19.02.1981
Efri deild: 54. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2401 í B-deild Alþingistíðinda. (2578)

Umræður utan dagskrár

Stefán Guðmundsson:

Herra forseti. Ég var að vona og mér sýnist að storminn fari að tægja svo að hægt verði að fara að róa og draga björg í bú. Menn tala um fjármálahneyksli hér, og við, sem höfum talað fyrir þessum málum, erum þá sjálfsagt valdir að því. Furðulegur stráksskapur er það af þm., þó ekki sé meira sagt, að vera að veifa í hv. Alþingi einhverju sem þeir kalla kaupsamning, en er raunverulega ekkert annað en sölutilraun gerð án allra skuldbindinga einhverra skipainnflytjenda. Mér er sagt að a.m.k. einn þessara samninga hljóði upp á togara sem smíðaður hafi verið árið 1973. Það er sem sé verið að gera samanburð á átta ára skipi og eins árs skipi. En hvað um búnað þess skips sem þessi samningur fjallar um? Hvað með stærð þessa skips? Hvað með tæki þessa skips? Þetta er kjarni málsins. En hann er ekki dreginn fram. Þetta sýnir ljóslega að hér er aðeins verið að reyna að blekkja, það á að halda þeim leik áfram.

Menn tala um verð á þessu skipi og að það hafi hækkað í meðförum. Það er rétt. Verð á þessu skipi hefur hækkað. En hefur ekki verð á fleiri skipum hækkað? Það skyldi þó aldrei vera. (Gripið fram í: Hver á að borga?) Hver á að borga, segir stjórnarmaður í Framkvæmdastofnun ríkisins. Kannast hann við þessar tölur: Þegar sótt var um lán til Framkvæmdastofnunar út á Ottó N. Þorláksson var kynnt verð skipsins rúml. 1.9 milljarðar kr. Lokaverð þess skips mun aldrei verða undir 5 milljörðum króna. (Gripið fram í: Við getum hugsað fyrir því.) Stóðst þú ekki að láni úr Framkvæmdastofnun ríkisins upp á ákveðna prósentu af verði þessa skips? Var það bundið einhverri ákveðinni upphæð? (Gripið fram í.) Nei, það er engin trygging fyrir þig. Tökum Kolbeinsey, það var samið um það skip líka í nóv. 1979 upp á 1.8 milljarða. Það skip mun kosta a.m.k. 4 milljarða. Togari, sem á að fara til Grundarfjarðar og ég minntist á í gær, fer í kjördæmi Eiðs Guðnasonar, sem sá glórulausan rekstur á Þórshafnartogaranum, hann átti að kosta í ágúst 1980 2.6 milljarða kr., en sá togari mun örugglega kosta 4 milljarða. Hvar er rekstrargrundvöllurinn fyrir því skipi? Svona mætti halda áfram að telja. En mönnum finnst heppilegra að segja ekki hér frá, vegna þess að það á að velta sér upp úr þessu eina máli og hvernig þar hefur til tekist. Þó að megi kannske eitthvað þar að finna bendi ég á að það er víðar sem mætti rannsaka og rannsaka vel.

Menn vilja nú sem óðast hlaupa frá ábyrgð í þessu máli og helst af öllu að koma ímyndaðri sök á einhverja aðra. Því vil ég spyrja: Hvar eru nú drengskaparmennirnir? Hvar eru nú drengskaparmennirnir sem talað hefur verið um? (Gripið fram í.) Ég ætla ekki að fría mig af ábyrgð í þessu máli, langt frá því. Ég hef staðið að því á fundum Framkvæmdastofnunar að þetta mál yrði afgreitt á þann hátt að þessum aðilum yrði gert kleift að eignast umræddan togara, í þeirri trú að í því fælist lausn á því atvarlega atvinnuástandi sem verið hefur á þessu svæði, og að þessi kaup kæmu vissulega til með að bæta rekstrarafkomu frystihúsanna sem hér er talað um, bæði á Raufarhöfn og Þórshöfn. Og það er von mín að svo verði.