03.11.1980
Neðri deild: 9. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í B-deild Alþingistíðinda. (262)

17. mál, olíugjald til fiskiskipa

Frsm. minni hl. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Vestf. hefur nú farið býsna vítt yfir sviðið og varla ástæða til þess að allir þeir, sem eiga eftir að tala í málinu, eyði jafnlöngum tíma til að fjalla um olíugjaldið. Og kannske er ástæðulaust fyrir aðra, sem eru verr að sér en hv. þm., eins og flestir hinir eru, að fjalla um efnahagsmálin.

Aldrei fór það svo, að hv. þm. endaði ekki á því að vera sammála mér og mínu nál. því að hv. 1. þm. Vestf. sagði rétt í þessu: Olíugjaldið er aðeins lítill hluti þess sem þarf að gera í þjóðfélaginu. — Það er einmitt það sem stendur í nál. frá minni hl. sjútvn.

Sjútvn. þessarar hv. d. hefur fjallað um þetta mál á venjulegan og eðlilegan hátt á þremur fundum sínum. Stjórnarandstæðingar í Sjálfstfl. og Alþfl. voru býsna byssulegir fyrst þegar við fórum að ræða málið, heimtuðu þennan á fund og umsögn annarra, og það var orðið strax við öllum þeirra kröfum og ekkert ýtt á eftir því, að málinu væri flýtt, enda kom í ljós að þessir ágætu menn í þessum flokkum unnu að því dyggilega að málið fengi eðlilega afgreiðslu. Eins og fyrri daginn var hið besta samstarf við þessa menn, enda vita þeir að þarna er alvörumál á ferðinni, jafnvel þó þeir haldi uppi dálítilli leiksýningu hér í sölum hv. deildar. Það verður eitthvað að heyrast í þessum mönnum og þarna var aðeins hálmstrá til að hengja sig í og sjálfsagt mál að þeir noti tækifærið til þess að hamast á ríkisstj. Stjórnarandstaðan er þó einu sinni stjórnarandstaða.

Við fengum á okkar fund, eins og hv. 1. þm. Vestf. hefur raunar sagt frá, aðila, sem málið varðaði, frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, og við óskuðum einnig eftir því að fá menn frá Alþýðusambandi Íslands, en það sá ekki ástæðu til þess að senda mann á fundinn. Við óskuðum einnig eftir að þing Sjómannasambands Íslands léti okkur í té umsögn um málið, og hún fékkst. Hún var neikvæð sem vænta mátti. Við vissum um þá afstöðu, enda hafa sjómenn ævinlega verið á móti því að beita þeirri aðferð að taka eitthvað af því verði, sem fiskvinnslan greiðir fyrir fiskinn, í annað en til skipta. Það er gömul saga og enginn undrandi á því, jafnvel þótt fulltrúar sjómanna hafi í þau skipti sem áður hefur verið fjallað um olíugjald látið sig hafa það að greiða ýmist atkv. með því eða sitja hjá. Það rek ég hér á eftir.

Ég held að rétt sé að segja það strax, áður en ég fer að rekja nokkur þeirra atriða sem fram komu í ræðu hv. 1. þm. Vestf., að þetta mál ætti ekki að koma þeim örfáu alþm., sem láta sig sjávarútvegsmál skipta, neitt á óvart því þetta er í sjöunda skipti sem um olíugjaldið er fjallað. Fyrst var lagt á olíugjald í mars í fyrra og þá var það sett 2.5%. Í annað sinn kom málið fyrir í maí, en þá var olíugjaldið hækkað í 7%. Fyrst þegar olíugjaldið var sett á voru allir aðilar sammála og gefið var út sameiginlegt nál. 1. mars 1979 hér í Alþ. frá hv. sjútvn. Nd., þar sem allir skrifuðu undir. Þá vorum við saman í byrjun málsins, við hv. þm. Matthías Bjarnason, eins og við urðum sammála um lokaorð hans áðan, og fer vel á því.

Það sást brátt að þetta olíugjald mundi ekki duga og var það þá hækkað með brbl. 11. júní 1979 upp í 7%. Önnur brbl. fylgdu einum og hálfum mánuði síðar, voru gefin út 20. júlí 1979, og þá var olíugjaldið hækkað um 8% eða upp í 15%. Þá voru að vísu 3% af því tekin til skipta einnig þannig að olíugjald utan skipta var 12%.

Þegar litið er yfir meðferð þessara brbl., sem gefin voru út af Alþfl., sem nú mótmælir þessari hækkun í 7.5%, kemur í ljós að þessi brbl. voru gefin út af sjútvrh. fyrrv. stjórnar, Kjartani Jóhannssyni. Það vill svo til að það er nýkjörinn formaður Alþfl. með „bravör“ sem gaf út þessi brbl., en nú hefur flokksbróðir hans, hv. þm. Karvel Pálmason, snúist gegn því sem Kjartan gerði þá.

