsýn yfir alla kjaraþætti liggur oft ekki til grundvallar ákvarðanatöku í þeim málum. Og fyrr en við höfum heildarsýn yfir raunveruleg launakjör í landinu er þess vart að vænta, að við búum við sanngjarna og réttláta tekjuskiptingu.