23.02.1981
Efri deild: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2469 í B-deild Alþingistíðinda. (2630)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég bar fram fsp. til hæstv. fjmrh. sem hann hefur nú svarað. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svarið þó að mér þyki mjög miður hvernig það var efnislega. En af því verður ráðið að það er stefna ráðh. og hæstv. ríkisstj. að svipta Byggingarsjóð ríkisins meginhlutanum af tekjum hans af launaskatti, þó að þessi skattur hafi verið lagður á einungis í þeim tilgangi að fjármagna Byggingarsjóð ríkisins.

Hér er ekki um neinar smáupphæðir að ræða, því að samkv. lögum átti Byggingarsjóður ríkisins að fá um 150 millj. eða 15 milljarða gkr. í tekjur af launaskattinum. Nú eru honum ætlaðar einungis 27 millj. nýkr. Ég ætla ekki hér að ræða um það, hvaða þýðingu þetta hefur fyrir Byggingarsjóðinn eða ástand húsnæðismálanna í landinu. Það er augljóst hverjar afleiðingarnar verða. Þær verða skelfilegar og lýsa sér í meiri erfiðleikum fyrir hinn almenna húsbyggjanda heldur en við höfum þekkt á undanförnum áratugum. En af svari hæstv. fjmrh. kom það einnig fram, að ekki er ætlunin að leggja þennan skatt niður, þó að það sé ætlunin að svipta Byggingarsjóð ríkisins því sem hann gefur. Það er að sjálfsögðu í samræmi við hina almennu stefnu ríkisstj. í skattamálum, þ.e. að auka og viðhalda öllum þeim sköttum sem þeir mega. Það er þess vegna ekki furða þó að ég lýsi vonbrigðum mínum yfir svari hæstv. fjmrh. þegar þetta er haft í huga.