18.02.1981
Neðri deild: 54. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2379 í B-deild Alþingistíðinda. (2558)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég skal reyna að svara á 5 mínútum því sem til mín hefur verið beint.

Í fyrsta lagi spurði hv. 1. þm. Reykn. að því, hver hefði ákveðið togarakaupin. Það er alveg ljóst að með samþykkt sinni 1. ágúst ákveður ríkisstj. að heimila kaupin á þessum togara. Ekki er verið að hlaupa frá því. Það er gert samkv. tilmælum þm. kjördæmisins og niðurstöðu og samþykkt stjórnar Framkvæmdastofnunar.

Hv. þm. talaði um skilaboð frá ríkisstj. Skilaboðin voru þau, eins og staðfest hefur verið af hæstv. forseta deildarinnar, að ríkisstj. mundi ekki gera nýja samþykkt um málið.

Hv. 1. þm. Vestf. kom inn á atriði sem er athyglisvert og umræðuvert. Það er rétt sem hv. þm. sagði, að þess er ekki getið í samþykkt stjórnar Framkvæmdastofnunar að togari yrði keyptur erlendis frá — ég vil staðfesta það. Hitt verð ég svo að segja, að í umræðum um þetta mál, m.a. við fulltrúa frá stofnuninni, kom aldrei fram að unnt yrði að útvega slíkan togara innanlands, og alltaf hefur legið ljóst fyrir að þessir aðilar hafa ekki tök á að láta smíða skip hér innanlands, enda tekur það miklu lengri tíma en hér var um að ræða ef ráða átti bót á því atvinnuástandi sem þar var. Hins vegar fóru þm. kjördæmisins ekkert leynt með það, að þeir vildu fá skip erlendis frá. Segir, með leyfi forseta, í bréfi þeirra frá 12. maí:

„Eins og meðfylgjandi afrit af símskeyti sýnir, sem er undirritað af sveitarstjóranum á Þórshöfn, Ólafi R. Jónssyni, og er til formanns Framkvæmdastofnunar ríkisins, Eggerts Haukdals, óskar hann eftir að gerðar verði ráðstafanir til að fyrrnefndir aðilar fái aðstöðu til að kaupa b/v Guðbjörgu ÍS-46, sem á að seljast úr landi fyrir annan skuttogara. Ef ekki reynist mögulegt að greiða fyrir því, að Guðbjörg verði seld til Þórshafnar, leggjum við á það ríka áherslu, að leyfi verði veitt fyrir kaupum á skuttogara erlendis frá og gerðar verði viðhlítandi ráðstafanir af hendi ríkisstj. að gera það mögulegt.“

Ég verð að segja fyrir mitt leyti, að ég hef ekki heyrt neinn benda á að unnt væri að útvega togara hérlendis. Ég vil upplýsa að það mál var athugað nokkuð og einn gamall togari virtist koma til greina, en hann er að mínu mati ekki líklegur til að leysa það ástand sem er þarna norður frá.

Hv. 1. þm. Vestf. las upp niðurlag af samþykkt stjórnar Framkvæmdastofnunar. Ég tek það fram, til að ég sé ekki borinn þeim sökum að hafa sleppt einhverju, að þetta kemur ekki fram í því sem ég hef hér og er innan gæsalappa. (Gripið fram í: Hvaðan kemur það?) Bréfið er undirritað af Sverri Hermannssyni forstjóra og er dags. 8. júlí. Ég skal lesa samþykktina alla, því að vísu sleppti ég einni setningu sem mér fannst vera óviðkomandi. Ég les hana alla, með leyfi forseta. Þar segir frá fundi 4. júlí í stjórn Framkvæmdastofnunar:

„Stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins bendir á, að jafnt fyrri sem síðari athuganir á vegum stofnunarinnar á atvinnumálum Þórshafnar leiða í ljós að nauðsynlegt sé að gera ráðstafanir til að auka og jafna fiskafla á staðnum. Með því móti einu verði full atvinna tryggð á Þórshöfn og jafnframt góð afkoma frystihússins og sveitarfélagsins. Stjórnin telur að líkleg leið til að ná þessu markmiði, miðað við ríkjandi aðstæður, sé að fenginn verði togari nægilega stór til að geta náð til fiskimiða allt frá Vestfjörðum til Suðausturlands. Sá togari verði rekinn sameiginlega af aðilum á Raufarhöfn og á Þórshöfn, eins og gert er ráð fyrir í sérstöku samkomulagi. Jafnframt verði lögð áhersla á samræmingu rekstrar og náið samstarf fiskvinnslustöðvanna í þessum plássum. Mun Framkvæmdastofnun bjóða fram aðstoð við skipulagningu þessa samstarfs og skipulag rekstrar fiskvinnslustöðvanna og togaraútgerðar.“ — Síðan kemur setning sem ég sleppti áðan: „Til þess að tryggja sem best árangur þessara aðgerða leggur stjórnin áherslu á að hraðað verði vegabótum á milli staðanna til að stuðla að hindrunarlitlum fiskflutningum á milli staðanna og öðrum nauðsynlegum samskiptum. Bent skal á að í starfsáætlun byggðadeildar er gert ráð fyrir gerð sérstakrar áætlunar um eflingu atvinnu og byggða á Norðausturlandi.“

Hv. þm. kom að öðru mjög athyglisverðu máli, þ.e. hver átti að fylgjast með. Ég hef satt að segja velt því nokkuð fyrir mér. Staðreyndin er náttúrlega sú, að þegar slík kaup fara í gegnum Fiskveiðasjóð er fylgst með frá stigi til stigs og samningur lagður fram og allt borið saman við það sem upphaflega var gert ráð fyrir. Ég skal viðurkenna að í huga mínum taldi ég að Framkvæmdastofnun mundi fylgjast með, enda var henni falið að sjá um útvegun fjármagns í þessu skyni og gera ráð fyrir því í sínum áætlunum, og jafnframt býður hún fram í þeirri ályktun, sem ég las áðan, alla aðstoð í þessu sambandi, eins og segir: „Mun Framkvæmdastofnunin bjóða fram aðstoð við skipulagningu þessa samstarfs og skipulag rekstrar fiskvinnslustöðvanna og togaraútgerðar.“

Þarna eru ýmis atriði sem fróðlegt væri að fá upplýsingar um, en ekki vinnst tími til nú.

Það er t.d. ekki rétt, sem mér er tjáð, að kaupendur hafi komið með upphaflegan samning til stofnunarinnar og hann hafi þar verið staðfestur og samþykktur, enda opnuð 10% ábyrgð. Ég verð að gera ráð fyrir að stofnunin hafi gert sér grein fyrir því, að hér var um rækjuskip að ræða sem hlaut að þurfa að breyta. Ég geri fastlega ráð fyrir því. Þar er strax kominn verulegur hluti af þeim kostnaði sem bætist ofan á kaupverðið. Síðan hefur mér skilist að meira komi til viðbótar sem Framkvæmdastofnun eða forstjóri stofnunarinnar hefur ekki talið að öllu leyti æskilegt og hefur lagt áherslu á að dregið verði úr.

Hér var gert nokkuð mál út af bréfi því sem ég ritaði hv. þm. Stefáni Valgeirssyni. Ég vil upplýsa það, að hver sá þm., sem biður mig um upplýsingar, fær þær ef ég hef þær. Hér var ekki um annað að ræða. Mér er hins vegar ekki kunnugt um á hvern máta þetta hefur farið formlega á milli forsrn. og Framkvæmdastofnunar.

Kemur skipið? Vitanlega er réttara að spyrja kaupendur að því, hvort þessi aðstoð nægi. Ég geri ekki ráð fyrir að ríkisstj. geri neinar frekari samþykktir í þessu máli. Það liggur fyrir 80% ríkisábyrgð á kaupunum og til viðbótar 10% af þeim 1500 millj., sem gert er ráð fyrir á lánsfjáráætlun og eru með ríkisábyrgð, plús 10% frá Framkvæmdastofnun. Ef það er nóg til að koma skipinu heim geri ég fastlega ráð fyrir að það komi.

Út af spurningum hv. þm. Halldórs Blöndals vil ég upplýsa að ríkisábyrgðasjóður og ríkisábyrgð heyra undir fjmrh. Ég hef ekki fjallað um þau mál, eins og t.d. hvaða skilyrði ríkisábyrgðasjóður setur. Hins vegar tel ég mig geta upplýst það, að þessi 90% eru fengin í tvennu lagi: 80%, sem er almenn heimild til að veita og 10%, af því sem farið er fram á heimild fyrir í þeim lánsfjárlögum sem lögð hafa verið fyrir Alþingi, þ.e. þeim 1500 millj. sem þar er gert ráð fyrir.