Það má segja einnig um afstöðu hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar, að hún hefur ekki allan tímann verið sú sem hann var að lýsa í ræðunni áðan. Það er eitthvað annað. Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur með það, hver sú afstaða hefur verið, því að afstaða hans er prentuð hér á fjöldamörgum blöðum, ýmist með eða móti olíugjaldinu, þar sem hann tínir fram fjölda röksemda fyrir því að olíugjaldið þurfi að leggja á. Sannleikurinn er sá, að nennti maður ekki sjálfur að tína fram röksemdirnar með því að hækka olíugjald nú í 7.5% úr 2.5% þyrfti ekki annað en leita til röksemda hæstv. sjútvrh. frá því í apríl til þess að mæla á móti og finna síðan röksemdir hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar frá því í apríl til þess að mæla með hækkuninni. Þannig geta menn nú snúist. (Gripið fram í.) Hérna eru pappírarnir, Matthías.

Nál. frá þáv. minni hl. sjútvn. var gefið út 19. des. 1979 vegna brbl. Það undirskrifa Matthías Bjarnason, Halldór Blöndal og Pétur Sigurðsson, allir hv. þm. að sjálfsögðu. (Gripið fram í: Geta aðrir skrifað undir.) Líklega ekki, en þeir geta það greinilega, enda var ég að nefna það. Ég var aðeins að sinna formsatriðum, hv. þm. (Forseti hringir.) Óskapa hávaði er þetta þegar ég þurfti að nefna það að þessir þm. væru allir háttvirtir. Þess er krafist. Það er krafist hins ólíklegasta. En í nál. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Við undirritaðir nefndarmenn erum samþykkir því, að útgerðinni sé greitt sérstakt olíugjald til þess að greiða niður hluta af þeirri gífurlegu hækkun sem orðið hefur á útgerðarkostnaði vegna hækkunar olíu.“

Hefur ástandið batnað? Nei, það hefur ekki batnað. Þarna kemur fram hin raunverulega skoðun hv. þm., en ég er ekkert að ergja mig út af því þó að hann hafi snúist dálítið á móti ríkisstj. núna. Það er eðlilegt. Kannske eru fleiri að snúast í þá áttina. — Þeir enda þetta nál. á því að segja: „munum við ekki greiða atkv. gegn því.“

Svona mætti auðvitað lengi telja. Þarna er nál. frá Sjálfstfl. við afgreiðslu þessa máls úr hinni deildinni. Ég hirði ekki um að lesa mikið af því í viðbót.

Málið er sem sagt að koma fyrir núna í sjöunda sinn. Á þessu tímabili hefur olíuverðið hækkað úr 49.75 á lítrann í 210.05 kr. á lítrann og svartolía úr 32.500 kr. tonnið í 128.100 kr tonnið. Verðið hefur liðlega fjórfaldast á tímabilinu. Þess vegna var ærin ástæða til að grípa þetta ráð.

Þetta olíugjald er óheppilegt á ýmsa lund og hef ég margoft sagt það, bæði nú og fyrr við meðferð þessara mála. Það er þannig, að aðstaða er ákaflega misjöfn til útgerðar eftir því hvar er, á hvernig veiðarfæri veitt er, á hvernig skipastærðir o.s.frv. Sumir þurfa jafnvel ekki að greiða neina peninga aðra í olíu en þá sem þeir fá í olíugjald, — einkum þegar prósentan var hæst, þá sluppu menn jafnvel með það, — en aðrir þurfa eftir sem áður og þrátt fyrir olíugjaldið og þurftu meira að segja meðan það var hæst að greiða gífurlegt fé. Ég segi það sem mína skoðun, að meðan ekki er búið að finna aðra aðferð og betri, sem er laus við stórkostlega vankanta og hvetur ekki til olíueyðslu, verðum við að hafa þetta kerfi, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Það er ábyrgðarlaust af þeim sem segja og hafa sagt að við eigum að fella olíugjaldið niður. Þar á meðal sögðu ýmsir félagar mínir í fyrrahaust: Við viljum leggja olíugjaldið niður. — Það vildi ég gjarnan gera líka ef menn gætu bent á aðra leið. Það er ekki hægt að segja: Við fellum niður olíugjaldið og gerum ekkert annað, — Sjómenn fá lítinn hlut úr afla skipa sem ekki geta farið á sjó.

