19.02.1981
Neðri deild: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2420 í B-deild Alþingistíðinda. (2601)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það er út af fyrir sig ástæðulítið að ræða þetta mál hér í dag í ýkjalöngu máli. Ástæðurnar eru tvær: Í fyrsta lagi mun væntanlega gefast tækifæri til að ræða málið frekar þegar hæstv, forsrh. gefur skýrslu þá sem beðið hefur verið um, og þá munu væntanlega fást svör við ýmsum spurningum sem hér hafa verið bornar upp, en menn kinokað sér við að svara. Önnur ástæðan er sú, að eftir því sem mér er tjáð og ég vildi gjarnan vita sönnur á hefur hæstv. fjmrh. í gær, þrátt fyrir þær umr. sem þá fóru fram, gefið út og undirritað bréf með heimild til ríkisábyrgðar á allt að 90% af kaupverðinu. Ég vildi gjarnan fá tækifæri til þess að leita eftir því við hæstv. fjmrh., hvort þetta er rétt. Ef þetta er rétt er framferði hæstv, ráðh. fyrir neðan allar hellur, að hann skuli gefa slíka heimild út þvert ofan í þær umræður sem fram fóru í gær.

Ég vildi gjarnan óska eftir því, herra forseti, að mér gæfist kostur á að gera örlítið hlé á ræðu minni meðan leitað er að hæstv. fjmrh. Mér skilst að enn muni vera í gildi 5 mínútna ræðutakmörkun. Er það ekki rétt? (Forseti: Nei, svo er eigi.) Þá er engin ástæða til að bíða neitt. Ég get þá væntanlega endurtekið þá spurningu síðar sem ég hef í huga.

En ég vil taka það fram, að ég ætla að biðja menn að doka eilítið við, gera sér ljóst að það er ekki orðið lítils vert sem þessir hæstv. tíu ráðh. eru farnir að vinna í þessu landi. Það er ekki ákveðið verð lengur á neinni vöru í landinu öðruvísi en að þessir tíu menn ákveði hvað viðkomandi vara eigi að kosta. Þeir ákveða hvað fiskurinn eigi að kosta upp úr sjónum. Þeir ákveða hvað fiskkaupmaðurinn í Reykjavík má taka mikið verð fyrir að sækja fiskinn, sem hann selur, til Grindavíkur. Þeir ákveða, hvað gengi íslensku krónunnar eigi að vera, með tilskipunum. Þessir sömu ráðh. ákveða hvaða vexti menn eigi að greiða af lánum sem þeir taka, og þeir taka ákvarðanir um hvorn Jón Jónsson á þessum eða hinum staðnum megi kaupa sér togara, þá hvernig skip kaupa eigi, og þeir taka ákvörðun um hvar eigi að útvega peninga til kaupanna. Þessir tíu hæstv. ráðh. eru sem sé ekki orðnir lengur hefðbundin ríkisstj. í hefðbundnu þingræðisríki. Þeir eru einn daginn verðlagsyfirvald til að ákveða, eins og hæstv. félmrh. sagði, verð á smjörlíki og barnableium. Annan daginn taka þeir að sér hlutverk oddamanns í nefnd til að ákveða fiskverð. Þriðja daginn gefa þeir út tilskipun um hvert gengi íslensku krónunnar eigi að vera: í dag miðað við Bandaríkjadollar og á morgun miðað við meðalgengi annarra gjaldmiðla. Þá taka þeir sig til einn daginn og setjast í hlutverk Seðlabanka og fara að ákveða vexti o.s.frv., o.s.frv. Ég efast meira að segja um að í nokkru austantjaldsríki sé jafnmikið miðstjórnarvald og núverandi ríkisstj. er búin að taka sér í hendur. Ég efast jafnvel um að í nokkru kommúnistaríki austantjalds hafi ríkisstjórn tekið í sínar hendur öll þau völd sem þessir hæstv. ráðh. hafa ákveðið að þeir skuli nú fara með. Einu verkin, sem hæstv. ríkisstj. hefur ekki nokkurn tíma til að sinna og sinnir ekki, eru verkin sem hún á að sinna, þ.e. að stjórna landinu, að fjalla um þau mál sem m.a. ráða úrslitum um hvort hér er lífvænlegt til byggðar eða ekki.

Þetta er ekki nema eitt dæmi af mörgum um fyrirgreiðslupólitík hæstv. ríkisstj., þegar ráðh. velta á milli sín þeim bolta hver hafi tekið ákvörðunina um kaup á tilteknu skipi fyrir tiltekna aðila og enginn vill bera ábyrgð á því — að manni skilst — deginum lengur.

