18.02.1981
Efri deild: 53. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2345 í B-deild Alþingistíðinda. (2541)

Umræður utan dagskrár

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Það er sannarlega að bera í bakkafullan lækinn að tala um það mál sem hér er til umr. utan dagskrár, en satt best að segja hefur þetta mál þróast með þeim hætti frá byrjun, að það er ekki hægt að furða sig á því að um það hafi orðið allmikil umræða í þjóðfélaginu.

Ég vil út af því, sem kom fram hjá hæstv. forsrh. um afskipti þm. Norðurl. e. af þessu máli, taka skýrt fram að þegar því bréfi sleppti, er hæstv. ráðh. gat hér um, sem skrifað var 12. maí 1980 og ég mun nú lesa til þess að hv. dm. geti gert sér grein fyrir efni þess, — frá því að þetta bréf var skrifað, 12. maí 1980 kom þetta mál aldrei formlega fyrir fundi þingmannahóps Norðurl. e. fyrr en uppi í Framkvæmdastofnun 28. jan. s.l. og síðar á fundi 13. febr. s.l.

Ég mun nú gera grein fyrir því sem stendur í þessu margumrædda bréfi. Það er stílað til hæstv. forsrh., Gunnars Thoroddsens, forsætisráðuneytinu, og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Þingmenn Norðurlandskjördæmis eystra fara eindregið þess á leit við ríkisstj., að hún geri sem allra fyrst ráðstafanir til að Þórshöfn og Raufarhöfn fái í sameiningu leyfi og fyrirgreiðslu til kaupa á einum skuttogara. Eins og meðfylgjandi afrit af símskeyti sýnir sem er undirritað af sveitarstjóranum á Þórshöfn, Ólafi R. Jónssyni, og er til formanns Framkvæmdastofnunar ríkisins, Eggerts Haukdals, óskar hann eftir að gerðar verði ráðstafanir til að fyrrnefndir aðilar fái aðstöðu til að kaupa b/v Guðbjörgu ÍS 46, sem á að seljast úr landi fyrir annan skuttogara.

Ef ekki reynist mögulegt að greiða fyrir því, að Guðbjörg verði seld til Þórshafnar, þá leggjum við á það ríka áherslu, að leyfi verði veitt fyrir kaupum á skuttogara erlendis frá og gerðar verði viðhlítandi ráðstafanir af hendi ríkisstj. að gera það mögulegt. Við teljum ekki þörf á að láta fylgja grg. með þessari beiðni okkar, þar sem ríkisstj. er kunnugt um aðstæður allar á þessum stöðum. Hins vegar látum við fylgja þessu bréfi afrit af ýmsum gögnum sem við teljum að rökstyðji þessa beiðni okkar.

Þó við séum þeirrar skoðunar, að nægur fjöldi sé orðinn af skuttogurum í landinu ef dreifing þeirra væri með öðrum hætti, þá hafa mál þróast á Þórshöfn síðustu árin þannig, að við teljum að ekki verði undan því vikist að gera nú þegar ráðstafanir til að fá keyptan skuttogara fyrir byggðarlagið. Við erum reiðubúnir til að gefa frekari upplýsingar um þetta málefni, ef óskað er, og væntum þess, að beiðni okkar verði tekin til jákvæðrar afgreiðslu og það sem fyrst.“

Undir þetta bréf rita þm. Norðurl. e. að undanskildum hv. þm. Halldóri Blöndal sem var ekki viðlátinn.

Eins og ég segi hefur þetta mál ekki komið formlega til kasta þm. Norðurl. e. fyrr en í endaðan janúar núna í ár. Þetta kom mjög skýrt og ákveðið fram á þessum fundi í Framkvæmdastofnuninni, og var harðlega gagnrýnt af nokkrum þm. að svona skyldi á þessu máli haldið og jafnframt að umræða í þjóðfélaginu væri um að þeir bæru á einhvern hátt ábyrgð á því, hvernig þetta mál hefði þróast.

