19.02.1981
Sameinað þing: 51. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2451 í B-deild Alþingistíðinda. (2613)

Umræður utan dagskrár

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Þau alvarlegu vandamál, sem komu upp í landinu í framhaldi af óveðrinu aðfaranótt þriðjudagsins, hafa þegar verið rædd nokkuð hér á hv. Alþingi á fundum deilda í dag, þannig að það er kannske ekki þörf á því að fara mjög ítarlega út í þessi mál hér. Ég vil þó aðeins leggja á það áherslu, að hér er auðvitað um að ræða ákaflega tilfinnanlegt tjón, sem snertir mjög marga landsmenn með verulegum hætti. Það er alveg ljóst, að þetta tjón er svo margvíslegt og mismunandi að það er útilokað að unnt sé að bæta hverjum og einum skaðann 100%. Hér verður það vafalaust að koma til, að menn taki á sig, auk þeirra óþæginda sem menn hafa orðið fyrir, einhvern hluta af þeim vanda sem hér er um að ræða.

Strax á þriðjudagsmorgun, þegar ég kom á skrifstofu mína núna í vikunni, óskaði ég eftir skýrslum frá viðeigandi aðilum sem þessi mál snerta og eru á vegum minna ráðuneyta.

Það er í fyrsta lagi Bjargráðasjóður Íslands. Stjórn Bjargráðasjóðs kom saman til fundar þennan sama dag og gaf tafarlaust út yfirlýsingu um að fjárhagur sjóðsins leyfði í raun og veru engan stuðning í þessum efnum og að nauðsynlegt væri að gera ráðstafanir til að styrkja sjóðinn sérstaklega ef hann ætti að koma til stuðnings í þessum efnum. Ég er þeirrar skoðunar, að Bjargráðasjóður hafi vafalaust fyrr á árum og áratugum gert mikið gagn, en hins vegar orki mjög tvímælis hvort rétt sé að viðhalda sjóðnum með þeim hætti sem verið hefur á undanförnum árum. Ég tel að það sé ekki vansalaust fyrir stjórnvöld, hver svo sem þau eru, að verða fyrir því aftur og aftur, að þegar tjón koma upp er þessi stofnun, Bjargráðasjóður, það illa á sig komin að hún getur ekki gegnt því hlutverki sem henni er ætlað samkv. lögum landsins. Ég hef hreyft þeirri hugmynd margoft, bæði hér á hv. Alþingi á s.l. vetri og eins í ríkisstj., að það væri eðlilegt að athuga hver af verkefnum Bjargráðasjóðs ættu að flytjast yfir til tryggingakerfisins. Ég tel að það sé nauðsynlegt að þessi mál séu könnuð í botn áður en ákvörðun er tekin um með hvaða hætti framhaldsstarfsemi Bjargráðasjóðs verður háttað.

Eins og menn vita er Bjargráðasjóður sjálfseignarstofnun og er sameign ríkis, sveitarfélaga og Stéttarsambands bænda og þessir aðilar leggja sjóðnum til nokkurt óafturkræft framlag. Hins vegar hefur það farið svo á undanförnum misserum, að þegar sjóðurinn hefur þurft að taka við verulegum verkefnum hefur orðið að veita honum lánsfé eða stuðning samkv. fjárfestingar- og lánsfjáráætlun samkv. afgreiðslu hér á hv. Alþingi, eins og gerðist á s.l. vetri.

Ég aflaði mér upplýsinga um það frá stjórn Bjargráðasjóðs og starfsmanni hans, hvernig fjárhag sjóðsins er háttað og skuldbindingum á næstu árum. Þar kemur fram, að samkv. þeim skuldbindingum, sem þegar liggja fyrir, skortir sjóðinn fé á þessu ári upp á um 70 millj. kr., á árinu 1982 upp á 310 millj. gkr. og á árinu 1983 upp á 450 millj. gkr. 1 öllum tilvikum er auðvitað miðað við það verðlag sem er í dag. Það er þess vegna ljóst, að þessi sjóður er þess allsendis vanmegnugur að taka á þeim verkefnum sem hér er um að ræða.

