19.02.1981
Neðri deild: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2445 í B-deild Alþingistíðinda. (2609)

Umræður utan dagskrár

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Fyrst er aths. út af orðum Ólafs G. Einarssonar varðandi blaðasamtal við mig. Ég sagði blaðamanninum að þetta væri stórt mál. En hann spurði eitthvað út í Gervasonimál. Ég sagði aðeins um það, að það væri ómerkilegt mál, og við það stend ég.

En hvernig stóð á því, að Ólafur G. Einarsson sat ekki hjá í stjórn Framkvæmdastofnunar þegar atkvæði voru greidd um þessa tillögu? Ef fjórir hefðu setið hjá hefði umrædd tillaga ekki gengið fram. Það er nú upplýst af umr. hér í gær og enn í dag, að sú tillaga hefur verið algjörlega byggð á sandi. Ólafi G. Einarssyni hefði verið nær að sitja þá hjá en að vera stöðugt að kasta athugasemdum til mín, bæði hér í Alþingi og í stjórn Framkvæmdastofnunar. Þá stæði hann betur að vígi gagnvart þeim mörgu sem hafa síðan hann greiddi þarna atkvæði verið stöðugt að finna að afstöðu hans í atkvæðagreiðslunni.

Um kaupsamninginn. Mér varð það á hér í gær, og játa þau mistök, að segja að kaupsamningur hefði ekki verið gerður. En hann er ekki fullfrágenginn að því leyti, að samkv. kaupsamningi átti kaupandi að leggja 10% kaupverðsins á sameiginlegan reikning í banka í Noregi. Þetta ákvæði samningsins var framkvæmt með þeim hætti, að Byggðasjóður gaf út yfirlýsingu að sjóðurinn mundi greiða 10% kaupverðs um leið og skipið væri afhent kaupanda. Af því hefur ekki orðið. Ef skipið verður hins vegar aldrei afhent tel ég að sjóðurinn þurfi ekki að inna þessa greiðslu af hendi, nema hægt sé að kenna sjóðnum um riftunina. Það tekur marga mánuði eða jafnvel ár hjá seljendum að sækja sinn rétt á okkur. Þess vegna er það misskilningur hjá hæstv. fjmrh. að tala um að það sé hægt að reikna með í stöðunni í dag að við þurfum að punga út með 300 millj. á stundinni ef kaupsamningi er rift. Þetta er alls ekki rétt. Það er engin vissa um skaðabætur. Norðmenn verða að sækja þennan rétt. Við verjum okkur eins og við getum í málinu og það liggur ekkert fyrir um endanlegar tölur.

Það ber að athuga að enn eru ýmsir lausir endar í málinu. Það er ekki búið að semja endanlega um þær breytingar sem seljandi átti að framkvæma á trolldekki. Seljendur hafa lýst því yfir, að þeir vilji komast hjá því að láta framkvæma þessar breytingar og vilji heldur lækka verð skipsins. Í tilboði Slippstöðvarinnar var gert ráð fyrir að þessar breytingar kostuðu um 1 324 000 norskar kr. eða um 160 millj. gkr. En seljendur munu hafa boðið fram eitthvað lægri fjárhæð til lækkunar á kaupverði. Þetta er allt á lausu enn.

Það var mikill misskilningur hjá fjmrh. að þetta mál snerti ekki íslenskan skipaiðnað. Hann nefndi hér fjögur skip sem Byggðasjóður stendur í skuldbindingum við upp á 1790 millj. gkr. Til viðbótar er fimmta skipið í umsókn, Fáfnir á Þingeyri. Það er smíðað hjá Slippstöðinni. Lánsumsókn er áætluð á 600 millj. gkr. Nýtt skip hjá Stálvík er í sjötta lagi, 600 millj. gkr. Samtals er þá upphæðin 2990 millj. eða tæpir þrír milljarðar gkr. Helmingurinn af því var samið um til innlendrar skipasmíði. Það eru 1500 millj. gkr. Það er því ekkert afgangs í þennan nýja Font eða togarann Stefán Valgeirsson, eins og sumir vilja gefa honum nafn.

Það er ekki alveg ákveðið um þetta nýja skip hjá Stálvík, en það hafa verið gerðir bráðabirgðasamningar um að smíða fjóra báta þar. Þeir yrðu vafalaust samtals dýrari en þarna er gert ráð fyrir um togarasmíði Stálvíkur, 600 millj. gkr., þannig að það er alveg klárt að 3000 millj. gkr. þarf til innlendrar skipasmíði.

Það er rétt hjá ráðh., að þetta hefði verið greitt af Byggðasjóði þótt 1500 millj. hefði ekki fengist fram. En ætlaði hann að skilja þannig við Byggðasjóð að hann gæti á þessu ári bókstaflega ekki sinnt neinum verkefnum öðrum? Ég held að hæstv. ráðh. hafi einhvern tíma verið formaður þessa sjóðs. Það hefði ekki verið falleg saga hjá honum, þegar hann varð svo fjmrh. og hafði tækifæri til að efla þennan sjóð, að hann skildi við hann í rúst. Það lá fyrir að við fengjum ekkert framlag á fjárlögum til aukningar á tekjum sjóðsins. Ef þessar 1500 millj. hefðu ekki komið, hvar hefðum við staðið í ár?

