19.02.1981
Efri deild: 54. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2417 í B-deild Alþingistíðinda. (2594)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Varðandi fsp. um fé Viðlagatryggingar hef ég ekki handbærar nú þær tölur, en nokkurt fé mun Viðlagatrygging eiga í sjóði. Hins vegar mun Bjargráðasjóður ekki eiga fé í sjóði, að því er mér er tjáð.

Í ræðu hv. þm. Salome Þorkelsdóttur virtist koma í aðra röndina fram einhver gagnrýni á ríkisstj. í þessu efni og ekki alveg ljóst við hvað var átt. Þó taldi hv. þm. að ummæli hæstv. félmrh. í útvarpi í gær hafi ekki lofað góðu. Ég held að þau ummæli, sem hv. þm. sérstaklega hafði eftir félmrh., séu vissulega orð í tíma töluð. Þau voru hvatning hans til allra um að sýna fyrirhyggju. Vitanlega er það ljóst að þó megnið af því tjóni, sem þetta fárviðri olli, hafi vafalaust verið óviðráðanlegt, þá þekkja allir að þess eru líka dæmi, að tjón í sumum tilvikum hefði verið hægt að koma í veg fyrir eða draga úr tjóni. Það er t.d. vitað, að í sumum tilvikum hafa þakplötur og þakhellur ekki verið eins vel festar eða frá þeim gengið og æskilegt hefði verið. Hefur jafnvel komið fyrir að slíkar skemmdir hafi orðið á sömu byggingum og urðu fyrir tjóni fyrir nokkrum árum, þegar ofviðri geisaði, sem sýnir að þegar við var gert hefur ekki verið gengið nægilega vel frá.

Enn fremur er auðvitað ljóst að það er ástæða til að hvetja bæði einstaklinga og atvinnurekendur til þess að gæta vel að tryggingum, þannig að það gerist ekki aftur að atvinnufyrirtæki, vönduð og dýr, séu að verulegu leyti ótryggð. Og þó staðhæft sé að ekki sé hægt í vissum greinum að fá tryggingu innanlands, eins og mun hafa komið fram í samtali við mann úr einni slíkri grein í gær, þá hefur því verið andmælt af vissum tryggingarfélögum, auk þess sem um er að ræða vissa möguleika erlendis. Það er því alveg ljóst að um leið og sjálfsagt er að greiða fyrir því að bæta það tjón, sem orðið hefur af völdum ofviðrisins að verulegu leyti, eru það orð í tíma töluð hjá hæstv. félmrh. að hvetja menn til fyrirhyggju og forsjálni í þessum efnum.

Það er líka rétt að taka fram að það er of langt gengið í því að smjaðra fyrir fólkinu þegar sumir þeir, sem mest tala og skrifa um niðurfærslu á útgjöldum ríkisins og sparnað í rekstri, hvetja svo til þess í blaðagreinum, eins og t.d. í gær, og forustugreinum, að nú eigi hið opinbera að bæta til fulls allt tjón sem af þessu ofviðri hafi hlotist. Vissulega ber að gera allar skynsamlegar og eðlilegar ráðstafanir í þessu efni, en það verður einnig að hafa þarna nokkra fyrirhyggju, og ég tel ekki óeðlilegt að fólk sé til þess hvatt.

Að öðru leyti hef ég engu við það að bæta, sem ég skýrði frá áðan, nema því, að hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson taldi að nú þyrfti að hafa skjót viðbrögð og mætti ekki fara langur tími í endurskoðun og athugun á lögum. Eins og hér hefur komið fram á breyting á viðlagatryggingalögum ekki að taka langan tíma. Og eins og ég greindi frá hefur ríkisstj. í hyggju að beita sér fyrir því, að viðlagatrygging nái einnig til tjóna af völdum fárviðris eftir því sem unnt er.

Út af ummælum hv. þm. Salome Þorkelsdóttur um viðlagatrygginguna og gagnrýni, að mér skildist, af hennar hálfu á því, að tryggingin næði ekki til tjóns af völdum ofviðris, þá er það nú bara þannig í lögunum sem sett voru á sínum tíma og fyrrv. heilbr.- og trmrh., hv. þm. Matthías Bjarnason, beitti sér fyrir og eru honum til sóma. En í lögunum, eins og hann flutti þau og gengið er frá þeim, var ekki gert ráð fyrir því, að neitt tjón yrði bætt af þessum orsökum. Hins vegar er nú vissulega tímabært, álít ég, að endurskoða þau lög og rýmka þau að þessu leyti og bæta úr þessum annmarka sem á þeim var.

Hv. þm. Þorvaldur Garðar Kristjánsson vill hraða framkvæmdum í þessu efni og skýrði frá því, að hann hefði flutt till. við frv. til lánsfjárlaga um heimild til þess að taka lán á árinu 1981 að fjárhæð allt að 30 millj. kr. og veita Bjargráðasjóði. Þetta er góðra gjalda vert þó það sé kannske að vissu leyti nokkuð fljótráðið, eins og komið er fram í umr., að vera að slá þessari upphæð fastri. Eðlilegra væri að kanna málin áður, og það á ekki að taka langan tíma. En um leið og hv. þm. skýrir frá þessari till. sinni og nokkurra fleiri þm., sem er brtt. við frv. til lánsfjárlaga, og telur að með þessu sé hann mjög að greiða fyrir og flýta lausn þessara mála, þá vildi ég í allri vinsemd benda honum á að samtímis krefjast flokksbræður hans þess, að afgreiðslu lánsfjárlaga sé frestað um óákveðinn tíma.