Svo er sú aðferð notuð núna að reyna að nudda okkur sem viljum halda þessu gjaldi, — þó vitlaust sé og raunar vont er það betra en að ekkert komi í staðinn, — að nudda okkur upp úr því, að við séum sérstakir óvinir sjómanna. Þetta er auðvitað bara hálmstrá sem gripið er til. Ég nenni ekki að ansa því, satt að segja. Ég hef verið sjómaður sjálfur í fjöldamörg ár og var það meira að segja í sumar og fiskaði vel, sem betur fór. Allt slíkt hjal er hreinlega út í hött.

Ég vil aðeins víkja að fleiri orðum þessara hv. þm. sem nú hatast mest gegn þessu olíugjaldi því að þau er býsna víða að finna. Ekki er síst að finna hér alls kyns ummæli margra þessara manna hingað og þangað í hinum og þessum Alþingistíðindaheftum og eru í miklu fleiri bókum en þessum. (HBI: Hvaða manna?) Þeirra manna sem hamast núna mest gegn olíugjaldinu, m.a. hv. þm. Halldórs Blöndals sem greip raunar oftast tækifærið til að tala um annað þegar hann stóð upp í þessu máli. — En hérna er sem sagt heilmikil lesning sem hljómar allt öðruvísi og mælir með þveröfugri lausn af hálfu hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar, sem talaði áðan í tvo klukkutíma. Þetta er allt skjalfest og prentað í Alþingistíðindum og enginn efast um að þetta er rétt.

Það er forvitnilegt að skoða þessi nefndarálit. Þau eru yfirleitt stutt og þess vegna eru setningarnar svo afdráttarlausar og skýrar að það veður enginn í villu um hvað orðin þýða. Það er ekki verið að skafa utan af því, eins og þeir segja fyrir vestan, í nál. frá þeim félögum í íhaldstríóinu mínu í n., hv. þm. Matthíasi, Pétri og Halldóri. Þeir tala þar hvað eftir annað um svik, að ríkisstj. sé að svíkja og svíkja og svíkja. Það er meira að segja efast um lögmæti þeirrar aðgerðar þegar breytt var olíugjaldinu úr 5% í 2,5% í apríl, sem samþ. var hins vegar í janúar það sama ár, því að í fyrri lögunum stóð að þessi lög skyldu gilda út árið 1980. Það var Matthías, svo glöggur maður og harðskeyttur hér í ræðustól, sem hentist á þennan punkt og heimtaði lögskýringu fróðustu manna og m.a. vinar síns Gunnars Thoroddsens, hæstv. forsrh., sem var lögfræðiprófessor. Þar eru setningar eins og t.d. þetta: „Með þessu frv“... (Forseti: Það þarf leyfi mitt til þess að lesa upp prentað mál.) Það er það. Má sækja um leyfi fyrir þessum pappírum öllum í einu, hæstv. forseti, svo að ég þurfi ekki að vera að biðja um leyfi hvert sinn því að ég á eftir að gera það samtals í 11 skipti a.m.k.? Ef ég fæ leyfi hæstv. forseta til að lesa úr þessum nál. geri ég það. (Forseti: Það er veitt.) Örfá orð:

„Með þessu frv. er verið að kippa grundvellinum undan rekstri útgerðar, sem við teljum vítavert.“ Það er ekkert annað!

En hvað er verið að gera núna með till. hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar? Auðvitað það sama og miklu meira, vegna þess að þarna munar miklu. Það voru m.a. röksemdir fulltrúa sjómanna, sem er glöggur maður og ákveðinn og hefur verið að vinna í þessum málum í fjöldamörg ár, að samkv. áætlun frá Efnahagsstofnuninni um afkomu útgerðar í okt. 1980 stæði sú tala betur nú en áður. En þegar farið er að athuga hvernig sú góða tala er komin, þó neikvæð sé, með útkomu útgerðar að meðaltali, að vísu undanskildir loðnubátar, er búið að taka inn í dæmið þetta ný ja olíugjald sem er hvorki meira né minna en um 7 milljarðar til útgerðarinnar í olíugjald, — þá er búið að reikna með því. Samt er neikvæð útkoma. Þar á ofan bætist að allar tölur Efnahagsstofnunarinnar, heitir hún ekki það annars? — (Gripið fram í.) — Efnahagsstofnunarinnar í Falshúsinu eru í rauninni falsaðar einmitt vegna þess að þar er ekki reiknaður eðlilegur vaxtakostnaður. Hann er langt innan við helming í þeim útreikningum, miðað við það sem hann er í raun og veru. Þar munar mest um vanskilaskuldir útgerðarinnar í landinu. Aðeins á tveimur póstum, þótt við teljum ekki lengra, eru um 20 þús. millj. á herðum útgerðarinnar í vanskilavöxtum, sem eru um 4.7% á mánuði eða milli 50 og 60% á ári. En stofnunin reiknar aðeins með eitthvað rúmum 20% vöxtum að meðaltali. Það er einmitt þessi atvinnuvegur sem þolir alls ekki efnahagskreppuna í landinu, þessa verðbólgu, þetta gengissig, þessi gengistöp stanslaust. Það kemur verst niður á útgerðinni og þess vegna er ekki að furða þótt ástandið sé eins slæmt í þessum efnum og hv. 1. þm. Vestf. var að lýsa í kvöld ágætlega. En það er ekki einhverjum einstökum ráðh. að kenna og það er ekki honum sem ráðh. í fyrri ríkisstj. að þakka. Það er misskilningur.