Ég vil því undirstrika orð iðnrh. sem ræddi þetta mál af skilningi, að þarna þarf að standa við bakið á íslenskum iðnaði.

Nýjustu fréttir í þessu máli, og ekki skemmtilegar, eru, eins og hæstv. fjmrh. gat um, að hann hefði gefið út bréf í gær. Hvernig gat hæstv. ráðh. gefið út bréf þegar fyrir lá hér að það hefur engin ákvörðun verið tekin í ríkisstj. í þessu máli eins og kom fram í umr. í gær, og ekki heldur enn í morgun, — engin fullnaðarákvörðun tekin, — og ekki liggur fyrir um endanlega fjármögnun þess? Ég hef séð afrit að þessu bréfi. Ég ætla að leyfa mér að lesa það hér upp, með leyfi forseta. Það er dagsett í gær, 18. febr. Bréfið er til ríkisábyrgðasjóðs.

„Ráðuneytið mun beita sér fyrir því, að veðmörk, sem nú eru 80% af kaupverði togara, sbr. lög nr. 28 1972, verði færð í 90%. Verður brtt. borin fram við ákvæði 1. gr. frv. lánsfjárlaga fyrir árið 1981 til að tryggja framgang þessa máls. Með hliðsjón af framansögðu felur rn. ríkisábyrgðarsjóði að staðfesta við þá aðila, er mál þetta varðar, áform þessi.

Rn. getur eftir atvikum fallist á að ríkisábyrgðasjóður taki ábyrgð á endurgreiðslu láns, er Útgerðarfélag Norður-Þingeyinga hf. áformar að taka í London í svissneskum frönkum, sbr. lánsáform er kynnt hefur verið ríkisábyrgðasjóði.

Rn. staðfestir hér með, að fallist hefur verið á að ábyrgðargjöld til ríkisábyrgðasjóðs verði greidd á næstu tólf mánuðum eftir að ábyrgð er veitt og taki sjóðurinn þau gjöld sem hluta af aflaverðmæti því er Útgerðarfélagið setur m.a. til tryggingar skuldbindingum sínum við ríkisábyrgðasjóð.

Loks hefur rn. ákveðið á krefjast ekki hlutdeildar í aflaverðmæti yfir 20% næstu tvö árin og sé hlutur þessi ætlaður til að greiða vexti og afborganir lána, er ríkisábyrgðasjóður og Byggðasjóður hafa tekið ábyrgð á. Rn. mun semja sérstaklega við Byggðasjóð um mál þetta.“

Hefur hæstv. ráðh. greint ríkisstj. frá þessu bréfi? Hefur þetta verið rætt? Og hvernig stendur á, eins og staðan var öll í þessu máli í gær, að slíkt bréf er gefið út? (SighB: Það kom fram áðan að það hefur ekki verið rætt.) Já, það kom hér fram og ég veit að það var ekki rætt. Það má eigi að síður spyrja ráðherra þessarar spurningar.

En ef Alþingi fellst ekki á þau 10% sem þarna er talað um? Liggur það fyrir að það fallist á þau? Ekki greiði ég því atkvæði. Ég er víst búinn að lýsa hér yfir og rekja að þessar 1500 millj. eru ekki aflögu í þetta skipti. Það þarf nýtt fjármagn að koma til. Því var heitið þegar var gengið frá þessum 1500 millj., að þær yrðu og væru til innlendrar skipasmíði.

Það má spyrja ýmislegs í þessu máli. Er t.d. verið að bregðast útgerðaraðilum með því að hætta við kaupin? Þeir hafa brugðist trúnaði, sleppt því að kaupa ódýran togara, valið dýrari kost og það á eigið eindæmi, hlaðið skipið tækum og útbúnaði og hyggjast breyta skipinu í verksmiðjuskip. Það virðist fyrir löngu gleymt að farið var af stað í þessu máli til að bæta atvinnuástand í landi á Þórshöfn og Raufarhöfn.

Ef Þórshafnarbúar eiga að standa undir þessu er það mín skoðun að það ríði þessum plássum að fullu. Halli togarans á fyrsta ári, þótt ekki sé reiknað með afskriftum, er um 500 millj. gkr. Mætti ekki skoða þann möguleika að opna tímabundin svæði í nágrenni Þórshafnar fyrir báta, eins og ég held að síðast ræðumaður hafi vakið athygli á? Væri ekki gáfulegra að fækka skrapdögum togara, sem fyrir eru, og gefa þeim leyfi til að landa þorski á þeim stöðum sem vantar afla, eins og er á þessum stöðum?

Spyrja má: Getur hvert pláss í landinu sambærilegt þessum fengið á næstu dögum tæpa 4 milljarða úr ríkissjóði, eins og þetta margumrædda skip kostar? Mikil þörf væri víða fyrir marga 4 milljarðana. Er þessi lausn hjálp við þessa staði? Ég segi nei. Ég vil hjálpa þessum stöðum til sjálfsbjargar eftir betri leiðum, það er hlutverk Byggðasjóðs, en ekki að útvega þetta verksmiðjuskip.