Hæstv. forsrh. rakti hér bréfaskriftir ríkisstj. og Framkvæmdastofnunar. Í bréfi, sem ég hef hér ljósrit af, frá hæstv. fjmrh. frá 6. okt., er alveg skýrt tekið fram að ríkisábyrgð er veitt fyrir lánum til kaupa á skuttogara er Útgerðarfélag Norður-Þingeyinga hf. hefur samið um kaup á í Noregi. Af þessu bréfi er alveg ljóst að þá er málið búið að taka þá stefnu, að það er búið að ákveða að kaupa þetta skip í Noregi, og ríkisstj. hefur fyrir sitt leyti með þessu bréfi — ég lít svo á — samþykkt þau kaup og þann samning. (Gripið fram í.) Þetta er dagsett 6. október.

Ég vil upplýsa hér að þegar þm. Norðurl. e. skrifuðu undir umrætt bréf var verið að tala um kaup á Guðbjörgu eða skipi erlendis frá sem mundi kosta 1– 1.5 milljarða kr.

Í framhaldi af þessu bréfi gerir Framkvæmdastofnunin bókun um þetta mál og gefur auk heldur út yfirlýsingu til seljenda skipsins um að hún muni reiða fram 10% af kaupverði skipsins þegar það verði afhent. Þessi yfirlýsing er dagsett 17. okt. Þá er verið að tala um kaupverð skipsins 21 millj. norskra kr. Það verður að líta svo á, enda kom það fram á fundi þm. Norðurl. e. með aðilum frá Framkvæmdastofnun, að Framkvæmdastofnun ríkisins- eða a.m.k. einhverjum aðilum þar hafi verið kunnugt um að það yrði að breyta skipinu og það yrði einhver viðbótarkostnaður fram yfir 21 millj. norskra kr. En nú er þetta skip komið í rúmar 30 millj. norskar og þá er gert ráð fyrir verulegum breytingum á því. Gert er ráð fyrir að skipta um spil í skipinu, lagfæra þilfar og setja í skipið plötufrystitæki o.s.frv., sem er hugmynd skipstjórans, Ólafs Aðalbjörnssonar, að verði til þess að létta mjög rekstur skipsins að því leyti til, að hægt sé að beita því betur á svokallaða skrapdaga, sem verða sennilega 150 á þessu ári og ekki ljóst að fari fækkandi, a.m.k. ekki í bráð. En með þessum breytingum, fiskkössum, lántökukostnaði og óvissum kostnaði er skipið komið upp í þetta. Skipið er sem sagt komið í 30.4 millj. norskra kr., en kaupverðið er 21 millj., eins og ég sagði áðan.

Ég held að það sé hvorki á mínu færi né annarra að leggja á það mat, hvort þessar hugmyndir skipstjórans — sem væntanlega fær þetta skip ef það verður keypt — eru raunhæfar, að þessar breytingar geti gert skipið þeim mun meira virði og aflaverðmæti þess þeim mun meira virði á aðrar veiðar en þorsk, en mér sýnist sem leikmanni að þetta séu athyglisverðar hugmyndir.

Hitt er svo annað mál, að það er alveg hárrétt, sem hér hefur komið fram í þessari umr., að skipið er orðið feiknarlega dýrt og það verður þessum aðilum erfitt í rekstri. Það er alveg ljóst. Það væri þó kannske ástæða til að velta því fyrir sér, hvort þetta er ekki almennt vandamál í íslenskum sjávarútvegi í dag, að ný skip — þetta er eins árs gamalt skip — sé í rauninni ekki hægt að gera út á Íslandi. Við vitum hvernig ástandið hefur verið í Fiskveiðasjóði og hvernig ný skip velta þar upp á sig vanskilum svo hundruðum milljóna og milljörðum skiptir. Ég skal ekki leggja á það mat, en ég hef þungar áhyggjur af því, að þarna sé um að ræða skip sem verður erfitt fyrir þessi byggðarlög. Margir aðilar í þessu þjóðfélagi eru sem betur fer betur í stakk búnir til að taka á sig einhvern taprekstur heldur en þessi byggðarlög. Og ég hef þungar áhyggjur af því. En ég verð að segja alveg eins og er, að hafi orðið alvarleg mistök í þessu máli, eins og kom fram hjá hæstv. forsrh., þá lít ég svo til að þar sé um að ræða mistök af hálfu stjórnvalda.

