18.02.1981
Efri deild: 53. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2356 í B-deild Alþingistíðinda. (2546)

Umræður utan dagskrár

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Vegna þeirra ummæla hv. síðasta ræðumanns, 5. þm. Norðurl. e., að hann vonaði að þessum stormi færi að linna, þá get ég ekki tekið undir það. Ég held að þessi stormur verði að fá að blása þangað til þetta mál er upplýst, vegna þess að það vantar mikið á að það sé enn fyllilega upplýst. (Gripið fram í.) Já, menn geta viðhaft þau orð um það sem þeir kjósa. Og sumir vilja kannske kalla það uppblástur, að hér sé fjallað um þetta mál. Það getur vel verið að sumir þm. hafi ástæðu til að líta á það sem uppblástur. En þegar hæstv. forsrh. tekur þannig til orða hér, að í þessu máli hafi orðið alvarleg mistök, þá held ég sé vissulega ástæða til að þm. athugi málið nánar. Og ég held að það sé ekki aðeins ástæða, heldur beri þm. rík skylda til að sjá til þess, að málið verði athugað nánar.

Menn hafa rætt um það hér og haft í flimtingum hver þurfi að hysja upp um hvern í þessu máli. Mér sýnist nú einhvern veginn að velflestir — ég segi ekki allir — velflestir þeirra, sem hafa komið nálægt þessu máli, hafi ástæðu til að huga að því, hvernig þeir séu girtir. Mér sýnist það.

Hv. þm. Lárus Jónsson sagði hér áðan að það væri að bera í bakkafullan lækinn að ræða þetta mál. Ég held að það sé ekki. Ég held að það þurfi að ræða þetta mál, eins og ég sagði áðan, miklu, miklu betur og miklu, miklu ítarlegar. Ég er sömuleiðis ósammála því sem hann sagði hér áðan, að við ættum bara að kyngja þessum mistökum. Það er ekki leiðin. Það á að skoða þetta mál niður í kjölinn, það á að komast að því, hverjir bera ábyrgð á þessum alvarlegu mistökum, og auðvitað verður að fylgja því máli eftir til loka. Hér er um mjög alvarlegt mál að ræða, jaðrar við að kalla mætti hneyksli, og kann vel að vera að þegar öll kurl verða komin til grafar í þeirri athugun, sem forsrh. sagði að fram mundi fara á þessu máli, verði það kallað hneyksli. Ég er ekki að gera það hér og nú.

Sömuleiðis er auðvitað rétt að vísa á bug sem ástæðulausum, tilhæfulausum, órökstuddum og röngum þeim fullyrðingum sem hv. þm. Guðmundur Bjarnason hafði við hér áðan, að þeir, sem gagnrýndu þetta mál, teldu að þarna væri um einhvers konar annars flokks borgara landsins að ræða. Ég held að enginn maður, sem hefur látið í ljós gagnrýni á þessu, hafi það í huga, og hygg raunar að það hafi komið skýrt fram í þessum umræðum. Hins vegar hafa menn látið að því liggja og leitt að því rök, að e.t.v. mætti leysa þann vanda, sem við er að etja í þessum byggðarlögum, með ódýrari hætti en þarna á nú að gera. Og hefur raunar komið í ljós, að það var ætlun þeirra sem upphaflega beittu sér í þessu máli, að það yrði gert með ódýrari hætti. Það hygg ég að hafi m.a. komið fram hjá þingmönnum á sínum tíma. Ég sé að hv. þm. Stefán Jónsson kinkar kolli. Hann er þm. þessa kjördæmis, en hv. þm. Stefán Guðmundsson aftur þm. annars kjördæmis. Og ég hygg að hv. þm. Stefáni Jónssyni sé þetta mál næsta kunnugt.

