18.02.1981
Efri deild: 53. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2344 í B-deild Alþingistíðinda. (2540)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Í þessum umr. utan dagskrár er auðvitað ekki ástæða til að flytja ítarlega greinargerð um gang þess máls sem hér var hreyft. En ég vil minnast á nokkur atriði.

Það er í maímánuði sem sex þingmenn Norðurl. e. skrifa ríkisstj. bréf og fara þess á leit, að ríkisstj. geri ráðstafanir til að Þórshöfn og Raufarhöfn fái í sameiningu leyfi og fyrirgreiðslu til kaupa á skuttogara. Þegar ríkisstj. barst þetta bréf ræddi hún það og sendi síðan til Framkvæmdastofnunar ríkisins, sem samkvæmt lögum er að sjálfsögðu umsagnaraðili um slík byggðamál.

Í júlímánuði, eða nánar tiltekið 8. júlí, kom umsögn frá Framkvæmdastofnun, undirrituð af Sverri Hermannssyni, forstjóra stofnunarinnar. Þar segir hann m.a.: „Framkvæmdastofnun ríkisins hefur frá upphafi fylgst náið með þróun þessara staða og hefur stofnunin gert tillögur um og staðið fyrir ýmsum aðgerðum til eflingar byggðar þar og til að treysta atvinnulíf.“

Síðan er rakin umsögn stjórnar Framkvæmdastofnunar um málið, og segir þar: „Stjórnin telur að líkleg leið til að ná þessu markmiði sé að fenginn verði togari, nægilega stór til að sækja til fiskimiða allt frá Vestfjörðum til Suðausturlands. Miðað við ríkjandi aðstæður má reyndar segja að engin leið sé til önnur að ná þessu marki,“ — sem sagt að leysa úr atvinnuvandamálum þessara staða.

Forstjóri stofnunarinnar, Sverrir Hermannsson, lýkur svo þessari umsögn með þessum orðum: „Með hliðsjón af framansögðu mæli ég undirritaður með því, að gerðar verði ráðstafanir til að útvega Raufarhöfn og Þórshöfn sameiginlega togara. Eru starfsmenn Framkvæmdastofnunar tilbúnir til þess að vinna að undirbúningi þess máls.“

Eftir að ríkisstj. hafði fengið þessa umsögn frá forstjóra og stjórn Framkvæmdastofnunarinnar og rætt hana varð sú niðurstaða, eins og fram kemur í ákvörðun ríkisstj. 1. ágúst:

Ríkisstj. fellst á tillögur Framkvæmdastofnunar ríkisins um lausn á því atvinnuleysi, sem verið hefur á Þórshöfn, og þeim byggðavanda sem skapast hefur á svæðinu. Því samþykkir ríkisstj. að heimiluð verði kaup erlendis á notuðum togara, sem rekinn verði sameiginlega af útgerðaraðilum á Þórshöfn og Raufarhöfn. Með tilliti til þess, að hér er um að ræða undantekningu frá gildandi reglum um innflutning fiskiskipa og sérstakt byggðamál, telur ríkisstj. rétt að fjármögnun verði tryggð með sérstakri fjáröflun til Framkvæmdastofnunar ríkisins á lánsfjáráætlun fyrir 1981.“ Þessi var ályktun ríkisstj. 1. ágúst. Í þessu máli hafa orðið alvarleg mistök. Að einhverju leyti eiga stjórnvöld hér sök á með skorti á eftirliti. Hvaða þáttum stjórnvaldsins hér hefur verið áfátt get ég ekki dæmt um nú, en það mál verður nánar kannað til þess að koma í veg fyrir slík mistök framvegis. Um skilaboð þau, sem forstjóri Framkvæmdastofnunar flutti stjórn stofnunarinnar frá hæstv. sjútvrh. í gær, vil ég ekki ræða hér. Hæstv. sjútvrh. mun gera grein fyrir því eða vera í þann mund að gera grein fyrir því í hv. Nd. vegna fsp. þar, og er eðlilegra að hann geri sjálfur grein fyrir því sem þeim hefur farið á milli.

Að öðru leyti vil ég svo taka það fram út af fsp. hv. þm., að á fundi ríkisstj. í gær var engin ályktun gerð um þetta mál.