Auðvitað er ástandið í þessum efnum verra núna varðandi kostnaðarþætti útgerðarinnar en nokkru sinni fyrr. Það er vegna þess að þetta er fyrsta árið sem þessum gífurlegu okurvöxtum er beitt. Þarna kemur það í ljós, sem búið var að segja, hvernig slíkir vextir mundu verka. Þeir eru bókstaflega að drepa þennan atvinnurekstur niður.

Herra forseti. Ég held að það sé óþarfi að eyða tíma í að lesa upp öll þessi plögg sem ég nefndi áðan, 11, en ég vil þó nefna það, vegna þess að ég vitnaði í þann ágæta mann, Ingólf Ingólfsson, sem stendur fast á kröfu sinna manna af eðlilegum ástæðum, að það gera fleiri í þjóðfélaginu og ganga miklu lengra þótt engin efni séu til þess að bæta úr því eins og ástandið er. Það segir einmitt við afgreiðstu þessa máls í febrúar, að fulltrúi sjómanna gerði ekki kröfu um lækkun olíugjalds umfram það sem samkomulag var gert um.

Í ræðu hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar er hægt að leita mjög víða fanga til að styðja það, að við samþykkjum olíugjald upp á 7.5%. Það var ég einmitt að segja þegar hv. þm. þurfti að bregða sér frá. En ég vil aðeins nefna örfá atriði frá því í apríl. Þar segir hv. þm. Matthías Bjarnason m.a., með leyfi hæstv. forseta, — já, það verður að vera þannig að ég lesi þetta svona, hv. þm., af því að ég gleymdi gleraugunum mínum heima. (HBI: Hvar eru gleraugun hans Lúðvíks?) Þar segir hv. þm. Matthías Bjarnason þetta að lokum:

„Ég tel ekkert réttlæta það að svíkja þetta loforð,“ — þ.e. um að halda þessu olíugjaldi út allt árið, — „sem alþm. gáfu með shlj. atkv. hér á Alþ. nema ef olíuverð lækkaði hér heima. En þó að viðmiðunarverð á Rotterdammarkaði lækki hefur það ekki lækkað hér heima, það hefur ekki létt á útgerðarkostnaði hér á Íslandi. Meðan svo er, þá eru það svik að hverfa frá því sem samþykkt var hér í janúar í vetur.“

Það er varla hægt að kveða skýrar að orði en hv. 1. þm. Vestf. gerir í þessari ræðu, enda maðurinn afburða málsnjall eins og við höfum heyrt undanfarna klukkutíma. Það þarf í rauninni ekki að segja meira. Við hv. þm. Matthías Bjarnason erum sammála, og ég verð ekki ánægður fyrr en hann viðurkennir það. Þarna sjáið þið svart á hvítu hvað maðurinn er að fara. Það var rétt sem hann sagði, að jafnvel þótt skráning á olíunni í Rotterdam færi einhvern dag niður á við þurfum við ekki að hlaupa til hérna með allt niður um okkur og fara að lækka olíugjaldið og hækka það svo næst eftir hálfan mánuð þegar það fer upp í Rotterdam. Hvernig haldið þið að það væri hér á hv. Alþ. ef við færum eftir Rotterdammarkaðinum? Það eru dagprísar. Við værum ýmist að samþykkja snuðið upp í Kristján þennan daginn og upp í Ingólf hinn daginn. Þetta eru engin vinnubrögð og ég verð að finna að því. Mér finnst þetta vera hringl í hæstv. ríkisstj. Þetta eru fálmkennd vinnubrögð. Það var ekki nokkur einasta leið að sjá að ástandið í olíuverði væri nokkuð á réttri leið í sumar eða í vor þegar þessu var breytt, enda var ég andvígur því, þó að ég léti dragast til þess að skrifa undir nál, en neitaði hins vegar að mæla fyrir nál. Það gerði bóndi að norðan, og það er út af fyrir sig afsakanlegt.

