23.02.1981
Efri deild: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2470 í B-deild Alþingistíðinda. (2632)

220. mál, tímabundið olíugjald til fiskiskipa

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um tímabundið olíugjald til fiskiskipa á þskj. 435. Hér er um að ræða að framlengja það olíugjald, sem var í lok síðasta árs, þ.e. 7.5%, út þetta ár, 1981.

Þetta frv. er flutt í tengslum við ákvörðun um fiskverð sem eins og hv. þm. er kunnugt var loks tekin nú fyrir fáum dögum. Er í þeirri ákvörðun gert ráð fyrir að fiskverð hækki um 18% frá 1. jan. til 1, mars, en frá þeim tíma og til loka maí um 6%. Við þá ákvörðun er gert ráð fyrir að afkoma báta verði eins og hér segir: Í fyrsta lagi, báta án loðnu verði janúar — maí plús 2.4%, en mars — maí plús 2.8%. Afkoma minni skuttogara verði á tímabilinu jan. — maí plús 0.2%, en mars — maí plús 0.7%, en afkoma stærri skuttogara verði hins vegar neikvæð, mínus 7.8% í jan. — maí, en mínus 8.0 ef aðeins er lítið á mars til maí. Samtals er gert ráð fyrir að afkoman sé við núllið að meðaltali jan. — maí, en aðeins jákvæð á tímabilinu mars — maí, þ.e. 0.4%, og er þarna reiknað með 14% hækkun á svartolíuverði á næstunni.

Með tilliti til þessarar afkomu þykir ekki unnt að breyta olíugjaldinu. Olíugjaldið var tekið upp 2. mars 1979. Var það tekið upp vegna stórfelldrar hækkunar olíuverðs og þeirra erfiðleika sem það olli íslenskum sjávarútvegi. Gjaldið var í fyrstu 2.5%, af skiptaverði, en síðan hækkað í 7% í maí og í 12% gjald utan skipta í júlí 1979, enda fór olíuverð þá ört hækkandi. Undir lok ársins 1979 og framan af ári 1980 var hins vegar um tiltölulega litla breytingu á útsöluverði á olíu að ræða. Var olíugjald þá lækkað í áföngum í 2.5% í mars 1980.

Síðari hluta árs 1980 varð hins vegar umtalsverð hækkun á olíuverði, og frá 1. okt. í fyrra var olíugjaldið hækkað í 7.5%. Nú hafa enn orðið breytingar á olíugjaldi til hækkunar, einkum á svartolíu, og þykir því ekki fært að lækka olíugjaldið. Verð á svartolíu var 1281 kr. hvert tonn í byrjun okt., en er nú 1710 kr. og frekari hækkun er fyrirsjáanleg á næstunni. Verð á gasolíu var 2.10 kr. í okt., en er nú 2.35 kr. hver lítri.

Ég vil geta þess jafnframt, að fram hafa farið allmiklar viðræður í þeirri nefnd sem fyrrv. sjútvrh. skipaði til að endurskoða greiðslu á olíugjaldi. Ég hef átt fund með þeirri nefnd. Í henni eiga sæti fulltrúar sjómanna og útgerðamanna ásamt formanni frá Þjóðhagsstofnun. Því miður hefur ekki náðst þar samkomulag um annan hátt á greiðslu olíugjalds og harma ég það. Ég hef einnig rætt við aðila um hugmyndir sem fram hafa komið hér á hinu háa Alþingi m.a. hjá meiri hl. sjútvn. Nd., stjórnarandstöðunni, um að greiða a.m.k. hluta af olíukostnaði af almannafé, eins og þar var orðað. Þessi hugmynd hefur fengið misjafnar undirtektir. Sumir hafa viljað skoða hana og talið hana koma til greina, en aðrir verið henni mótfallnir.

Ég hef ekki talið fært og rétt að þvinga fram breytingu á þessu nema samstaða geti náðst um slíkt. Þetta er ákaflega viðkvæmt mál og mikilvægt að um það geti skapast nokkuð breið samstaða. Ég er þeirrar skoðunar, að vegna hins gífurlega kostnaðar, sem útgerðin hefur af olíu, og með tilliti til þess að hækkun olíu leggst mjög þungt á alla útgerð, sé rétt að greiða hluta af olíu niður á einn eða annan hátt, taka það af óskiptu. En eins og ég segi, ég tel að um slíkt þurfi að nást breið samstaða og það hefur ekki tekist enn.

Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð. Málið hefur mikið verið rætt hér á Alþingi hvað eftir annað og ekki ástæða til að endurtaka það. Ég leyfi mér síðan, herra forseti, að leggja til að máli þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.