18.02.1981
Neðri deild: 54. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2368 í B-deild Alþingistíðinda. (2552)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil byrja með því að endurtaka það sem ég sagði við forstjóra Framkvæmdastofnunar: Það er tími til kominn að fara að koma þessu skipi í höfn.

Ég verð að fara örfáum orðum um það sem hv. fyrirspyrjandi kom inn á í upphafi síns máls þegar hann talaði um frumkvæði í þessu máli. Það ber enn þá á því að menn vilja hlaupa frá þessu máli og líta á það sem feimnismál og kenna öðrum um, en ég held að allir, sem hafa nærri málinu komið, eigi verulegan þátt í því og slíkt sé óþarft. Það mál þó vel vera að mistök hafi orðið, átt hefði að setja eitthvað hámark á verð slíks togara.

Ef menn vilja tala um frumkvæði í málinu leyfi ég mér að vísa til bréfs sex þm. Norðurl. e. frá 12. maí 1980. Það bréf er stílað til forsrh. Gunnars Thoroddsens. Þar segir í upphafi:

„Þingmenn Norðurlandskjördæmis eystra fara þess eindregið á leit við ríkisstj., að hún geri sem allra fyrst ráðstafanir til að Þórshöfn og Raufarhöfn fái í sameiningu leyfi og fyrirgreiðslu til kaupa á einum skuttogara“ — og síðan er þetta rökstutt.

Þetta er 12. maí. Þessu bréfi var vísað til Framkvæmdastofnunar, sem hafði haft málefni Þórshafnar lengi til meðferðar og reynt eftir megni að greiða úr atvinnuástandi sem þar hefur verið lélegt undanfarin ár. Síðan berst frá Framkvæmdastofnun bréf undirritað af forstjóra Sverri Hermannssyni, sem er dags. 8 júlí 1980. Það er allítarlegt bréf. Þar er fjallað um þessi mál og fylgir m.a. grg. með frá byggðadeild stofnunarinnar. Það segir svo, með leyfi forseta:

„Á fundi sínum 4. júlí ályktar stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins eftirfarandi:

Stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins bendir á, að jafnt fyrri sem síðari athuganir á vegum stofnunarinnar á atvinnumátum Þórshafnar leiði í ljós að nauðsynlegt sé að gera ráðstafanir til að auka og jafna fiskafla á staðnum. Með því móti einu verði full atvinna tryggð á Þórshöfn og jafnframt góð afkoma frystihússins og sveitarfélagsins. Stjórnin telur að líkleg leið til að ná þessu markmiði, miðað við ríkjandi aðstæður, sé að fenginn verði togari nægilega stór til að geta náð til fiskimiða allt frá Vestfjörðum til Suðausturlands. Sá togari verði rekinn sameiginlega af aðilum á Raufarhöfn og á Þórshöfn, eins og gert er ráð fyrir í sérstöku samkomulagi. Jafnframt verði lögð áhersla á samræmingu rekstrar og náið samstarf fiskvinnslustöðvanna í þessum plássum. Mun Framkvæmdastofnun bjóða fram aðstoð við skipulagningu þessa samstarfs og skipulag rekstrar fiskvinnslustöðvanna og togaraútgerðar.“

Ég tel þetta skynsamlega ályktun. Hún er byggð á ítarlegri athugun Framkvæmdastofnunar og ég held að enginn þurfi að skammast sín fyrir það verk.

Enn fremur segir í þessu bréfi, sem er undirskrifað, eins og ég sagði fyrr, að forstjóra stofnunarinnar, en er ekki liður í þessari samþykkt:

„Eins og mál horfa í dag verður ekki annað séð en að eina leiðin til þess að ná þeim árangri, sem stefnt er að, sé að útvegaður verði sameiginlegur viðbótartogari fyrir Raufarhöfn og Þórshöfn og mæli ég eindregið með að gerðar verði ráðstafanir til þess hið fyrsta. Eru starfsmenn Framkvæmdastofnunar ríkisins tilbúnir til að taka þátt í undirbúningi þess máls.“