Ég lýsti því áðan, að við teljum allir vera galla á þessu formi. Það segir líka hæstv. sjútvrh. hér í ræðu, tekur ákaflega stórt upp í sig um hvað þetta sé ómögulegt gjald með þessu lagi. En mér dettur ekki í hug að vera að hneykslast á því þó hann hafi sagt þetta, því það er auðséð þeim sem hafa sett sig inn í málin, en þá var hæstv. ráðh. einmitt nýbúinn að setja sig inn í þau. Það er svo auðséð. — Ég er ekkert að skamma manninn fyrir það, enda er ég ekki kominn hingað til að skamma einn eða neinn og allra síst auðvitað okkar menn, svo að Ragnar getur verið rólegur þarna.

En svona er þetta, að hv. þm. hafa vissulega allan tímann, hvort sem þeir hafa viljað standa að hækkun eða ekki, allir séð gallana við þetta og þá sé ég líka. En ég hef sagt mínum mönnum það a. m. k., — þó að þeir hafi auðvitað ekki spurt mig, þeir eru ekki vanir því, — að ég sjái ekki lausnina á þessu. Ég get ekki fundið hið gallalausa form, enda verður það ævinlega erfitt í þessum útvegi, sem er misjafn og breytilegur og miðaður við fjölbreytilegar aðstæður á alla lund og of lengi upp að telja raunar. Ein regla af þessu tagi, einhver prósenturegla, fær aldrei staðist svo að við getum ekki fundið í henni stórfellda mismunun.

Það eru auðvitað margir fleiri hv. íhaldsmenn eða sjálfstæðismenn úr ýmsum örmum þess flokks sem hafa látið í sér heyra í þessu máli, og þegar allt er saman tekið, jafnvel þó hin langa ræða hv. 1. þm. Vestf. væri tekin með, tel ég að glöggt sé að langmestur hluti þess, sem af munni þeirra sjálfstæðismanna hefur hrotið í þessu máli, hallast á mína sveif: að það sé illskárra að hafa þetta olíugjald en ekkert vegna þess að útgerðin þoli ekki olíuverð á þriðja hundrað þús. kr. tonnið.

Það er, eins og allir sjá, erfitt að gera út togbát á skrapfiskirí, sem þarf að fiska heilt tonn af góðfiski til að geta borgað eitt tonn af olíu, — heilt tonn af góðfiski til að borga eitt tonn af olíu! Það þarf að vera drjúgt fiskirí yfir sólarhringinn til að vinna aðeins fyrir olíunni og eiga eftir að borga meira en helminginn í mannakaup og allan annan kostnað, vaxtakostnað, eins og hann er nú þokkalegur. Það er bókstaflega ekki hægt að hugsa það dæmi, hvað þá að reikna það út. Einhver aðstoð verður að koma til þess að hægt sé að stunda þennan atvinnurekstur.

Því miður er hér, ég ætti kannske að segja: sem betur fer, enginn Alþfl.-maður, en ég segi að þessu sinni: því miður er hv. þm. Karvel Pálmason forsetaframbjóðandi til ASÍ ekki viðstaddur og ég sakna hans vegna þess að hann skrifaði umhugsunarlítið upp á nál. meiri hl. í nefndinni. Ég harma það, vegna þess að skoðun þeirra Alþfl.-manna kemur einnig skýrt og afdráttarlaust fram þegar litið er til þingtíðinda og þá er sama hvort farið er aftur fyrir s.l. áramót eða síðar, en þá var um allt annað og veigameira olíugjald að ræða en nú er.