Þar sem hæstv. fjmrh. er kominn í salinn vil ég ítreka þá fsp., sem ég bar fram áðan, hvort það sé rétt að hæstv. ráðh. hafi í gær, þrátt fyrir umr. sem þá fóru fram um kaupin á þessu skipi, gefið út bréf með heimild til ríkisábyrgðar á allt að 90% af kaupverðinu. Ef þetta er rétt höfum við alþm. í sjálfu sér ekkert að gera með að ræða þetta mát frekar, því að þá liggur alveg fyrir að hæstv. ráðh. dettur ekki í hug að taka tillit til neins af því sem hér hefur verið sagt eða mun verða sagt um þetta mál.

Ég hef spurt samráðh. hans í ríkisstj., á þeim stutta tíma sem liðinn er síðan ég kom hingað í húsið, hvort þeim væri kunnugt um að hæstv. fjmrh. hafi tekið þá ákvörðun sem ég spurðist fyrir um áðan. Ég náði að vísu ekki í alla ráðh. níu, en náði þó í nokkra þeirra, og enginn þeirra vissi af því að þessi ákvörðun hefði verið tekin. Þess vegna ítreka ég spurningu mína: Þrátt fyrir þær umr., sem hér fóru fram, þrátt fyrir þá gagnrýni, sem hér var fram sett á umrædd skipakaup, tók hæstv. ráðh. samt sem áður þá ákvörðun að gefa út heimild til ríkisábyrgðar á allt að 90% af kaupverði?

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um málið sjálft, en vekja þó athygli á því hvernig menn, sem komið hafa nálægt málinu og skipta með einhverjum hætti á milli sín ábyrgðinni á því, veltu þessu máli á milli sín hér í ræðustól á Alþingi eins og heitri kartöflu. Enginn þeirra vildi kannast við að hann ætti neina óuppgerða sök í því máli. Hæstv. ríkisstj. reyndi að velta allri ábyrgðinni yfir á stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins þó að fyrir liggi að stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins tók sínar ákvarðanir í málinu alveg frá upphafi vegna þess að hún taldi að hún væri þar að fara að fyrirmælum ríkisstj. Stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins taldi sig vera að fara að fyrirmælum ríkisstj. frá upphafi málsins, eins og glögglega kemur fram í fundargerðum stjórnarinnar. Það var ekki fyrr en í gær að nokkrir ráðh. upplýstu að þetta væri allt saman misskilningur. Hæst fannst mér þó reitt til höggs hjá hæstv. sjútvrh. Hann viðurkenndi að vísu hér úr ræðustól að allt það, sem hv. þm. Sverrir Hermannsson hafði um orðaskipti þeirra að segja í frægu símtali, væri rétt. Hæstv. ráðh. viðurkenndi að Sverrir færi þar með rétt mál í flestum eða öllum atriðum, en bætti því við, að hann skildi ekki hvernig hv. þm. Sverrir Hermannsson gæti misskilið sín orð á þann veg að hann hafi verið að skýra frá skoðunum ríkisstj. Hæstv. ráðh. sagði: Ég kom af ríkisstjórnarfundinum í síma til Sverris og sagði „Menn telja“. Ég þykist ekkert endilega eiga við þá menn sem sitja í ríkisstjórninni, heldur bara menn svona almennt. — Og hæstv. ráðh. var alveg hissa á að hv. þm. Sverrir Hermannsson skyldi misskilja sig þannig, þegar hann fór að lýsa skoðunum manna á málinu, að hv. þm. Sverrir Hermannsson skyldi halda að ráðh. ætti við mennina í ríkisstj. Þetta var misskilningur sem hæstv. sjútvrh. botnaði ekkert í að forstjóri Framkvæmdastofnunar ríkisins skyldi gera sig sekan um.

En þeir, sem fylgjast með umræðum um ýmis mál tengd sjávarútvegi í blöðum og útvarpi, hljóta að muna eftir því, að þetta er ekki í fyrsta skipti sem hæstv. sjútvrh. vill fá að hlaupa frá ábyrgð og ákvörðun sem hann hefur tekið. Hæstv. sjútvrh. er nokkuð gjarn á að tala að óathuguðu og óhugsuðu máli, og það hefur nokkrum sinnum hent hæstv. ráðh. að hann hefur séð það eftir á, að hann hefði betur hagað orðum sínum með meiri gætni fyrsta kastið, og viljað þá fá að hlaupa frá öllu saman. Þetta er því ekki í fyrsta skipti sem hæstv. ráðh. vildi gjarnan getað hlaupið undan ábyrgð á málum sem hann hefur haft afskipti af. Það er kannske mannlegt, en það er ekki stórmannlegt. En þetta er sem sé ekki einsdæmi frá hæstv. ráðh.