Varðandi lögin um Viðlagatryggingu Íslands vil ég segja það, að menn hafa auðvitað spurt að undanförnu hvað Viðlagatryggingin geti gert og hvernig standi á því, að hún bætir ekki tjón af þessu tagi. Eins og menn vita hóf Viðlagatrygging Íslands starfsemi sína 1. sept. 1975. Ekkert fjármagn var lagt fram sem stofnfé. Þess vegna varð þessi stofnun að byggja rekstur sinn á iðgjaldatekjum eingöngu. Fyrsta verk stjórnar Viðlagatryggingar Íslands var að afla endurtrygginga fyrir þessar tryggingar svo að hægt yrði að standa við skuldbindingar hennar um að bæta þau tjón er lögin gerðu ráð fyrir, en þau eru samkv. 4. gr. laganna. Í 4. gr. laga um Viðlagatryggingu Íslands er alveg tæmandi upptalning, að talið er, á þeim tjónum sem Viðlagatryggingin á að bæta, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Viðlagatrygging Íslands skal vátryggja gegn beinu tjóni af völdum eftirtalinna náttúruhamfara: eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða og vatnsflóða.“

Fyrstu tjónin, sem komu til kasta Viðlagatryggingar Íslands, urðu í nóv. 1975, er mikið flóð varð vegna sjógangs suðvestanlands, einkum á Eyrarbakka. Í jan. 1976 urðu jarðskjálftar á Kópaskeri og nágrannahéruðum allt til Mývatnssveitar. Urðu þá stærstu tjón sem stofnun þessi hefur orðið að bæta. Síðan 1976 hefur ekki verið um meiri háttar tjón að ræða sem komið hafa til kasta Viðlagatryggingar Íslands. Hefur einkum verið um að ræða afmörkuð einstök tjón af völdum snjóflóða, vatnsflóða og skriðufalla. Staða Viðlagatryggingar Íslands var þannig í árslok 1979, að eigið fé eða hrein eign nam 1.7 milljörðum gkr. Þar af námu verðtryggð spariskírteini 1.2 milljörðum gkr. Talið er að í árslok 1980 hafi eigið fé Viðlagatryggingar Íslands, þ.e. iðgjöld plús verðbætur, numið um 3 milljörðum gkr.

Í álitsgerð, sem ég fékk frá forstjóra Brunabótafélagsins um þessi mál, segir m.a.:

„Það skal undirstrikað, að meginforsenda þess, að Viðlagatrygging Íslands geti staðið við skuldbindingar sínar, er að endurtrygging fáist fyrir meginhluta þeirrar vátryggingarverndar sem stofnuninni er ætlað að veita. Núgildandi endurtryggingarsamningur hljóðar upp á 20 millj. Bandaríkjadollara.

Spurt hefur verið um það,“ segir í þessari álitsgerð, „hvers vegna tjón af völdum storms eða fárviðris hafi ekki verið tekin upp í 4. gr. laganna. Því er til að svara, að um þetta var rætt í nefnd þeirri sem undirbjó frv. að lögum um Viðlagatryggingu Íslands. Niðurstaðan varð sú að taka storm ekki með, m.a. vegna þess að bætur vegna slíkra tjóna var auðvelt að fá tryggingu fyrir hjá tryggingafélögunum. Þar má nefna foktryggingu á húseignum, sem hefur verið til allt frá því 1960, heimilistryggingu, sem innifelur bætur á innbúi vegna slíkra tjóna, og húseigendatryggingu, sem einnig innifelur bætur fyrir þessa tegund tjóna.“

Síðan segir í þessari álitsgerð:

Heilbr.- og trmrh. skipaði 25. maí 1980 nefnd til þess að kanna möguleika á því að „tryggja þjóðina fyrir áföllum af meiri háttar náttúruhamförum“, eins og þetta er orðað í erindisbréfi nefndarmanna. Samkv. lið 1 í bréfinu er nefndinni falin endurskoðun laga um Viðlagatryggingu Íslands, t.d. vegna eigna sem nú falla utan tryggingar. Nefndin hefur fram að þessu lagt megináherslu á öflun gagna um verðmæti meiri háttar mannvirkja, svo sem dreifikerfi, raforku, hitaveitur, vatnsveitur, hafnarmannvirki, brýr og ræktað land. Það er von nefndarmanna,“ segir formaður nefndarinnar, „að geta skilað áliti um þennan þátt fyrir lok marsmánaðar.“

