19.02.1981
Sameinað þing: 51. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2457 í B-deild Alþingistíðinda. (2615)

Umræður utan dagskrár

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég hygg að ef menn hafa í huga þær umr., sem hafa átt sér stað hér á hinu háa Alþingi undanfarna tvo daga, hljóti nú þm. að leiða hugann að því, hvort ekki sé í alvöru tímabært að þetta þing starfi í einni málstofu, því hér hafa sömu málin í tvo daga í röð verið til umr. í báðum deildum og nú í Sþ.

Það þarf engan að undra þó að það beri hér á góma utan dagskrár, hvernig mætt skuli þeim vanda sem skapast hefur vegna óveðursins sem geisaði hér á mánudagskvöld og aðfaranótt þriðjudags. Það mál hefur þegar verið rætt utan dagskrár í Ed. í dag og þar svaraði hæstv. forsrh. fsp. minni og taldi þar upp þau atriði sem ríkisstj. hafði gert samþykkt um í morgun. Ég fagna þessari samþykkt og tel að þar séu stigin fyrstu skrefin í rétta átt. Hins vegar er ekki tímabært, tel ég, á þessu stigi málsins að ræða þetta mál frekar í smáatriðum. Ég fagna því að þetta skuli hafa verið gert. Það er ljóst að tjónið í þessu fárviðri hefur orðið gífurlegt og sjálfsagt ekki allt enn komið í ljós sem þar hefur skemmst eða eyðilagst.

Ég tek undir þau orð hv. 4. þm. Vestf. áðan, að það er vissulega áhyggjuefni hvernig almannvarnir og Ríkisútvarpið brugðust við þarna um nóttina, þegar hætt var útvarpi og lokað þessu aðalöryggistæki sem tengdi þá saman sem voru að vinna að björgunar- og hjálparstörfum þessa nótt, — að hætt skyldi útvarpi þegar versta veðrið var gengið hér yfir suðvesturhornið. Það er kannske ævinlega auðvelt að vera vitur eftir á, en í ljósi þess, sem síðar gerðist, er alveg ljóst að þetta var röng ákvörðun. Ég mun beita mér fyrir því, að þetta mál verði tekið upp í útvarpsráði og rætt þar svo og nánari samvinna Almannavarnaráðs og Ríkisútvarpsins, sem er sá meginhlekkur í þessari keðju sem ekki má bresta.

Án þess að fara að ræða þetta mál hér efnislega vil ég aðeins ítreka þau ummæli sem við voru höfð í Ed. í dag af hálfu Alþfl., að við erum reiðubúnir til alls samstarfs um fjárútvegun til þessa þegar í ljós er komið hvert umfang tjónsins er og hvernig hagkvæmast og eðlilegast muni komið til móts við þá sem hér hafa orðið fyrir skakkaföllum. Það er líka ástæða til að leggja áherslu á það og óska eftir því við hæstv. forsrh. og hæstv. félmrh., að þessu máli verði hraðað svo sem kostur er.

Varðandi ræðu hv. 1. þm. Vesturl. áðan vil ég aðeins segja að það kemur mér ekki á óvart að garðyrkjubændur í Borgarfjarðarhéraði skuli hafa óskað eftir fundi með þm. kjördæmisins. Þeirra tjón er mikið og þeirra vandi er mikill. Hins vegar verð ég að lýsa þeirra skoðun, að það kemur mér nokkuð á óvart að til þessa fundar skuli vera boðað úr ræðustól á Alþingi. Er það nokkur nýlunda og mér finnst þau vinnubrögð hreint ekki til fyrirmyndar.

Ég tel sem sagt, að ríkisstj. hafi stigið hér fyrstu skrefin í rétta átt, og fagna því, án þess að ástæða sé á þessu stigi til þess að hafa fleiri orð hér um að sinni.