Þó vil ég aðeins bæta einu við án þess að orðlengja nokkuð um þetta frekar: Í öllum þessum umræðum er rætt um að taka af fé skattborgara andvirði svo sem eins skuttogaraverðs vegna Norðurlandskjördæmis eystra. Á sama tíma eru þm. í Norðurlandskjördæmi vestra að ræða um svo sem eins og þrjú skuttogaraverð úr almannasjóði og þykir ekki mikið fé. Ég vil benda mönnum á að hér hefur nær ekki verið neitt um það spurt, hver væri líkleg rekstrarafkoma hjá þessu skipi sem á að fá almenning á Íslandi til að kaupa fyrir tiltekna aðila á Þórshöfn og Raufarhöfn. Menn virðast einskorða sig við að tala um málið á þeim grundvelli að almenningur eigi að kaupa þetta skip og afhenda það tilteknum aðilum til rekstrar og þar með sé málið búið, þar með séu íslenskir skattborgarar lausir allra mála. En svo er aldeilis ekki. Það þarf nefnilega meira en að kaupa skipið. Það þarf líka að reka það. Það kom fram í útvarpsfréttum um hádegið, sem ég hygg að hafi verið á vitorði nokkurra manna hér, að í grófum rekstraráætlunum, sem Framkvæmdastofnun ríkisins hefur gert um afkomu þessa skips, kemur í ljós að jafnvel þótt reksturinn á skipinu gengi framar vonum, þ.e. að afli yrði vel í meðallagi o.s.frv. og ekki yrðu nein sérstök óhöpp með þetta skip, vantar á sjöunda hundrað milljóna, í gkr. mælt, til þess að skipið geti staðið undir vöxtum og afborgunum.

Við erum hér að tala utan dagskrár m.a. um vandamál sem skapast hefur vegna þess að það vantar milli 200 og 300 millj. gkr. til að ná endum saman vegna kaupa á þessu skipi. Menn fjargviðrast yfir því, að þessa peninga eigi nú að taka til viðbótar hinum úr almannasjóði, en menn mega þá ekki gleyma því, að það er meira sem á eftir fylgir. Öllum er okkur það auðvitað ljóst, að þær rúmlega 600 milljónir gkr., sem vantar til að endar nái saman í rekstrinum, eiga líka að koma úr vasa okkar hinna. Þær eiga líka að koma úr vasa íslenskra skattborgara frá ári til árs og ár eftir ár. Þannig er ekki aðeins verið að láta landslýð gefa tilteknum aðilum skip, það er líka verið að ætlast til þess að íslenskur almenningur borgi rekstrarhallann sem verður af þessum togara frá ári til árs og ár eftir ár. Í umr. í gær virtist að enginn hefði sérstakar áhyggjur af þessu. Og hæstv. sjútvrh. upplýsir í umr. í gær — maðurinn sem hefur öðrum ráðh. fremur haft frumkvæði um þessi skipakaup — að hann hafi fyrst farið að spyrjast fyrir um rekstrargrundvöll skipsins fyrir tíu dögum. Fyrir tíu dögum bað hann um athugun á rekstrargrundvelli umrædds skips. Það var fyrst þá sem hæstv. ráðh. fór að hugleiða í alvöru hver bakreikningurinn kynni að verða, sem hann ætlar að senda íslenskum skattborgurum.

Hér eiga sæti menn sem beitt hafa áhrifum sínum á Alþingi til að taka heila atvinnugrein í landinu á ríkisframfæri, til að taka heila atvinnugrein í landinu á framfæri almennra skattborgara. Kostnaður almennings af rekstri þessarar atvinnugreinar nálgast nú að vera álíka há prósenta af heildarútgjöldum íslenska ríkisins og það kostar breska skattborgara að reka breska herinn. Það er ekkert skrýtið þó að mönnum, sem bera ábyrgð á þessu, finnist ekki aldeilis mikið um að tala þó að svo sem einn skuttogari sé tekinn á framfæri almennings til viðbótar.

Það er mjög athyglisvert hvaða hv. þm. og hæstv. ráðh. það eru sem ganga þarna fram fyrir skjöldu og láta sér ekki detta í hug svo mikið sem spyrjast fyrir um hugsanlega rekstrarafkomu skipsins fyrr en fyrir tíu dögum. Það eru ráðh. og þm. Framsfl. Það er ekki tilviljun.

Eins og ég sagði, herra forseti, væri full ástæða til að fara nokkru frekar út í þá sálma. Það ætla ég samt ekki að gera hér. En ég ætla að biðja menn að hugleiða í ró og næði hvort þessi ævintýri séu ekki svipuð og þau sem gerðust með sláturhús á Íslandi hér í eina tíð, þegar var verið að sjá svo um að þau kæmust öll undir eina og sömu stjórnina. Hverjir skyldu það nú eiginlega vera sem eiga að selja afurðirnar sem með þessum hætti er verið að afla fyrir fjárframlög almennings? Hverjir skyldu það nú vera sem eiga að hafa tekjurnar af sölu þeirra afurða? Ég ætla ekki að fara frekar út í þá sálma, en þetta er þó atriði sem ég tel að sé fyllilega umhugsunarvert fyrir alþm.