Loks segir í þessu yfirliti frá forstjóra Brunabótafélagsins og formanni þeirrar nefndar sem ég fól að endurskoða lögin um Viðlagatryggingu Íslands:

„Þá er það spurningin um það sem nú er efst í hugum manna: Á að taka tjón af völdum fárviðra inn í 4. gr. laga um Viðlagatryggingu Íslands? Það þarf að sjálfsögðu að íhuga þetta mál vel. Ég nefni hér aðeins þau atriði sem snúa að framkvæmdahlið málsins. Þar er mesta óvissan um það, hvort endurtryggjendur mundu samþykkja að taka þennan þátt inn í endurtryggingarsamning yfirstandandi árs og hvað það mundi kosta aukalega. Hvað þarf að hækka iðgjald Viðlagatryggingar af þessum sökum? Persónulega tel ég,“ segir Ásgeir Ólafsson,“ að aðstæður fyrir því að taka þennan þátt inn í Viðlagatryggingu Íslands séu töluvert breyttar frá því ástandi sem var þegar lögin um Viðlagatryggingu Íslands voru í mótun. Stofnunin var þá félaus, óvissa um endurtryggingarmöguleika og því ekki nema eðlilegt að varfærni væri gætt. Líta verður á hina veiku stöðu Bjargráðasjóðs nú, en hún virðist vera mun veikari en 1974. Á hinn bóginn hefur Viðlagatrygging Íslands styrkst fjárhagslega, þó enn sé hún á hálfgerðum brauðfótum þegar höfð eru í huga þau stóráföll sem geta dunið yfir okkar þjóðfélag af völdum náttúruhamfara.“ — Og af þeim ástæðum að nauðsynlegt er að stofnunin sé betur undir það búin að taka við tjónum sem verða af náttúruhamförum hefur verið sett á laggirnar sú nefnd sem ég vitnaði til hér áðan.

Það hefur einu sinni reynt á það áður, hvort Viðlagatrygging Íslands gæti bætt tjón sem verða af völdum óveðurs. Það var árið 1980, þ.e. á síðasta ári. Arnljótur Björnsson prófessor var beðinn um að meta hvort samkv. lögunum væri unnt að bæta það tjón sem þá varð. Hann sendi Viðlagatryggingu Íslands svar og á því byggist auðvitað sú afstaða sem forráðamenn Viðlagatryggingarinnar hafa orðið að taka nú. Í bréfinu segir:

„Í bréfi Suðureyrarhrepps til Viðlagatryggingar Íslands, dags. 23. mars 1980, er þess farið á leit, að stofnunin greiði bætur fyrir það tjón, er varð hér á Suðureyri þann 25. febr. s.l. af völdum fellibyls, er gekk hér yfir. Í bréfinu er engin lýsing á því hvað það var sem skemmdist.“

Síðan segir prófessor Arnljótur Björnsson:

„Samkv. 4. gr. laga nr. 52/1975, um Viðlagatryggingu Íslands, tekur Viðlagatrygging til tjóns af völdum eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða og vatnsflóða.“

Hér er um tæmandi talningu að ræða og er Viðlagatryggingu Íslands því ekki heimilt að greiða bætur fyrir skemmdir er verða af öðrum orsökum en þeim, sem lagagreinin tekur til.“

Í framhaldi af þessum skýrslum, sem ég hef fengið frá Bjargráðasjóði og Viðlagatryggingu Íslands og ég hef gert hér nokkra grein fyrir, óskaði ég eftir yfirliti frá Tryggingaeftirlitinu í sambandi við tryggingafélögin, starfsemi þeirra, skyldur og skilmála vegna þeirra tjóna sem hér hafa gengið yfir. Tryggingaeftirlitið segir í þeirri skýrslu, sem mér hefur borist varðandi endurskoðun vátryggingarskilmála, sem ég lagði mikla áherslu á:

