18.02.1981
Efri deild: 53. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2360 í B-deild Alþingistíðinda. (2549)

Umræður utan dagskrár

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Það er að vonum að þetta mál veki athygli, enda er þetta hið versta mál. Það hefur verið fjallað nokkuð hér um atvinnuleysi á Þórshöfn, og til þess að leiðrétta misskilning vil ég koma því á framfæri, að við, sem höfum verið andvígir þessum togarakaupum, höfum ætíð verið því mjög fylgjandi að reynt verði að gera úrbætur fyrir það fólk sem þarna býr.

Ég vil upplýsa það, að á tímabilinu frá des. 1978 til mánaðamóta nú í ár voru að meðaltali 17 – 18 manns atvinnulausir á Þórshöfn. Atvinnuleysi er ætíð slæmt. Atvinnuleysisvofan er sú versta vofa sem hugsast getur. Og ríkisvaldinu ber að hjálpa til þegar hún er á ferðinni. En það, sem við erum að tala um er hvernig megi betur leysa það heldur en með því að moka fjármunum, 3.5 milljörðum, til þessa verkefnis, — milljörðum sem við sjáum ekki að komi að gagni, — milljörðum sem við teljum bjarnargreiða við þá íbúa sem þarna búa.

Það vill svo til, að á þessu svæði var rekið skip, togarinn Fontur, — skip sem keypt var frá Suðurnesjum. Og það tókst ekki betur til með útgerð þess skips en svo, að það þurfti að selja það í burtu þrátt fyrir margháttaða fyrirgreiðslu, ótrúlega fyrirgreiðslu. Og það var ekki betur að útgerðinni staðið en svo, að á ellefu mánaða tímabili voru t.d. 12 vélstjórar á því skipi. Það segir sína sögu um reksturinn. Margt mætti fleira tína til, en það vita allir að útgerð þessa sama skips gengur vel í dag í höndum annarra manna.

Kjarni málsins er sá, að við teljum þessa lausn allt of dýra. Og við teljum til vansæmdar af ríkisvaldinu að krefjast þess að þessi leið verði farin. Ég er sá eini stjórnarmanna sem ætíð hef varað við þessum kaupum, alveg frá upphafi, og talið að leita þyrfti annarra leiða til að leysa vanda íbúa á Norðausturlandi, en jafnframt sagt að vanda þeirra yrði að leysa. Og það er ýmislegt sem þar mætti til nefna. En ríkisvaldið, ríkisstj. var iðin við kolann, sendi frá sér samþykkt á eftir samþykkt og gerði Framkvæmdastofnun skylt að fjármagna þessi kaup. Þegar eitt slíkt bréf barst lét ég bóka eftirfarandi á stjórnarfundi:

„Ég vek athygli á að hver nýr skuttogari hefur í för með sér fleiri skrapdaga fyrir þá togara sem fyrir eru. Jafnframt rýrna tekjur sjómanna og útgerðar og þjóðarbúið bíður tjón af. Ég tel engan veginn ljóst, að nýr togari leysi vandamál atvinnulífsins á Þórshöfn og Raufarhöfn, og greiði því atkvæði gegn þessari bókun“ — þ.e. bókun er fjallaði um hvernig Framkvæmdastofnun færi með málið.

Þetta mál hefur verið hið mesta vandræðamál innan Framkvæmdastofnunar, og það er greinilegt á öðrum stjórnarmönnum að mönnum hefur fundist ríkisstj. gerast offari í þessu máli. Það er ekki nokkur vafi á því, að samþykkt þessara togarakaupa er mjög alvarleg mistök, eins og hæstv. forsrh. mun hafa orðað það áðan. Þau eru rakin til bréfs sex þingmanna kjördæmisins sem af velvilja skrifa bréf og vilja leysa atvinnuvanda byggðarlagsins og eru þá með það í huga að leysa hann á miklu ódýrari hátt en raun varð á. Það hafa staðfest þeir ágætu þm. Árni Gunnarsson og Stefán Jónsson, sem einnig hafa kvartað yfir því að hafa ekki fengið að fylgjast með málinu sem skyldi, þeir hafi komið að læstum dyrum. Og ekki efast ég um velvilja þeirra í þeim efnum að vilja fylgjast með málinu og hafa góð áhrif á það.

Best er að víkja að þeim fundi sem síðast var í Framkvæmdastofnun og stóð mestallan daginn með hléum, þar sem hver kúvendingin var tekin á fætur annarri. Þar skeður það, að mönnum er ljóst að það verður að afgreiða þetta mál, hvernig sem það verður afgreitt. Þeir er samþykkt höfðu þessi kaup sáu að Framkvæmdastofnun yrði sótt til saka eða féð yrði sótt til hennar, hvort sem hún samþykkti þetta eða ekki. Það skeður einnig, að sjútvrh. hringir, þegar fundur stendur yfir, til forstjóra stofnunarinnar og þaðan koma þau skilaboð, að það sé vilji ríkisstj. að gengið verði frá þessu máli á þann hátt sem síðar var gert. Ég spurði að því sérstaklega, hvort hefði verið samþykkt í ríkisstj. að fara þannig að. Ég fékk það svar frá forstjóra að það væri óformleg samþykkt. Síðan er því haldið fram í fjölmiðlum í dag, að þarna hafi menn skrökvað til. Það verður að fást upplýst hvernig þetta er til komið. Hver skrökvar, hver segir satt. (StJ: Það er nú erfið spurning.) Það er erfið spurning, já, en henni ber að svara. (StJ: Það er þá eins gott að sá sem svarar þeirri spurningu segi satt.) Já, það er eins gott. Ég tek undir það með hv. þm., að það er eins gott að sá er svarar segi satt.

