19.02.1981
Sameinað þing: 51. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2458 í B-deild Alþingistíðinda. (2617)

Umræður utan dagskrár

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þær góðu undirtektir sem þessi mál hafa fengið hér í umr. Þegar svona mál koma upp í landi okkar gerist það oft, að menn eru reiðubúnir til að snúa bökum saman og vinna í sameiningu að þeim verkefnum sem leysa þarf.

Að sjálfsögðu stendur það ekki til, að þær athuganir, sem ég greindi frá áðan og hafa verið í gangi eina 10 mánuði, verði til að tefja þetta mál út af fyrir sig. Það er ekki meiningin að bíða eftir niðurstöðum og endurskoðun tryggingakerfisins í heild. Það hefur mér auðvitað aldrei dottið í hug. Það er miklu meira mál en svo. Sú endurskoðun á viðlagatryggingalögunum, sem ég hef verið með í gangi er geysilega flókin vegna þess að hún er fyrst og fremst um hvort unnt sé að tryggja þjóðina fyrir áföllum á meiri háttar mannvirkjum, eins og t.d. raflínum, virkjunarmannvirkjum og því um líku. Þessi könnun er í gangi. Þetta er mjög flókið verk, og menn hafa talið að þetta væri allt of dýrt til að það væri nokkur leið að ráðast í það. En mér finnst að jafnvel þó að svona tryggingar geti verið dýrar á líðandi stund höfum við skyldu til að sýna lágmarksfyrirhyggju í þessum efnum og að kanna a.m.k. í botn hvort þetta er yfirleitt framkvæmanlegt. Það hefur ekki verið gert áður hér á landi.

Ég vil þakka fyrir undirtektir talsmanns Alþfl., hv. 5. þm. Vesturl., um að Alþfl. sé reiðubúinn að taka þátt í að stuðla að fjáröflun í þessu skyni þegar mat liggur fyrir. Þá er ég auðvitað ekki að tala um að mat þurfi að liggja fyrir í smáatriðum, að það þurfi að meta svo að segja hverja einstaka rúðu í þessum efnum, heldur þurfi matið að liggja fyrir í grófum dráttum, hver sá rammi er sem þarna þyrfti að fylla út í. Ég segi alveg eins og er, að ég treysti mér ekki til að slá því föstu, að þessi tala sé 3000 millj. gkr., á þessu stigi málsins, enda finnst mér ekki liggja á því af því að ég er viss um að Alþingi er reiðubúið að afgreiða þetta mál hratt þegar það á annað borð liggur fyrir nokkurn veginn hversu mikill þessi vandi er. Ég treysti mér því ekki til að nefna tölur í þessum efnum. Mér finnst að það sé í raun og veru alveg útilokað. Stjórn Bjargráðasjóðs lét það frá sér fara, að þetta tjón kostaði milljarða. Það er ekki nokkur vafi á að það hleypur á milljörðum gkr., en eitthvað af þessu tjóni verður bætt af tryggingafélögunum, eitthvað af því greitt, en ég treysti mér ekki til að meta hvaða tala ætti að vera þarna inni á þessu stigi, enda finnst mér að það liggi í sjálfu sér ekki á því að gera það mína.

Ég undirstrika að lokum að sú samþykkt, sem ríkisstj. gerir í þessum efnum, er í þessum þáttum:

Það er í fyrsta lagi að fram fari könnun, hún verði á vegum sveitarfélaganna og niðurstöðum verði komið á framfæri við Samband ísl. sveitarfélaga og ríkisstj. Þetta er númer eitt.

Í öðru lagi hefur ríkisstj. samþykkt að breyta lögum um Viðlagatryggingu Íslands þannig að þau nái einnig til tjóna sem verða af fárviðri. Í tengslum við það hefur ríkisstj. samþykkt að endurskoða lögin um Bjargráðasjóð. En auðvitað er það þannig, að ef hér yrði um að ræða fjárhagslegar stuðningsaðgerðir geta þær að sjálfsögðu ekki verið á vegum Viðlagatryggingar Íslands. Það er alveg ljóst. Bjargráðasjóður hefur þarna vissa farvegi að fara eftir og kannske heppilegra að nota þann farveg, en hugsanlegt er að það þurfi að nota þarna einhverja aðra farvegi vegna þess að hér er líka um að ræða tjón sem Bjargráðasjóður hefur í raun og veru ekki fengist við. Hann hefur ekki fengist við hliðstæð tjón í öllum tilvikum, því að tjónin, sem urðu í fárviðrinu núna á dögunum, eru afskaplega mismunandi. Þetta var annar þátturinn í samþykkt ríkisstj.

Þriðji þátturinn er svo um endurskoðun tryggingarskilmálanna.

Fjórði þátturinn er svo um það, að ríkisstj. samþykkir að við afgreiðslu lánsfjárlaga verði tekið til athugunar að hve miklu leyti þarf að gera ráð fyrir sérstakri lánsfjárheimild til að auðvelda endurbætur mannvirkja ef tjónamat liggur fyrir.

Mér fannst eiginlega ekki hægt á þessu stigi málsins að orða þetta öllu nákvæmar en hér er gert, en hér er um að ræða afdráttarlausa viljayfirlýsingu ríkisstj., og það hefur komið fram góður stuðningur við þau sjónarmið í þessum umr.