„Tryggingaeftirlitið vill í tengslum við umræður um þessi mál benda á, að heildarendurskoðun á vátryggingarskilmálum vátryggingarfélaganna fer nú fram hjá eftirlitinu, en eins og kunnugt er eru allir skilmálar háðir samþykki þess. Á undanförnum vikum hafa m.a. skilmálar bifreiðatrygginga verið í endurskoðun og eru breytingar á þeim væntanlegar.“

Ég óskaði eftir því, að Tryggingaeftirlitið, sem á að gæta þess að tryggingastarfsemi sé nægilega traust í landinu, segði álit sitt á því að skylda Viðlagatrygginguna til að taka slík tjón inn á sína dagskrá. Tryggingaeftirlitið hefur svarað mér með bréfi, sem er dags. í dag, og um það mál segir:

„Tryggingaeftirlitið vill geta þess, að þegar frv. um Viðlagatryggingu Íslands lá fyrir Alþingi benti eftirlitið þn. þeirri, er fjallaði um málið, á þá miklu takmörkun á vátryggingarsviðinu sem felst í því að óveðurstjón eru ekki innifalin. Rökin, sem lágu að baki þeirri takmörkun, voru þau, að stofnunin hefði ekki bolmagn til að taka á sig þessa áhættu í byrjun meðan sjóðir stofnunarinnar væru í uppbyggingu. Þá eru vátryggingar Viðlagatryggingar mjög takmarkaðar að því leyti, að einungis brunatryggðar eignir eru vátryggðar gegn náttúruhamförum. Telur Tryggingaeftirlitið brýnt að lögin um Viðlagatryggingu Íslands verði tekin til endurskoðunar.“

Á grundvelli þessara gagna svo og þeirra upplýsinga sem við höfum fengið víðs vegar að af landinu, fjallaði ríkisstj. um þetta mál í morgun og þar var samþykkt tillaga sem ég gerði um afstöðu ríkisstj. og fyrstu skref í þessum efnum. Samþykkt ríkisstj. er á þessa leið:

Ríkisstj. samþykkir að nú þegar fari fram könnun á því tjóni sem varð í ofviðrinu aðfaranótt s.l. þriðjudags. Verði þess farið á leit við sveitarfélögin, að þau taki saman yfirlit yfir tjón í hverju byggðarlagi og komi niðurstöðum á framfæri við Samband ísl. sveitarfélaga og ríkisstj.

Ríkisstj. samþykkir enn fremur að undirbúin verði breyting á lögum um Viðlagatryggingu Íslands, þar sem m.a. verði gert ráð fyrir því, að tryggingin nái til tjóns af völdum fárviðris eftir því sem unnt er. Í þessu sambandi verði einnig endurskoðuð lög um Bjargráðasjóð og athugað á hvern hátt er rétt að skipta verkefnum milli hans og Viðlagatryggingar Íslands. Þess verði óskað sérstaklega við tryggingafélögin, að þau einfaldi skilmála sína þannig að ljósari verði sá réttur og þeir möguleikar sem viðskiptamenn trygginganna hafa.

Þá samþykkir ríkisstj. að við afgreiðslu lánsfjárlaga verði tekið til athugunar að hve miklu leyti þarf að gera ráð fyrir sérstakri lánsfjárheimild til að auðvelda endurbætur mannvirkja er tjónamat liggur fyrir.“

Herra forseti. Ég vænti þess, að þeirri fsp., sem til mín hefur verið beint utan dagskrár, hafi verið svarað. Það er því miður ekki hægt að gefa um þessi mál fyllri upplýsingar á þessu stigi, vegna þess að enginn veit nákvæmlega hversu víðtækt tjónið er, en vonandi tíður ekki langur tími áður en niðurstöður liggja fyrir í þeim efnum þannig að unnt verði að taka ákvörðun um það, með hvaða hætti og að hve miklu leyti menn fá stuðning til þess að koma híbýlum sínum og vinnustöðum í samt lag eftir það fárviðri sem hér gekk yfir í landinu snemma í þessari viku.