Ég er hér með umr. af hálfu Alþfl.-manna varðandi olíugjald þegar það er 12%, og ég er hér með orð eftir þessum mönnum frá því það var 7% og 9%. — Það var auðvitað óguðlega hátt og raunar allt of hátt vegna þess mismunar, sem er á olíuþörf fiskiskipa, að fara með þetta yfir 10%, kannske upp í 15%. Þá er þetta orðið mjög stór hluti. Mörg veiðiskip þurfa ekki að kaupa olíu fyrir 15% af heildaraflanum. T.d. mundu loðnuskipin fiska í ár fyrir um 600 millj. ef einhvern afla væri að hafa, eins og þetta skip sem ég var á í sumar, það fiskar kannske fyrir 600–700 millj. í ár. Ef það væri 15% olíugjald fengjust 90 millj. (Gripið fram í.) En það er sama, ég efast um að þeir eyði neitt nálægt svo mikilli olíu, þannig að þegar prósentan er kominn upp í þær hæðir fer þetta auðvitað að verða of bjagað. En þegar það er þó tuttugasti partur eða tólfti til þrettándi partur eins og þarna, þá er kannske fyrir sig að una við það þó að kerfið sé ekki gott. — En ég sé í umr. frá 20. des. í fyrra, að þá er verið að fjalla um býsna hátt olíugjald, eins og menn muna, og þá skiptist n. einnig í meiri og minni hl. Það vildi svo til að ég var þá í meiri hl., enda hafði stjórnin þá meiri hl. í n., en ekki stjórnarandstaðan. (Gripið fram í: Var það kratastjórn?) Það var það. (Gripið fram í.) Ætli það ekki. Ekki tilheyrðum við henni, var það? (Gripið fram í.) Guðmundur, já. Jæja, einhver stjórn var þá ekki góð. En þar skiluðum við sitt hvoru nál. og fulltrúi raunsæisins, Garðar Sigurðsson, mælti með því að menn reyndu að hengslast til að samþykkja þetta þó að vont væri. En þar skrifar hv. þm. Matthías Bjarnason sérnál. vegna þess að hann hafði ágreining, en ekki um olíugjaldið. Það var um verðuppbætur á aðrar fisktegundir en þorsk, þar sem hann vildi bæta grárri lúðu inn með aflanum af ufsa og karfa í þeim efnum. Hv. þm. Matthías Bjarnason segir þá: „Það má segja að ágreiningur sé í sjálfu sér ekki um 1. gr. frv., um sjálft olíugjaldið.“ Þetta er maðurinn sem getur varla staðið hér í stólnum fyrir hamagangi út af 7.5% olíugjaldinu, 5% hækkun. (GJG: Hvað sagði Karvel þá?) Karvel? Ja, ég get kannske leitað að því, hv. þm., hvort hann hafi ekki sagt eitthvað, en ég treysti mér ekki til þess að hafa það eftir jafnhátt og hann er vanur. Hann segir:

„En ég er sem sagt á því, að þarna hafi ekki verið valin rétta leiðin til þess að mæta þessum skakkaföllum og það þurfti gaumgæfilega að íhuga breytingu á meðferð þessa máls ef gjaldinu verður áfram haldið, sem ég hygg að menn séu almennt sammála um að óbreyttu ástandi.“

Það er það. Hins vegar er hann á móti þessu olíugjaldi vegna þess að hann er sem fulltrúi sjómanna á móti notkun þessa gjalds, að fara svona inn í skiptin, en samþykkir þó að eins og ástandið sé verði ekki undan því vikist að hafa olíugjald í einhverju formi. Hann samþykkir það, enda gera það allir skynsamir menn og einnig hv. þm. Matthías Bjarnason. — Það eru einkennilegar tilvitnanir sem hægt er að draga fram eftir hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni þar sem hann kveður svo sterkt að orði að ég get varla haft það eftir.

Ég verð að segja að við hv. þm. Matthías Bjarnason erum býsna sammála um ýmis mál sem hann tók hér til meðferðar. Við höfum báðir miklar áhyggjur af undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar ef svo heldur lengi áfram í því efnahagsöngþveiti sem nú ríður yfir landið. Ég sé enga ástæðu til að reyna að sætta sig við að halda verðbólgustiginu, eins og sumir gera, í núverandi marki og vera tiltölulega ánægður með að það skuli ekki hækka, vegna þess að það hækkar svo mikið úti. Við erum komnir upp fyrir það mark sem hægt er að una við, talsvert langt upp fyrir það mark. Og ég held að það sé út af fyrir sig ekki aðalmálið. hvað duglegir ungir menn sitja í ráðherrastólum eða gamlir, það fer kannske ekki eftir því, og sé ég ekki að þeir séu mjög efnilegir til þess að halda þétt saman um eina eða neina stefnu sem utan stjórnarinnar standa. Það sjáum við ef við lítum í kringum okkur og þýðir ekkert að neita því. Og ekki er líklegt að slíku liði, margklofnu í allar áttir og sprungnu, takist eitthvað betur að eiga við þessa hluti en þeim kynni að takast sem nú sitja ef þeir reyndu það.

Það er auðvitað rangt, sem menn eru að segja hérna til þess að reyna að gera sinn málstað góðan og andstæðinganna vondan, að verið sé að velta þessum olíuvanda yfir á sjómenn. Það er auðvitað ekki rétt, og að þeir fái og hafi miklu minni tekjur en aðrir í þjóðfélaginu. Það er hins vegar rétt, að það þarf meira að fiska núna en áður til að ná tryggingunni. En sjómenn hafa haft á þessu ári meiri tekjur og meiri tekjuauka milli ára en aðrar vinnandi stéttir. Um það eru til opinberar skýrslur, eins og þar stendur, og úr gagnmerku blaði get ég lesið þessar tölur, ef ég fæ leyfi hæstv. forseta til þess. Það er sjálft Morgunblaðið og hittist svo á, að í þessu eintaki er einmitt mjög margt merkra greina eftir ýmsa ágæta menn, eins og Lárus Jónsson o.fl.

