19.02.1981
Efri deild: 54. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2417 í B-deild Alþingistíðinda. (2593)

Umræður utan dagskrár

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Vesturl. vék að till. þeirri á þskj. 442 sem ég lýsti áðan. Ég vil aðeins taka fram í tilefni þess sem hv. 3. þm. Vesturl. sagði, að við flm. þessarar till. höfum ekkert á móti því að leysa þetta mál á vegum Viðlagatryggingar. En við leggjum til að fjármagn verði veitt til Bjargráðasjóðs vegna þess að þar þarf ekki annars með og þarf ekki að breyta lögum.

Við leggjum áherslu á flýtinn í þessu máli. En við skulum svo flýta okkur hægt við það að ákveða framtíðarskipun málanna.

Hv. 3. þm. Vesturl. sagði að það væri eðlilegra að tjónið yrði kannað áður en nokkuð yrði gert. Við erum allir sammála um það, að nauðsynlegt er að kanna tjónið. En það þarf ekki að taka langan tíma. Og ég gerði ráð fyrir því í þeim orðum, sem ég sagði hér áðan, að það yrði búið að kanna tjónið þegar till. sú, sem ég lýsti, kæmi til afgreiðslu.