23.02.1981
Efri deild: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2473 í B-deild Alþingistíðinda. (2637)

221. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breyt. á lögum nr. 2 frá 1. febr. 1980, um breyt. á lögum um útflutningsgjald af sjávarafurðum, nr. 5 13. febr. 1976, á þskj. 436. Frv. þetta gerir ráð fyrir, eins og fram kemur í ákvæði til bráðabirgða, að á þessu ári, 1981, verði útflutningsgjald af fob-verðmæti skreiðar og hertra þorskhausa hækkað í 10% úr 5.5%, en af frystum sjávarafurðum framleiddum á árinu 1981 lækkað úr 5.5% í 4.5%.

Þetta frv. er flutt í tengslum við þá fiskverðsákvörðun sem ég lýsti áðan. Eins og hv. þm. er kunnugt sýndu afkomureikningar Þjóðhagsstofnunar að gífurlega mikill munur er á afkomu frystingar og annarra greina fiskvinnslu. Þeir útreikningar, sem lágu fyrir 2. febr. s.l., gerðu ráð fyrir, miðað við það fiskverð sem þá var, að afkoma frystingar væri jákvæð um 1.6%, saltfiskverkunar um 10.5%, en skreiðar um 24.9%. Að nokkru leyti var dregið úr þessum mikla mun með breytingu á verðflokkun aflans, þannig að lakari flokkar voru hækkaðir nokkuð í verði með tilliti til 1. flokks og sömuleiðis dregið úr kassauppbót úr 12% í 10%. Þessi leið hefur verið töluvert umdeild, og þótt um hana yrði samkomulag í Verðlagsráði hafa ýmsir aðilar sjávarútvegsins lýst sig henni mótfallna. Og sannarlega má segja að þessi leið dregur úr viðleitni manna til að færa að landi fyrsta flokks afla. Ég tel þó, miðað við þann mikla mun sem er á afkomu þessara greina, að slík breyting komi til mála að vissu marki, en ekki lengra en þarna var gengið. Til þess að bæta að nokkru afkomu frystingarinnar hefur því verið ákveðið — og er liður í fiskverðsákvörðun — að gera þá breytingu á árinu 1981 á útflutningsgjaldi sem ég hef nú lýst.

Ég er hér með fyrir framan mig áætlun Þjóðhagsstofnunar um afkomu hinna ýmsu greina eftir að þessi breyting er gerð. Þar kemur í ljós að Þjóðhagsstofnun áætlar að með þessari breytingu og þeim yfirdrætti í Verðjöfnunarsjóði, sem gert er ráð fyrir, verði afkoma frystingar enn þá á tímabilinu jan. — maí mínus 0.4%, en mars — maí eingöngu mínus 2.0%. Söltunin er hins vegar áætluð plús 1.7% á tímabitinu jan. — maí, en við núllið ef lítið er eingöngu á mars — maí. Afkoma herslunnar eftir þessa breytingu og þær breytingar, sem ég lýsti áðan, í verðhlutföllum á milli flokka er áætluð plús 9.6% á tímabili jan. — maí, en 8.0% á tímabilinu mars — maí. En á heildina lítið verði útkoman plús 1.4% jan. — maí, en í kringum núllið mars — maí.

Eins ber þó að gæta í þessu sambandi. Frystihúsafyrirtæki eru einnig að töluverðu leyti í söltun og herslu og hafði Þjóðhagstofnun áætlað fyrir fiskverðshækkun að meta mætti meðalafkomu frystihúsafyrirtækja plús 5.3%, en eftir fiskverðshækkun plús 1 á tímabilinu jan. — maí. Hitt er svo alveg ljóst, að afkoma frystihúsafyrirtækja að þessu leyti er mjög misjöfn. Mjög er breytilegt, eftir því hvar er á landinu, hve mikinn hagnað þessi fyrirtæki hafa af skreið og söltun, og því ákaflega vafasamt að leggja slíkt til grundvallar við afkomuútreikninga frystingar. M.a. með tilliti til þessa tel ég réttlætanlegt að flytja tímabundið nokkuð af hagnaði herslunnar yfir til frystingar, eins og raunar er verið að gera með þessu frv. Að sjálfsögðu skiptir slíkt mjög líttu máli fyrir fyrirtæki sem eru að verulegu leyti bæði í frystingu og herslu, það breytir litlu í útgjöldum þeirra vegna útflutningsgjalda, en kemur fyrst og fremst þeim fyrirtækjum til góða sem eru lítið í herslu.

Þess ber jafnframt að geta, að frystingin skapar verulega meiri atvinnu heldur en herslan. Í afkomuútreikningum í desember fyrir fiskvinnsluna eru laun og launatengd gjöld hjá frystingunni um 29– 30% — að vísu ber að hafa það í huga, að þá er hærra fiskverð ekki komið inn — en hins vegar hjá skreið um 20%, eða m.ö.o. laun og launatengd gjöld hjá frystingunni eru u.þ.b. 50% hærri en í skreiðarverkun. Þess vegna er ekki heldur óeðlilegt að reynt sé að styrkja þann atvinnuþáttinn sem meiri vinnu skapar, þegar svo er ástatt sem nú er og svo gífurlega mikill munur er á frystingu og herslu afkomulega séð.

Þá vil ég einnig nefna að mjög mikil aukning varð á herslu á síðasta ári. Aukningin varð um 150%. Og nú virðist enn mjög sækja í sama horf, að fiskur er yfirboðinn í verði til að herða. Þótt markaður virðist allgóður fyrir hertar afurðir nú verður að sjálfsögðu að gæta þess að ganga ekki of langt og ofbjóða ekki þessum markaði. Því er ástæða til að draga nokkuð úr ásókn manna í herslu. Sú ásókn verður eftir sem áður mikil, eins og þær afkomutölur, sem ég gat um áðan, eflaust benda til og gefa ástæðu til.

Útflutningsgjöld eru núna 5.5% og miðað við það hlutfall á allar greinar vinnslunnar er áætlað að frysting greiði 1981 í gömlum kr. 11 milljarða, söltun 4, hersla 2.5, en annað 7. Samtals 24.5 milljarða gkr. Samkvæmt lögum nr. 2 1980 skiptast þessi útflutningsgjöld þannig:

1. Til Aflatryggingasjóðs: Til almennrar deildar renna 15%, til verðjöfnunardeildar 20%, og til áhafnadeildar 21%.

2. Til Tryggingasjóðs fiskiskipa og til úreldingarstyrkja: Til greiðslu að hluta af vátryggingarkostnaði fiskiskipa samkv. reglum sem sjútvrn. setur 20%. Til aldurslagatryggingar til úthlutunar samkv. reglum sem sjútvrn. setur 3%.

3. Til Fiskveiðasjóðs Íslands og Fiskimálasjóðs: Til Fiskveiðasjóðs 18%, til Fiskimálasjóðs 0.8.

4. Til sjávarrannsókna og Framleiðslueftirlits sjávarafurða 1%.

5. Til Landssambands ísl. útvegsmanna 0.6%, til samtaka sjómanna 0.6%.

Eins og kemur fram í þessari skiptingu renna þessi gjöld öll til þarfa útgerðarinnar, getum við sagt, og því raunar ekki óeðlilegt að vinnuþáttur vinnslunnar sé skattlagður minna en t.d. hráefnið. Engu að síður er hér aðeins lagt til að breyting á þessu verði tímabundin, og bundin við þetta ár.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.