17.02.1981
Sameinað þing: 49. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2329 í B-deild Alþingistíðinda. (2526)

210. mál, vaxtabreytingar

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Hv. 10. þm. Reykv. hefur lagt fram fsp. í þremur liðum á þskj. 413. Í fyrsta lagi: „Hvernig hafa raunvextir í bönkum breyst á innlánahlið og útlánahlið frá áramótum?“

Ég hef óskað eftir því við Seðlabankann, að hann svaraði þessari spurningu. Hann er sú stofnun, sem fjallar um vaxtamál, og eðlilegast að leita til hennar með spurningar sem eru öðrum þræði nokkuð tæknilegar. Í svari hagfræðideildar Seðlabankans segir svo:

„Við þessari spurningu er ekki unnt að gefa neitt einhlítt svar, þar sem verðbólgan kemur mjög rykkjótt fram í einstökum mælingum, sem yfirleitt eru ekki gerðar nema á þriggja mánaða fresti. Þannig varð hækkun vísitölu framfærslukostnaðar yfir þrjá mánuði til 1. febrúar 14.3%, en hækkunin í janúar varð hins vegar aðeins 1.62%. Til þess að ráða fram úr þessum vanda hefur Seðlabankinn þróað aðferð til þess að meta þá verðbólgu, sem til grundvallar liggur hverju sinni, með því að meta verðbólgu síðasta ársfjórðungs og horfur hins næsta að jöfnu, en ársfjórðungana á undan og eftir það að hálfu við þá. Slíkt mat er þó tæpast gerlegt um hvern mánuð fyrir sig og liggur þannig ekki fyrir um tímann frá áramótum sérstaklega. Til þess að gera nokkra úrlausn má miða við verðbólgustigið í nóvember s.l., endurskoðað samkvæmt nýjustu heimildum, og verðbólgustigið svo sem það er metið nú í febrúar með hliðsjón af verðtagsspá Þjóðhagsstofnunar, hvort tveggja metið með fyrrgreindri aðferð. Verðbólgustigið í nóvember er þannig 57.6%, en í febrúar 55%, ef það er reiknað með þeirri aðferð sem ég gerði grein fyrir.

Vextir hafa almennt ekki breyst á þessu tímabili og reynsla ekki komin á sex mánaða sparifjárreikninga. Á þessum grundvelli má gefa eftirfarandi yfirlit með einstökum dæmum og meðalvöxtum á hvora hliðina sem er, innlána- eða útlánahlið.

Ef fyrst er lítið á almenn spariinnlán, þá eru nafnvextir á þeim 35%. Ef verðbólga væri 57.6%, þá væru vextir neikvæðir um 14.3%, þá væru raunvextir — 14.3%. Ef verðbólga væri hins vegar 55% væru þeir neikvæðir um 12.9%. Af þriggja mánaða vaxtaaukareikningum eru nafnvextir 40.5%. Ef verðbólgustigið væri 57.6% væru þeir neikvæðir um 10.9%, en ef það væri hins vegar 55% væru þeir neikvæðir um 9.4%. Af 12 mánaða vaxtaaukareikningum eru nafnvextir 46%. Raunvextir miðað við 57.6% verðbólgu væru þá -7.4% og -5.8% miðað við 55% verðbólgu. Ef metnir eru meðalvextir þessara innlána, þá eru nafnvextir að meðaltali 34.1% og raunvextir miðað við 55 – 57.6% verðbólgu neikvæðir um 13.5 – 14.9%.

Ef lítið er á útlánahliðina og fyrst nefnd endurseld afurðalán í krónum, þá eru ársvextir 32.3%. Raunvextir miðað við 57.6% verðbólgu eru -16% og miðað við 55% verðbólgu -14.6%. Af víxillánum eru ársvextir 42.7% og miðað við þessi fyrrgreindu verðbólgumörk væru þeir neikvæðir um 8 - 9.5%. Af vaxtaaukalánum, þegar um tvo gjalddaga er að ræða, eru ársvextir 50.1%. Raunvextir miðað við þessi fyrrgreindu verðbólgustig væru þá -3.2 – 4.8%. Af vísitölutryggðum lánum eru nafnvextir 58.9 – 61.5%. Miðað við þessi fyrrgreindu mörk væru raunvextir jákvæðir um 2.5%.