Það hefur komið fram hér hverjar fjárhæðir er um að tefla. Ég vil minna hv. þdm. á að fyrr á þessu þingi var hér til umræðu ríkisábyrgð til handa Flugleiðum. Mér sýnist að þetta mál fjalli um helming þeirrar upphæðar e.t.v. Þá var farið þinglega að. Málið var látið fara hér í gegnum þingið, enda var þar ekki um neina smáupphæð að ræða í ríkisábyrgð. Þetta mál ber að með allt öðrum hætti. Hér standa menn andspænis gerðum hlut, það er talað um að kyngja mistökunum og helst að gleyma málinu. Það hefur komið mjög skýrt fram í þessum umræðum, að rekstrargrundvöllur þessa togara er enginn. Hann getur aðeins sótt á ein mið. Þau mið eru í vösum skattborgara. Það á að gera þetta skip út á hag íslenskra skattborgara, það held ég sé alveg ljóst. (Gripið fram í: Hvað með önnur skip?) Við erum að ræða hér um þetta skip, og það hafa verið nefndar tölur um rekstrargrundvöll þess, og þær tölur hafa ekki verið vefengdar í þessum umræðum. Sú er rót þessara ummæta minna.

Stundum hefur maður það á tilfinningunni, að hér í þjóðfélaginu og ráðandi í stjórnkerfinu séu öfl sem hafi það eitt markmið með þátttöku í stjórnmálum að kreista fé út úr hinu opinbera til hagsmuna fyrir þá sem þeir telja sig umboðsmenn fyrir. Það fer ekki hjá því, að stundum fái maður þetta á tilfinninguna.

Hæstv. forsrh. viðhafði þau orð áðan, að hér hefðu orðið alvarleg mistök. Ég hygg næstum því að það muni einsdæmi á Alþingi, á hæstv. forsrh. standi í ræðustóli og viðurkenni að alvarleg mistök hafi átt sér stað. Ég er ekki að segja að hæstv. forsrh. beri ábyrgð á þessum mistökum, en að mjög alvarleg mistök hafi átt sér stað í kerfinu. Og málið verður kannað, sagði hann. Eins og fram hefur komið hér hafa nokkrir þm. lagt fram beiðni um skýrslu. En ég hygg að íhugunarefni sé, þegar sú skýrsla hefur verið flutt Alþingi, hvort ekki sé rétt að notfæra sér þann rétt, sem þm. hafa samkv. 39. gr. stjórnarskrár, að skipa sérstaka nefnd til að rannsaka málið. Ég hygg að það hljóti að koma til athugunar þegar skýrsla hæstv. forsrh. liggur fyrir. En í 39. gr. stjórnarskrár segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hvor þingdeild getur skipað nefndir innandeildarþingmönnum til að rannsaka mikilvæg mál sem almenning varða. Þingdeildin getur veitt nefndum þessum rétt til að heimta skýrslur, munnlegar og bréflegar, bæði af embættismönnum og einstökum mönnum.“

Hér er vissulega um að ræða mál sem almenning varðar. Og því held ég að sé rík ástæða til að íhuga þennan möguleika. Það hefur komið fram í þessum umræðum í dag, að það fer töluvert á milli mála hvaða skilaboð hafa farið milli manna í gærdag á tveimur býsna mikilvægum fundum. Hæstv. forsrh. viðhafði þau orð áðan, að hann vildi ekki fara með þau skilaboð sem þar hefðu farið. Ég held að það sé rík ástæða til þess, herra forseti, að óskað verði eftir því við hæstv. sjútvrh., að hann greini deildinni frá því hér, hvað það var sem milli manna fór í gær. Um það fer vissulega tvennum sögum.

Ég held að öll meðferð þessa máls hljóti frá sjónarmiði almennings að vera smánarblettur á íslensku stjórnkerfi, hvernig slíkt gerist, hvernig slíkt getur gerst. Og ég held að þann smánarblett verði að hreinsa. Alþingi á áreiðanlega einhvern hluta af honum, því miður, en þar koma margir fleiri við sögu. Og það gerum við ekki með því að kyngja þessum mistökum þegjandi eða vona að þennan svokallaða storm lægi sem allra fyrst svo menn geti farið í friði að hyggja að einhverjum öðrum málum.