19.02.1981
Efri deild: 54. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2413 í B-deild Alþingistíðinda. (2588)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Mér er ánægja að svara fsp. hv. þm. Ekki er óeðlilegt að slík fsp. komi fram vegna þess mikla tjóns sem orðið hefur af fárviðrinu sem gekk yfir landið á mánudag og aðfaranótt þriðjudags.

Á ríkisstjórnarfundi í morgun var þetta mál rætt ítarlega. Hæstv. félmrh. og heilbr.- og trmrh. — en undir þau ráðuneyti heyra þessi mál fyrst og fremst — rakti þetta mál ítarlega. Eftir umr. í ríkisstj. voru samþykktar ályktanir um þetta efni. Skal ég rekja hér meginatriði þeirra.

Í fyrsta lagi var samþykkt að nú þegar fari fram könnun á því tjóni sem varð í ofviðrinu og sú könnun fari fram í hverju byggðarlagi.

Í öðru lagi verði undirbúin breyting á lögum um Viðlagatryggingu Íslands, þar sem m.a. verði gert ráð fyrir að tryggingin nái til tjóna af völdum fárviðris, eftir því sem unnt er.

Í þriðja lagi að endurskoðuð verði lög um Bjargráðasjóð, en eins og kunnugt er er hann nú vanmegnugur þess að rétta hjálparhönd eins og þarf varðandi þau málefni sem undir hann fjalla. Í sambandi við endurskoðun á lögum um Bjargráðasjóð þarf að sjálfsögðu bæði að athuga nánar um tekjustofna hans og einnig hvernig eigi að skipta verkefnum milli hans og Viðlagatryggingar, en það þarf sérstakrar könnunar við.

Þá var einnig samþykkt að við afgreiðslu lánsfjárlaga á Alþingi þyrfti að taka til athugunar að hve miklu leyti þurfi sérstaka lánsfjárheimild til að auðvelda endurbætur mannvirkja þegar mat á tjóni liggur fyrir.

Þetta eru meginatriðin í þeim ályktunum sem ríkisstj. gerði í morgun.