Meðalvextir af þeim dæmum, sem hér hafa verið tekin, eru þeir, að ársvextir eru 46.4–46.6% og raunvextirnir neikvæðir um 5.6 – 7% miðað við þessi fyrrgreindu verðbólgumörk.

Þess skal getið til skýringar, að nafnvextir — eða ársávöxtun vísitölubundinna inn- og útlána — koma út með mismunandi niðurstöður eftir verðbólgustigi, og hið sama gildir í minna mæli um meðalvextina. Enn fremur að vaxtaaukainnlán geta hlotið nokkru hærri ávöxtun falli stofnun eða slit þeirra reikninga til innan ársins.“

Svarið við þessari spurningu, eins og kemur fram í þessum svörum Seðlabankans, er auðvitað alls ekki ljóst, vegna þess að það liggja ekki fyrir útreikningar á verðbólgustiginu yfir einn og hálfan mánuð, heldur er það gert með þeim hætti af hálfu Seðlabankans, sem ég greindi frá hér áður úr svari bankans.

Annar liður fsp. er svohljóðandi: „Eru ráðgerðar hækkanir á þjónustugjöldum banka? Hve miklar?“

Í efnahagsáætlun ríkisstj. frá því um áramótin er gert ráð fyrir að vaxtakerfið verði endurskoðað í heild með einföldun fyrir augum og dregið verði úr þörf fyrir vaxtamismun með hækkun á þjónustugjöldum banka og sparisjóða. Það er þess vegna gert ráð fyrir því, að á næstu vikum og mánuðum verði unnið að því að hækka þessi þjónustugjöld til þess að draga úr vaxtamun bankanna. Sérstakur starfshópur á vegum bankanna vinnur nú að athugun á möguleikum þessa efnis, en ekki er enn tímabært að greina frá niðurstöðum þeirrar athugunar.

Þriðji liður fsp. er svohljóðandi: „Með hvaða hætti ætlar ríkisstj. að lækka vexti 1. mars?“

Í efnahagsáætlun ríkisstj. frá 31. des. er kveðið svo á, að stefnt skuli að almennri lækkun vaxta 1. mars. Afkoma bankanna var sæmilega góð á seinasta ári. Þó liggja ekki ennþá fyrir endanlegir ársreikningar í bankakerfinu í heild, þannig að ekki er hægt að segja til um hversu góð hún er. En það liggja fyrir svo miklar upplýsingar, að ljóst er að hún er nokkuð hagstæð. Sama er að segja um stöðu bankakerfisins gagnvart Seðlabankanum, hún batnaði talsvert verulega á síðasta ári. En það er sama að segja um það eins og hreina afkomu, að það liggja ekki enn þá fyrir endanlegir reikningar bankanna, þannig að það er ekki hægt að segja til um hversu góð eða hvernig þessi staða nákvæmlega er.

En það er alveg ljóst af þessu, að það er nokkurt svigrúm í bankakerfinu til þess að taka á sig aukið útstreymi. Hversu mikið það svigrúm er liggur ekki alveg fyrir enn þá, en verður væntanlega algerlega og endanlega ljóst mjög bráðlega. Ríkisstj. vinnur nú að þessu máli í samráði við Seðlabankann, og vona ég að innan tíðar liggi málið svo skýrt fyrir að unnt verði að taka um það ákvarðanir. Á þessu stigi málsins get ég ekki svarað því, með hvaða hætti ríkisstj. ætlar að lækka vexti 1. mars, en ég get tekið undir það, og hef raunar sagt það áður hér á hv. Alþingi, að að sjálfsögðu verður að vinna þannig að þessum málum eins og ég hef stundum orðað það, að bankakerfið beri sig eða að innstreymi og útstreymi bankakerfisins sé í takt. Öðruvísi er ekki hægt að vinna að þessum málum að mínu mati, því að ef það verður gert þá leiðir það beinlínis til vandræða, þannig að bankakerfið getur ekki risið undir þeim skyldum sem á það eru lagðar. Það er því ekki ágreiningsefni — alls ekki. En með hverjum hætti unnið verður að þessu og hvaða ákvarðanir verða teknar fyrir 1. mars, því get ég ekki svarað vegna þess að málin hafa ekki verið unnin það rækilega og liggja ekki svo skýrt fyrir enn þá að menn séu í stakk búnir til þess að taka um það endanlegar ákvarðanir.