Hér eru töflur sem segja hverjar tekjur eru hjá kvæntum sjómönnum, iðnaðarmönnum og verkamönnum frá 1974–1980 og breytingar fiskverðs og kauptaxta 1974–1980 o.s.frv. En þegar við lítum á tekjurnar er hægt að segja það, ef við tökum áætlun 1980, að sjómenn hafi, með leyfi forseta, 12.86 millj., verkamenn 8.43 millj., iðnaðarmenn 9.41 millj. — Og þetta er sjálft Morgunblaðið, Halldór Blöndal. (HBI: Ekki lýgur Mogginn.) Ég hef raunar ekki athugað hvaðan þessar tölur eru, en svona er það. Þeir hafa haft nokkuð mikla hækkun á milli ára. Það er ekki vegna þess að hlutfallið milli launa og fiskverðs sé sjómönnum í hag. Þar sígur á ógæfuhlið. Þar segir hv. þm. Matthías Bjarnson satt. Það, sem gerir að sjómenn hafa haft hærri tekjur í raun, er að það hefur fiskast meira.

Við vitum báðir, við hv. þm. Matthías Bjarnason, hvað það er sem er að gera þessum atvinnuvegi svona erfitt fyrir. Við þurfum ekkert að vera að rífast um það hér. Ástandið hefur í þeim efnum aldrei verið verra en nú og auðvitað fjarstæða einnig að kenna einhverri sérstakri ríkisstj. um það. Það er út í hött. Og það er ekkert annað en stráksskapur að vera að nudda mönnum upp úr því eða koma með spurningar eitthvað á þá leið, hvort þetta sé aðferð til þess að bæta samkomulagið milli sjómanna og útgerðarmanna o.s.frv. Aðalspurningin er þessi: Þegar fiskverðið var hækkað til sjómanna núna til skipta um 8% var það þá nægileg hækkun til handa sjómönnum miðað við það sem aðrir höfðu fengið? Ég veit ekki nákvæmlega hvernig það er með aðrar stéttir, hvað þær hafa fengið í kauphækkun á þessu tímabili, en ef aðrar stéttir fá talsverða hækkun í kaupi í krónutölu núna 1. des., en sjómenn ekki neitt, þá er auðvitað verið að hafa þarna af sjómönnum, að vísu tiltölulega lítið miðað við ár, ef það er gert í des. vegna þess að þá eru sjómenn meira í landi en nokkurn annan mánuð ársins, og þá er líka það verðtímabil búið og rennur út um áramót. Sá mismunur vegur því ekki þungt ef miðað er við heilt ár. En það er auðvitað aldeilis út í hött að halda því fram, að allur þessi vandi sé lagður á herðar sjómanna. Þeir fá þarna að ýmissa mati hæfilega hækkun á fiskverði, um 8%. Ég skal ekki leggja dóm á það. Kannske hefði það átt að vera eitthvað heldur meira. En það er fiskvinnslan sem tekur að sér að greiða 7.5% í viðbót, þ.e. 6–7 milljarða kr. til útgerðarinnar í olíukostnað miðað við ár. Það er ekki tekið af hlut sjómanna. Sjómenn vilja gjarnan túlka það svo, ég þekki það vel, ég vinn við hliðina á þessum mönnum um lengri eða skemmri tíma á hverju einasta ári, að það, sem fiskvinnslan greiðir fyrir aflann, eigi allt að vera til skipta. Í þá reglu vilja sjómenn auðvitað halda og hafa eitt og óskipt fiskverð.

