18.02.1981
Neðri deild: 54. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2386 í B-deild Alþingistíðinda. (2563)

Umræður utan dagskrár

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Það er leitt að ekki skuli vera meiri tími til að ræða þetta mál til hlítar því að sannleikurinn er sá, að þrátt fyrir þau orð forstjóra Framkvæmdastofnunarinnar hér áðan að þm. væri kunnugt um þetta og hitt í þessu máli, held ég að svo sé alls ekki. Við vitum sáralítið um það. Í næstsíðustu ræðu vorum við að fá alveg nýjar upplýsingar sem ég veit að sárafáir þm. höfðu hugmynd um. Það er varðandi kaup á norskum togara frekar en frönskum.

En það er margt sem vekur furðu í þessum umr. og m.a. að svo virðist sem ákvörðun hafi verið tekin í Framkvæmdastofnun í þessu máli út af einu símtali milli tveggja manna. Þannig er nú ráðskast með milljarðana í þessu landi. Slík stjórnunaraðferð er auðvitað hin alvitlausasta sem hugsast getur. Og ekki batnaði það þegar hæstv. fjmrh. tók hér til máls og sagði að það yrði ekki snúið til baka „úr því sem komið er.“ Á svona lagað að geta skeð, að málin séu komin svo og svo langt áfram í meðferð að ekki verði til baka snúið þegar á að taka ákvarðanir um fjármögnum fyrirtækisins? Hvernig hefði verið að hugsa fyrst og hafa allt ljóst í málinu um búnað og kostnað þessa skips? M.a. er þetta skip þannig útbúið að það hefur ekki spil til venjulegra togveiða. Það má segja að það sé tvennt í svona skipum sem skiptir mestu máli og byggir upp alla veiðihæfni þessara skipa. Það eru vélin og spilið. (Gripið fram í.) Maður skyldi ætla að það hefði vél. Það á kannske eftir að koma á daginn að það hafi ekki nægilega mikið afl til að knýja hið nýja spil. En Framkvæmdastofnun bætir úr því.

Það er ljótt að heyra það hér í þingsölum — og það frá hæstv. fjmrh. sjálfum — að í ár sé óvenjuþung byrði á Byggðasjóði vegna togarasmíða og togarakaupa. Þetta er ljótt að heyra á sama tíma og vitað er að togaraflotinn er orðinn meira en nægilega stór og meira að segja miklu meira en nægilega stór. Þetta eru slæm vinnubrögð.

Það hafa líka fallið hér orð eins og „hreint áhættufjármagn.“ Það er sannarlega um hreint áhættufjármagn að ræða. Þarna fá þessir aðilar 100% lán, en þeir fengu líka lán á sínum tíma vegna rekstrar togarans Fonts og vegna frystihússins á Þórshöfn sem síðan var skuldbreytt. Senn fellur það lán og ekki er vitað til þess að þeir geti borgað í því nokkurn skapaðan hlut. Hvað þá með nýtt lán upp á 3500 millj. ofan á þær skuldbindingar sem fyrir eru? Hvað eru menn að hugsa eiginlega í þessu? Ég botna a.m.k. ekkert í því. Það gera kannske þeir hv. þm. sem hafa meira vit á togurum og togararekstri en ég, og þeir eru sjálfsagt flestir, trúi ég. (Gripið fram í: Hvað er maðurinn að hugsa?) Það getur ekki verið að um 5 mínútur sé að ræða að þessu sinni. (Forseti: 4.5, þetta er aðvörun.)

Af öllu þessu og mörgu öðru, sem fram hefur komið, er ljóst að það er mjög nauðsynlegt að fá um þetta mál allt nákvæma skýrslu, allan gang málsins frá upphafi til enda, hverjir hafa sett það af stað o.s.frv., o.s.frv., hvenær hafi verið hætt við þennan togara og valinn annar, ég tala nú ekki um hvernig stendur á því, að menn eru að setja fiskvinnsluvélar um borð í þetta skip. Ég hélt að það væri ekki siður í togurum á Íslandi að hafa þar fiskvinnsluvélar og frystitæki. Er það til þess að koma því þannig fyrir að íbúar þessara staða, sem verið er að leysa atvinnuvandamál á, að því er sagt er, þurfi ekki að vinna aflann? Það er óskiljanlegt að þetta skuli geta átt sér stað. Sannleikurinn er sá, að jafnvel þó að menn vilji sigla með afla ef sæmilega hagar til um atvinnuástand á Þórshöfn er miklu verra að sigla með frystan fisk og flakaðan en nýjan. Menn vilja miklu frekar éta nýjan fisk en frystan. Frysting á fiski er ekki matreiðsluþáttur, heldur geymsluaðferð, og hann er verri frystur en nýr. (Forseti hringir.) Herra forseti. Aðeins örfá orð í viðbót. Það hafa það margir syndgað upp á náðina að ég hlýt að mega gera það í nokkrar sekúndur.

Það hefur verið lögð fram tillaga í ríkisstj. um að Þjóðhagsstofnun, og það verður víst að nafninu til að kveðja til Framkvæmdastofnun líka, sem að mínu áliti er óþarft, geri úttekt, eins og kallað er, á því, hverja möguleika þeir hafa á Þórshöfn til að standa við þær skuldbindingar sem fylgja kaupum á togaranum, auk annarra skuldbindinga sem þeir hafa tekið á sig á undanförnum árum og ég nefndi áðan. En spurningin er: Hverjir eru möguleikar á rekstri slíks skips á þessum stað? Ég tel þá vera sáralitla. Þjónustufyrirtæki eru engin á þessum stöðum sem geta sinnt því sem slíkir togarar þurfa á að halda. Er þá að nefna að þar er ekki vélaverkstæði sem ræður við þetta, ekki hleraverkstæði og engin veiðarfæragerð. Það má upplýsa kúabændur úr Eyjafirði um að þessi skip róa ekki með línu eða handfæri. Það er mín skoðun, að þeir menn, sem af góðum hug, trúi ég, eru hvað ákafastir í því að færa Þórshafnarbúum þennan togara sem þeir að mínu áliti ráða ekki við, eru með því að setja þá endanlega og gersamlega á höfuðið. Það á að leysa vanda þessara byggðarlaga með öðrum hætti og m.a. þeim, að í stað skuttogara við þessu verði eigi þeir að fá eins og tvo vel útbúna 200 tonna báta sem geta stundað netaveiðar þegar það er heppilegast og togveiðar þegar það er unnt.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.