23.02.1981
Efri deild: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2467 í B-deild Alþingistíðinda. (2627)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. e. hefur nú gengið hér rösklega fram í því að fá þetta mál, sem frv. fjallar um, betur upplýst en hv. þm. hafa fengið tækifæri til að njóta. Ég mun ekki ræða almennt um frv., hv. 3. þm. Norðurl. e. hefur gert það ítarlega. En þó hann hafi spurt svo margs, þá er það ein spurning sem ekki hefur hér borið á góma en mér þykir rétt að bera upp við hæstv. fjmrh. þegar á þessu stigi málsins. Það er spurning sem varðar 16. gr. frv. Sú grein fjallar um það, að þrátt fyrir ákvæði laga frá 1965 um launaskatt skuli framlag ríkissjóðs samkv. þeim lögum til Byggingarsjóðs ríkisins á árinu 1981 eigi fara fram úr 27.8 millj. kr. Og síðan er sagt í þessari grein að það, sem umfram kunni að innheimtast af launaskatti 1981, renni í ríkissjóð.

Það er ekki að ófyrirsynju að ég hnýt um þessa grein. Þetta mál kom til umr. á milli mín og hæstv. ráðh. bæði við 2. og 3. umr. fjárl. Þá benti ég á að ekki væri hægt, eins og fjárlög gerðu ráð fyrir, að svipta Byggingarsjóð ríkisins meginhluta tekna sinna af launaskatti nema breyta lögunum um launaskatt frá 1965. En þar er gert ráð fyrir að 2% af launaskattinum fari til Byggingarsjóðs ríkisins. Nú skildi ég hæstv. ráðh. þannig í umr. um fjárlagafrv. að hann ætlaði að bera fram frv. eða að borið yrði fram stjfrv. þar sem lögum um launaskatt yrði breytt á þann veg, að 2% af launaskatti væru ekki bundin við Byggingarsjóð ríkisins. Nú er ég ekki að kalla hér eftir efndum á þessu fyrirheiti hæstv. ráðh., það er síður en svo, því að ég hef við öll tækifæri lagt áherslu á að það sé nauðsynlegt fyrir Byggingarsjóðinn að hafa tekjurnar af þessum 2% launaskatti. 16. gr. frv. þess, sem hér liggur fyrir til lánsfjárlaga fyrir árið 1981, virðist gera ráð fyrir að lögin um launaskatt eigi að haldast óbreytt. Það eigi hins vegar á árinu 1981 að skerða tekjur sjóðsins sem er aflað með þessum lögum. Mér þykir þetta betri kostur heldur en ef lögunum um launaskattinn væri breytt og sjóðurinn algerlega sviptur tekjum af launaskattinum. Þetta gæti gefið vísbendingu um það, að það, sem lagt er til í 16. gr. frv., sé einungis ráðstöfun til bráðabirgða, ráðstöfun fyrir það ár sem nú er að líða, en ríkisstj. hugsi sér að láta standa óskertan framvegis tekjustofn Byggingarsjóðs ríkisins af launaskatti. Ég vildi mega leggja þennan skilning í afstöðu ríkisstj., en spyr hæstv. ráðh. hvort þetta sé rétt. Ef þetta er ekki rétt, hvernig stendur þá á því að hæstv. ríkisstj. gengur ekki beint til verks og fær breytt lögunum um launaskatt?

Það er ekki einungis að þetta mál sé ákaflega þýðingarmikið fyrir Byggingarsjóð ríkisins og þar með fyrir hinn almenna húsbyggjanda í landinu, heldur er það, sem er að ske varðandi þetta mál, eitt ljótasta dæmi um skattheimtu, sem hægt er að finna. Þegar lagður er á skattur í ákveðnum tilgangi og lögð áhersla á að sá tilgangur sé þess eðlis að hann réttlæti skattbyrðina, þá er um að ræða bein svík við þær hugsjónir, sem sagðar eru liggja á bak við skattheimtuna þegar hún er ákveðin, ef fjármagnið, sem af skattheimtunni leiðir, gengur ekki til yfirlýstra þarfa heldur í ríkissjóðinn. Ég leyfi mér að halda því fram, að svona vinnuaðferðir séu eitt ljótasta dæmið sem hægt er að finna um það, hvernig skattheimta á ekki að vera.

Herra forseti. Af þeim ástæðum, sem ég hef núna greint, hef ég talið tilefni til þess að óska eftir því, að hæstv. fjmrh. svari þeirri spurningu sem ég hef þegar sett fram.