19.02.1981
Efri deild: 54. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2399 í B-deild Alþingistíðinda. (2576)

Umræður utan dagskrár

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Sjaldan hafa umræður á Alþingi orðið eins lágkúrulegar og áðan þegar farið er að blanda inn í þær sorglegum atburðum, er skeð hafa að undanförnu, og reyna með því að fela það fjármálahneyksli sem hér hefur átt sér stað. Við höfum vissulega rætt þessi mál, bæði sjóslys og óveður, innan þingflokks Alþfl. allítarlega, en að biðja um umræður utan dagskrár einmitt um þessi mannslát og það sem skeði í sambandi við umrætt sjóslys, það finnst mér of brátt, a.m.k. meðan harmurinn er hvað sárastur, sem hann vissulega er. Atvinnumál ýmissa byggðarlaga hafa spunnist inn í þessar umræður, m.a. Akureyrar sem hv. þm. hafa ekki talið ástæðu til að fjalla sérstaklega um, heldur aðeins um atvinnuleysi á Þórshöfn þar sem 17 – 18 manns hafa verið atvinnulausir að meðaltali frá 1978 til loka síðasta mánaðar. Og ætlunin er að leysa atvinnuvandamál þess byggðarlags, sem svona er statt, með því að koma á það þvílíkum drápsklyfjum að það rís ekki undir þeim. Eða er það alfarið ætlun þeirra, sem standa að þessu glæfraspili, að láta ríkissjóð greiða allan kostnað er að þessu lýtur hvernig sem allt fer?

Ég minntist á það í gær, hvernig farið hefði með útgerð togarans Fonts, og þá hörmungarsögu sem henni fylgdi, — sögu af þeirri vandræðaútgerð sem fræg varð að endemum um allt land og verður lengi í minnum höfð. Ég hygg að það sé einsdæmi, að gerður sé út togari á þann veg að á 11 mánuðum skuli þurfa 12 vélstjóra til skiptanna. Ástæðan var fyrst og fremst sú, að mennirnir fengu aldrei greidd launin sín. Og ég get upplýst það, að ég þekki marga menn sem voru á þessu skipi, og allir sögðu þeir og hafa sagt sömu söguna um þá vandræðaútgerð sem fylgdi þessu skipi. Það skiptir ekki máli hvaðan sá togari var keyptur. Togarinn var fluttur inn í stjórnartíð Matthíasar Bjarnasonar, og þegar útgerðin gafst illa á þeim stað sem hann var gerður út frá ákváðu Þórshafnarbúar sjálfir að kaupa þetta skip. En það þarf ekki að refsa Þórshafnarbúum með því að koma á þá öðrum drápsklyfjum, koma á þá klyfjum sem þeir ráða ekki við. Það er fyrirséð að þeir ráða ekki við þetta dæmi. Þess vegna höfum við bent á það — og það er kjarni málsins — við höfum bent á að lausnin er of dýr. Það má vera að togarinn sem slíkur sé ekki dýr ef miðað er við hæsta verð. En lausnin á þessu vandamáli er allt of dýr og ber þess merki, að þeim, sem harðast hafa gengið fram í þessu, er nákvæmlega sama hvernig farið er með opinbert fé, hvert skattgreiðendurnir verða að greiða fé, bara að pota og pota án tillits til hagsmuna heildarinnar. Væri Alþingi allt þannig saman sett, Guð hjálpi þá Íslendingum og Íslandi.

Í tilefni af þeim upplýsingum, sem komu fram í Nd., en þar kom fram að stjórnarmenn hefðu verið blekktir, mun ég krefjast fundar í stjórn Framkvæmdastofnunar um þetta mál að nýju til þess að menn geti rætt þessi nýju viðhorf. Ég veit að fleiri munu gera það og þá sjáum við hvernig málin líta út.