Þegar ljóst var að fara átti eftir tilmælum ríkisstj., þegar ljóst var að stjórn Framkvæmdastofnunar var nokkurs konar leiksoppur í þessu máli, þá gerði ég eftirfarandi bókun:

„Núverandi ríkisstj. samþykkti skilyrðislaust kaup á togara til Þórshafnar/Raufarhafnar. Byggðasjóði var falin fjárútvegun. Ljóst er að bæta þarf atvinnuástand á Þórshöfn, en þessi aðferð er mjög umdeilanleg, m.a. vegna þess að kostnaður er meira en helmingi hærri en upphaflega var áætlað. Einnig sýnir fyrirliggjandi rekstraráætlun að íbúum Þórshafnar/Raufarhafnar verður ókleift að standa undir rekstri togarans. Niðurstaða áætlunarinnar er sú, að rekstur togarans 1981 skili 90 millj. gkr. til greiðslu á vöxtum og afborgunum, og vantar þá um 662 millj. gkr. til að greiða afborganir og vexti fyrra árs. Ég tel ríkisstj. bera alfarið ábyrgð á þessu máli, en jafnframt vísa ég til fyrri bókana minna sem sýna andstöðu mína við það glæfraspil sem hér er á ferðinni.“

Ég tók í framhaldi af þessu þá ákvörðun að taka ekki þátt í afgreiðslu málsins, enda óþefur af því. En ég spyr: Hver á að greiða þau hundruð millj. gkr. sem vantar í afborganir og vexti af skipinu þegar til kemur? Hver á að sjá um rekstur togarans? Hræddur er ég um að með þessari ráðagerð sé íbúum Þórshafnar sérstaklega gerður mikill bjarnargreiði og það eigi dæmin eftir að sýna þegar líður á árið.

Og annað er það sem við þurfum að velta fyrir okkur. Það liggur fyrir að á þessu tímabili, sem ég tilgreindi áðan, hafa 17 – 18 manns verið atvinnulausir. Togari af þeirri stærð sem hér er um að ræða krefst mun meira vinnuafls en þar er um að ræða. Hvaðan á það að fást? Á kannske að sækja slíkt vinnuafl til útlanda?

Það mætti margt til tína og það hefur reyndar verið gert hér. En eitt er það sem mann furðar á varðandi breytingar á þessu skipi, og það eru frystitækin. Það er látið að því liggja, að með þeim eigi að frysta aflann og þíða hann síðan upp og vinna hann. En mönnum er kannske ekki ljóst að á þessum ferli minnkar vatnsmagn fisksins um 12% og verður gersamlega óarðbært að vinna hann. Eða skyldu þessi frystitæki vera einungis til þess ætluð að sigla með aflann til útlanda? Og hvar er þá hugsun þeirra manna sem vilja bjarga atvinnuástandinu á Þórshöfn? Ég vona að við fáum skýr svör um það hvernig skuli standa að rekstri þessa togara, og ég fordæmi þær aðferðir sem hafðar hafa verið í frammi við kaup á honum.

Þá skulum við hafa það í huga, að ljóst er að boðist hafa margfalt ódýrari skip en um er að ræða, allt niður í 12 millj. norskra kr., en nú er verið að kaupa skip sem kostar 28 millj. norskra kr. (Gripið fram í: Heldur þm. að það séu sambærileg skip?) Ég hef ástæðu til að ætla að svo sé, það séu sambærileg skip. En aðalatriðið er það, að við teljum að hægt hefði verið að finna ódýrari lausn til að þjóna fólkinu á Þórshöfn/Raufarhöfn. Menn eiga ekki að ganga í vasa skattborgara bara að gamni sínu, bara til þess að kreista fé út úr hinu opinbera. (Gripið fram í: Hvað var Byggðasjóður að gera?) Byggðasjóður var að bjarga eigin fyrirtæki í Hafnarfirði og gerði það með sóma, og það var mjög ódýr lausn fyrir Byggðasjóð, enda viðurkenna það allir sem að því stóðu. En ég endurtek — (Gripið fram í.) atvinnulífi kjördæmisins hefur ekki verið bjargað. Það eru ekki 17 – 18 manns atvinnulausir í Keflavík að meðaltali, það eru 40 – 50 manns. Bara í einu byggðarlaginu á Suðurnesjum.

Ég endurtek það að mér finnst furðu sæta, hvernig að þessu hefur verið staðið, og ítreka enn andstöðu mína við þessar aðferðir.