Á ég að trúa því, að stjórnarmenn Framkvæmdastofnunar þekki ekki þessa samþykkt og sé ekki fyllilega ljóst hvernig að þessu máli hefur verið unnið? Á ég að trúa því, að þeir þurfi að koma hér upp og sverjast undan aðild að vinnu Framkvæmdastofnunar á þessu sviði, sem ég tel að hefi verið ítarleg og byggð á mikilli og góðri athugun? Það er með þetta í höndunum sem ríkisstj. samþykkir 1. ágúst það sem hefur hér verið rakið og var af hv. fyrirspyrjanda talið frumkvæðið í málinu. Það er með þetta í höndunum sem ríkisstj. samþykkir 1. ágúst að verða við þessum tilmælum þm. og tillögum Framkvæmdastofnunar, samþykkir að gera undantekningu og leyfa kaup á skuttogara og fela Framkvæmdastofnun að sjá um fjármögnun hans, eins og hér hefur réttilega komið fram. Ég held að menn ættu að hafa þessar staðreyndir allar í huga.

Ég tek undir það með mönnum að þetta skip er orðið of dýrt. Ég segi: of dýrt, af því að ég óttast að það geti orðið erfitt í rekstri fyrir heimamenn. Ég er þeirrar skoðunar, að skynsamlegt sé að leysa mál staðarins með sameiginlegum rekstri skuttogara frá Raufarhöfn, eins og tillögur voru gerðar um. Ég hefði kosið að hann væri ódýrari, og unnt er að fá ódýrari togara. En það er annað mál. Það skiptir ekki öllu máli hvort þorskurinn er drepinn á ódýrum togara eða dýrum. Þannig er aðdragandi þessara mála.

Ég vil upplýsa og staðfesta að það er rétt sem Sverrir Hermannsson, forstjóri Framkvæmdastofnunarinnar, sagði áðan um fund með hæstv. fjmrh. og mér s.l. mánudag. Það er rétt að ég tel að það sé að fara úr öskunni í eldinn að kasta út um gluggann 300–400 millj. eins og komið er. Forstjórinn átti von á að þessi mál yrðu rædd í ríkisstj. Því hringdi ég til hans af þeim fundi og tjáði honum að þar yrði ekki gerð ný samþykkt í málinu, hin hefði þegar verið gerð. Eins og hann tók réttilega fram ítrekaði ég það í lok samtalsins. Við fórum hins vegar yfir það sem okkur hafði farið á milli. Ég sé ekki betur en það sé allt saman rétt, nema hvað hann hefur lagt djúpan skilning í hvað menn teldu að væri „að fara úr öskunni í eldinn“. Ég gat vitanlega ekki getið um það sem ríkisstj. teldi í því sambandi. Hún gerði enga samþykkt. En ég vísaði til þess sem áður hafði farið á milli fjmrh. og mín og staðfesti þá skoðun mína, að ég teldi að það væri að fara úr öskunni í eldinn að hlaupa frá þessu máli nú. Kann að vera að einhver misskilningur sé okkar á milli, en aðalatriðið er það, eins og ég tók fram bæði í upphafi viðtalsins og á eftir, að þeir gætu ekki gert ráð fyrir nýrri samþykkt frá ríkisstj. í málinu. Til þess var símtalið gert.

Ég ætla ekki að fjalla hér um þá niðurstöðu að 10% yrðu tekin af þeim 1500 millj. sem á lánsfjáráætlun mun verða gert ráð fyrir til Framkvæmdastofnunar. Um það fjallar fjmrh. sem, eins og forstjórinn benti á, vakti athygli á þeim möguleika s.l. mánudag. Einnig getur hann skýrt frá þeirri ríkisábyrgð sem hefur verið opnuð í þessu skyni. Ég vil hins vegar staðfesta það, að ég lýsti þeirri persónulegu skoðun minni, að æskilegt væri ef unnt væri að draga eitthvað úr kostnaði við kaup á þessu skipi. Ég fagna því, að það virðist vera hægt.

Ég vil segja að lokum, að ég held að menn ættu að hverfa frá þessu máli og snúa sér að ýmsu öðru. Ég fagna því raunar að þetta mál er vonandi komið í höfn. Ég vil lýsa þeirri von minni, að þessi togarakaup verði þessu svæði til góðs og farsældar og styrki þar atvinnulíf. Kannske kann þá svo að fara að allir vildu hafa átt frumkvæði að þessu máli.