Það er eins og fyrri daginn og hefur ævinlega verið síðan ég kom á þing, og er þó orðið nokkuð langt síðan, að í hvert sinn sem vandi kemur upp í sjávarútvegi hefur hann verið leystur innan greinarinnar sjálfrar. Það er ekki farið annað eftir peningum. Það er ekki farið í ríkiskassann. Vandanum er aðeins velt á milli innan sjávarútvegsins sjálfs. Þetta hefur verið regla í sjávarútvegi. Stjórnvöld eiga að hafa það fyrir sið að mynda almennar reglur sem síðan sé hægt að fara eftir. Og ef við ættum að gera það að almennri reglu að komi upp vandi innan atvinnugreinar af þessu tagi eða í einhverju öðru, eins og oft hefur komið upp á í sjávarútvegi, eigi að leysa þann vanda innan þeirrar atvinnugreinar sjálfrar, hvað segðuð þið landbúnaðarmenn, sem sitjið hér, og bændur, ef ekki mætti sækja peningana annað? Hvernig færi þá? Og hvernig er með þennan aumingjans iðnað, sem við Íslendingar höfum, sem allur er í vandræðum? Heil stjórnardeild er komin á fulla ferð til þess að reyna að koma íslensku sælgæti ofan í fólk núna í stað erlends og hefur eins árs prógramm að vinna að í þeim efnum. Ég er ekki viss um að þessar atvinnugreinar þyldu það, að slík almenn regla yrði tekin upp.

Að lokum vil ég aðeins segja það, þótt margt sé í rauninni eftir og hefði verið gagnlegt að koma inn á, því að það vill svo til að í þessum efnum þyrfti auðvitað að ræða miklu meira hér á hinu háa Alþingi: Ég ætla ekki að lesa upp úr uppáhaldsbók hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar, kosningastefnuskrá Alþb. frá 1978. Ég skal viðurkenna það og taka undir það með Matthíasi að margt í þessari bók er ósköp óraunsætt. En þarna er þó um að ræða stefnu til langs tíma og það verður ekki leyst á augabragði og allra síst í samstarfi við mjög óskylda flokka. Þarna eru sett stefnumið, að vísu fjarlæg, en þau stefnumið ein sem eru í raun einhver lausn af viti út úr okkar efnahagsöngþveiti. Það tekur hins vegar langan tíma að vinna að þeim. En það vill oft verða svo fyrir kosningar, að kosningastefnuskrár verði óskalistakenndar. Það væri ekki vandi að finna slíkar stefnuskrár annarra flokka, eins og „Framför landsins alls“ hjá Framsókn á sínum tíma og „leifturstríð“ hjá Sjálfstfl. Það mætti auðvitað finna margar skrumkenndar yfirlýsingar og óskir í slíkum plöggum. Það er algerlega út í hött að fara að lesa slík plögg og það margra ára gömul, þegar verið er að fást við alvarlegt vandamál sem stendur á okkur þessa stundina. Þetta gera menn kannske til að reyna að vera svolítið sniðugir og það tekst hv. 1. þm. Vestf. oft sem betur fer.

En að lokum vil ég aðeins segja nokkur orð við hæstv. sjútvrh., og ég segi að ég ætla ekkert að fara að skammast í þessum efnum við hæstv. ráðh., því að reynslan sýnir að það þýðir ekkert að skammast við hann um þetta. — Ég hef aldrei skvett vatni á gæs, ég hef aldrei umgengist þær. En það er til máltæki, að þetta og hitt sé eins og að skvetta vatni á gæs. Vatn tollir líklega illa á gæsum vegna þess að þær eru svo feitar í fiðrinu að þær blotna ekki.

Ég hef áður reynt að finna að því, hvernig vinnubrögð hæstv. ráðh. viðhefur í mörgum efnum, ekki síst þegar stórmál eru á ferðinni. Núna var það þannig, og það er ástæðulaust að liggja nokkuð á því, enda er ég búinn að kjafta því meira að segja í Ólaf Ragnar, það vita þetta allir orðið, að daginn sem fiskverðið var ákveðið, líklega kl. 4, er einn ráðherrastrákurinn sendur með frv. niður á þingflokksfund hjá okkur og segir: Viljið þið samþykkja þetta? — eða eitthvað slíkt. Það var borið undir þingflokkinn 10 mínútum eftir að búið var að ákveða fiskverðið. Þetta er samráðið við okkur.

Það þarf ekki að orðlengja þetta neitt eða vera að velta sér upp úr þessu. Þetta er auðvitað ómögulegt, strákar, þetta er ómögulegt. Við, sem eigum að standa hér upp og mæla með þessu og hinu og flytja um það góðar ræður væntanlega, þurfum helst að vita af málinu — við skulum segja: 10 mínútum fyrr, en ekki á eftir, þ.e. aðeins fyrr, þannig að okkur sé ekki stillt upp fyrir orðnum hlut. Að þessu sinni gerði það ekkert til, ósköp einfaldlega vegna þess að við komumst ekki hjá því, þótt okkur þyki það vont, að hafa þetta olíugjald. Ég hefði ekki þurft að sjá þetta frv. fyrr en í dag til þess að geta talað hér fyrir því að það yrði samþykkt.

Herra forseti. Ég legg til að þetta frv. verði samþ. að lokinni þessari umr.