19.02.1981
Efri deild: 54. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2410 í B-deild Alþingistíðinda. (2583)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég hafði eiginlega hugsað mér að taka til máls hér um þingsköp áður en þessi umr, hæfist, en var því miður fjarstaddur. Hér er farið út á þá braut að ræða frv. til lánsfjárlaga án þess að lánsfjáráætlun liggi fyrir, og það er fráleitt með öllu. En áður en ég vík nánar að því vil ég minnast á það sem hér hefur fram komið, að síðan í gær hafi fjmrh. brugðið á það ráð að láta endurprenta frv. til lánsfjárlaga til þess að geta breytt 12. gr. frv. sem varðar þá peninga sem áttu að renna til skipasmiði innanlands, — breytt textanum þannig að nú skuli heimilt samkv. þessari grein að endurlána til smíði og kaupa á fiskiskipum. Fjmrh. hefur brugðið á það ráð að breyta þessari grein með tilliti til þeirrar umr. sem hér hefur farið fram. Þeir, sem vinna við skipasmíði í landinu, vita þá nákvæmlega hvar ríkisstj. stendur.

Hins vegar held ég að það væri ráð fyrir hæstv. fjmrh. að láta endurprenta þetta frv. einu sinni enn, vegna þess að það hefur láðst að gera samsvarandi breytingu í grg. Í grg. um 12. gr. stendur áfram að Byggðasjóður veiti fyrirgreiðslu vegna skipasmíði innanlands fyrir þetta fé. Ég vænti þess, að fjmrh. gæti að því að láta nú prenta þetta nægilega oft og vel og skýrt.

En svona er flumbruskapurinn á ríkisstjórnarheimilinu, að menn hafa ekki einu sinni vit á því að útfæra þetta alla leiðina.

Herra forseti. Ég sagði hér í upphafi að ég teldi með öllu ótækt að hér færi fram efnisleg umræða um þessi mál meðan lánsfjáráætlun lægi ekki fyrir. Ég mun því ekki fjalla um einn einasta efnisþátt í þessu máli og geri þá kröfu að umr. verði þegar frestað. Að vísu má gefa ráðh. heimild til þess að svara fsp., en ég tel að það svari engum tilgangi að halda þessari umr. áfram án þess að hin raunverulegu gögn málsins liggi fyrir, og hef ég þó hlustað á skýringar ráðh.