Þegar tekin er ákvörðun um það að fjármagna þetta skip að fullu, þá er náttúrlega um svo óvenjulega ákvörðun að ræða að það hlýtur að þurfa að fylgja því eftir með einhverjum sérstökum hætti. Þetta hefur verið gert. Það er ekki fordæmalaust að skip hafi verið keypt til Íslands þannig að ríkissjóður hafi lagt fram allar fjárhæðir — (Gripið fram í: 105%.) — eða 105%, eins og gert var t.d. þegar Spánartogararnir voru keyptir. Þá var allt kaupverðið reitt fram úr ríkissjóði og veiðarfæri og annað sem til þurfti. Síðan tóku útgerðarfélög við þessum skipum, m.a. Bæjarútgerð Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. En þá var þessu að sjálfsögðu fylgt eftir þannig af hálfu ríkisins þegar skipin voru keypt, að það var haft eftirlit með því, hvað látið var í skipin og hvernig skipin voru smíðuð og hvernig staðið var að allri framkvæmd málsins.

Ég held að menn hljóti að sjá það eftir á að auðvitað hefði verið æskilegt að fylgst hefði verið með þessu máli frá byrjun, eftir að stjórnvöld og Framkvæmdastofnun ríkisins voru búin að taka ákvörðun að fjármagna þetta með svona sérstökum hætti.

En þó að ég hafi miklar áhyggjur af þessu máli öllu eins og það hefur þróast, þá vil ég leggja alveg sérstaka áherslu á það, að ætli stjórnvöld að ganga á bak þeim skriflegum yfirlýsingum sem fyrir liggja til seljenda skipsins og til kaupenda, þá tel ég það nokkurn veginn það sama að ég færi til bankastjóra og segði: Heyrðu, vinur. Ég skrifaði upp á víxil fyrir mann fyrir tveimur mánuðum. Nú hef ég frétt að þessi maður standi illa fjárhagslega. Strikaðu nafnið mitt út. Ef stjórnvöld ætluðu að bregðast þeim samþykktum, sem þau hafa gert skriflega í þessu máli, er það nákvæmlega eins og maður færi og segði: Ég dreg ábyrgð mína til baka á einhverju fjárskuldbindingarplaggi. Ég tel að þannig sé ekki hægt að haga sér, ekki fyrir einstaklinga og þaðan af síður fyrir stjórnvöld, þess vegna verði menn að kyngja því ef í þessu máli hafa orðið mistök, en vera menn til þess að standa við það sem þeir hafa skuldbundið sig til að gera.

Ég held að ég láti svo staðar numið um þetta mál að sinni. En ég vil ítreka það, að af hálfu þm. Norðurl. e. er megn óánægja með það — ég held að ég tali fyrir þá allflesta — hversu lítil samráð hafa verið höfð við þá um málið frá því að þetta bréf var skrifað. Ég held að við séum allir þeirrar skoðunar, að það þurfi að gera sérstakt átak til að efla þessi byggðarlög, Raufarhöfn og Þórshöfn. Og þegar komin var samstaða á milli þessara aðila um útgerðarfélag og það lá ljóst fyrir, að ekki yrði um verulega aukningu á bátaútgerð að ræða, en hráefnisskortur allverulegur, þá þótti okkur sjálfsagt að óska eftir því, að með sérstökum hætti yrði stutt við bakið á þessum byggðarlögum. En því miður urðu þau mistök a.m.k., að við okkur var ekki um þetta mál talað allan þennan tíma frá því að við skrifuðum þetta bréf í maí og þangað til fundir voru núna, þegar málið var raunverulega að klúðrast, 28. jan. og 13. febrúar.