Ég ætla í lokin að bæta við tveimur atriðum.

Í fyrsta lagi minni ég á það, sem raunar kom fram í Ed. í gær, að fulltrúi Alþfl. í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins hefur frá upphafi verið andvígur þessum togarakaupum með þeim hætti sem að þeim hefur verið staðið. Hann hefur greitt atkvæði gegn þeim og verið andvígur málinu frá upphafi og verið eini stjórnarmaðurinn í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins sem þá afstöðu hefur haft alveg frá upphafi og til þessa dags.

Ég vil enn fremur bæta því við til frekari upplýsingar, að það er rétt, sem kom fram hjá hv. þm. Eggert Haukdal, formanni stjórnar Framkvæmdastofnunar ríkisins, hér í gær, að það er harla lítið samræmi milli annars vegar frv. til lánsfjárlaga, sem hæstv. fjmrh. leggur fram, og hins vegar þeirrar hugmyndar hans, sem nú virðist vera orðin ákvörðun, að afla fjár til þessara togarakaupa með því að ganga á sérstakan sjóð sem formaður stjórnar Framkvæmdastofnunar ríkisins fékk hjá ríkisstj. sællar minningar til að efla skipasmíðaiðnað í landinu. Hæstv. fjmrh. lét í það skína, að féð, sem hér um ræðir, væri til skipakaupa, það væri ekki sérstaklega ætlað til skipasmíðaverkefna innanlands. Á þeim grundvelli vildi hann rökstyðja þá ákvörðun sína að taka hluta af þessu fjármagni til kaupa á umræddu skipi, sem eins og allir vita er ekki smíðað á Íslandi, heldur keypt utanlands frá. En hæstv. ráðh. og formanni Framkvæmdastofnunar ríkisins, hv. þm. Eggert Haukdal, hefur sést yfir eitt atriði í þessu sambandi. Hæstv. fjmrh. virðist ekki muna það frá degi til dags hvað hann leggur fram hér í sölum Alþingis. Á sama tíma og hann beitir fyrir sig þessari röksemdafærslu stendur annað í athugasemdum með 12. gr. í frv. til lánsfjárlaga. Greinin er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Byggðasjóði er heimilt að taka lán allt að 15 millj. kr. til að endurlána til smíði fiskiskipa.“

Þetta er greinin sjálf, en í aths. við greinina stendur að ráðgert sé að Byggðasjóður veiti fyrirgreiðsluna vegna skipasmíði innanlands. Í þessu frv. er því leitað sérstakrar heimildar til öflunar fjármagns til endurlána. M.ö.o.: Skýringin, sem hæstv. fjmrh. gefur sjálfur í frv. til lánsfjárlaga á þessari umræddu 12. gr., er sú, að féð, sem þarna er verið að ræða um, eigi að fara til skipasmíðaverkefna innanlands. Hann kom sjálfur í ræðustólinn í gær og hélt því fram, að það væru engin ákvæði sem byndu umrætt fjármagn við innlend skipasmíðaverkefni og því hefði hann fulla heimild til að taka af því til að ráðstafa til kaupa á þessum innflutta togara. En í sömu andránni og hæstv. ráðh. heldur þessu fram leggur hann fram hér á Alþingi frv. til lánsfjárlaga þar sem hann sjálfur segir að umrætt fé sé eyrnamarkað skipasmíðaverkefni innanlands. Þannig stenst ekki frá einni stund til annarrar það sem hæstv. ráðh. segir og gerir í þessari hv. deild. Ég hlýt því í þessu sambandi að taka undir með hæstv. iðnrh. og staðfesta það, a.m.k. hvað mig varðar, að ég tel að sá skilningur hans sé réttur, sem fram hefur komið í blaðaviðtölum við hæstv. ráðh., að þetta umrædda fjármagn hafi verið eyrnamarkað til skipasmíðaverkefna innanlands og því sé hæstv. fjmrh. eða ríkisstj. óheimilt að taka til nota af því fjármagni til að kosta innflutning á fiskiskipi sem ekki var smíðað hér. Þessi skilningur hæstv. iðnrh. hlýtur að vera réttur, einfaldlega vegna þess að hann er festur hér á blað í þskj. af hæstv. fjmrh. sjálfum. Það þarf þá ekki frekar vitnanna við um hvor hæstv. ráðherranna hafi rétt fyrir sér í þessu sambandi.

Herra forseti. Ég tel enga ástæðu til að fara frekari orðum um þetta mál að þessu sinni, en ítreka þá fsp. sem ég gerði til hæstv. fjmrh. áðan.