03.11.1980
Neðri deild: 9. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í B-deild Alþingistíðinda. (264)

17. mál, olíugjald til fiskiskipa

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Þessu máli, sem nú er til umr., hefur tvívegis verið frestað, m.a. frestað s.l. miðvikudag, og þá var mér tjáð að samkomulag hefði orðið um það með formönnum þingflokkanna, að málið yrði afgreitt í dag úr þessari deild.

Ég er út af fyrir sig ekkert undrandi á langri og ítarlegri ræðu hv. 1. þm. Vestf. um sjávarútvegsmál. Enginn kemst með tærnar þar sem hann hefur hælana. Hins vegar hafa ræður hér orðið langtum víðtækari, m.a. um efnahagsmál almennt, og eflaust er það viðleitni hv. þm. til að standa við fyrrgreint samkomulag. Engin furða er þótt menn segi hér að traustið á stjórnmálaflokkunum sé brostið.

Ég skal ekki hafa langt mál og mun ekki ræða um efnahagsmálin almennt. Ég hef nýlega haldið ræðu um þau mál við umr. um stefnuræðu forsrh. og hef lýst þar mínum sjónarmiðum. Ég hygg að þau hafi komið þar glöggt fram og geta menn rifjað það upp úr þingtíðindum ef þeir vilja.

Ég geri jafnframt ráð fyrir því, að um efnahagsmálin verði rætt á næstu vikum. Hjá því verður eflaust ekki komist, og ég tek undir það með hv. þm., að þau eru vitanlega hið stóra vandamál sem við er að stríða. Olíugjaldið er einn hluti af því, en þó ekki nema lítill angi.

Ég skal hins vegar koma stuttlega að nokkrum þeim atriðum sem hér hefur verið spurt um og beinlínis tengjast olíugjaldinu.

Mjög hefur verið deilt á það, að olíugjaldið var lækkað í apríl s.l. úr 5% í 2.5%. Þetta var, eins og þá kom ítarlega fram, gert á grundvelli spádóma frá Þjóðhagsstofnun og fleiri sem til þekktu um væntanlega jafnvel lækkun á olíukostnaði. Ég get fúslega fallist á að þetta kunni að hafa verið mistök og þarna hafi verið byggt á of mikilli bjartsýni.

Mér sýnist hins vegar furðulegt ef menn telja að olíugjaldið eigi að vera einhver föst hundraðstala. Ég vek athygli á því, að olíugjaldið hefur breyst ætíð frá einni ákvörðun til annarrar. Í mars 1979 var olíugjaldið ákveðið 2.5%, í júní 1979 7%, í júlí 1979 15% og þar af 3% til hlutaskipta, í október 1979 9%, í febrúar 1980 5%, í apríl 1980 2.5%, og nú er lagt til að það verði 7.5%. Staðreyndin er vitanlega sú, að það er raunverulega grundvallarhugsunin með olíugjaldinu, að það breytist eftir því hvað olíukostnaður er þungur á útgerðinni.

Ég verð einnig að lýsa furðu minni á því, að þessir hv. þm. greiddu atkv. með 12% olíugjaldi í júlí 1979, þ.e. 15% mínus 3%, án þess svo mikið sem að blikna. Og ég verð að taka undir það, sem hv. þm. Garðar Sigurðsson rakti ítarlega hér áðan um ágætan rökstuðning hv. 1. þm. Vestf. fyrir olíugjaldinu í vor. Ég hef þekkt hv. 1. þm.

Vestf. alllengi og að mörgu leyti borið virðingu fyrir kunnáttu hans og þekkingu í sjávarútvegsmálum, en mér þykir hann leggjast ansi lágt að snúast nú gegn hagsmunum útgerðarinnar sem hann hefur borið oft og mjög fyrir brjósti. Mér þykir stjórnarandstaðan ekki sýna málefnalega tilburði, því miður, verð ég að segja.

Ég hef hváð eftir annað sagt að ég tel olíugjaldið nauðvörn. Ég er andsnúinn olíugjaldinu af grundvallarástæðum. Ég tel það rangt, ég tel það lagt á skakkan hlut, ef ég má orða það svo.

Ég ætla ekki að fara að ræða um útúrsnúninga hv. 1. þm. Vestf. um fjölda fiska o.s.frv. Ég veit að hann veit mætavel við hvað er átt. En ég tel rangt að leggja það á, hvort sem við köllum það fjölda fiska eða verðmæti. Það er ekki greitt eftir eyðslu.

Ég hef einnig skýrt frá því, að viðræður hafa verið í gangi með fulltrúum útgerðar og sjómanna um aðra leið til að mæta þessum gífurlega olíukostnaði. Þessar umr. hófust fyrir tilstilli fyrrv. sjútvrh., Kjartans Jóhannssonar. Þetta er ákaflega vandmeðfarið verk. Ég hef átt fund með þeirri nefnd, sem um þessi mál fjallar, og lagt á það áherslu, að leitað verði annarra leiða. Ég skildi nefndarmenn svo, að þeir væru allir mótfallnir olíugjaldinu sem slíku eða vildu finna aðrar leiðir, ef ég má orða það þannig. Jafnvel fulltrúar útgerðarinnar vilja gjarnan finna aðrar leiðir. Hins vegar voru allir sammála um það, að önnur leið yrði að byggjast á samkomulagi, þannig að um hana gæti orðið friður. Undir þetta verð ég að taka.

Ég batt nokkrar vonir við það, að unnt yrði að stíga skref nú út úr olíugjaldinu og inn á aðrar leiðir til þess að mæta olíukostnaði. Því miður hafði nefndin ekki komist það langt í sínum störfum. Ég bind enn vonir við að það takist fyrir næstu fiskverðsákvörðun og hef lagt á það áherslu við nefndina. Á meðan svo er ekki verð ég að taka undir það með hv. þm. Garðari Sigurðssyni, að vart er um annað að ræða en að búa við það olíugjald sem þingið hefur einróma samþykkt í fyrri tilfellum og lagt blessun sína yfir.

Ég efast ekki um að margir hv. þm. — og áreiðanlega einnig hv. þm. Matthías Bjarnason í hjarta sínu — eru mótfallnir olíugjaldinu sem slíku og vilja finna betri leið. Ég ætla engum manni að vilja ekki bæta það sem við höfum. Það er svo auðvelt að sýna fram á annmarka á olíugjaldinu. En ég vænti þess jafnframt, að menn geti tekið undir það, að á það ber að leggja áherslu að gera slíkt með samkomulagi, en ekki einhliða ákvörðun ríkisstj. og Alþingis. Að því er stefnt og það er ástæða fyrir því, að enn þá er byggt á olíugjaldi. Það er nú hækkað vegna þess að orðið hefur yfir 30% hækkun á olíukostnaði frá því að olíugjaldið var síðast ákveðið. Þetta eru ákaflega einfaldar ástæður fyrir olíugjaldinu nú — og ætti engan að undra.

Ég verð að segja að sú tillaga meiri hl. nefndarinnar að greiða niður olíukostnaðinn úr sameiginlegum sjóði landsmanna er mjög athyglisverð. Ég hefði viljað fá nánari skýringar á þeirri tillögu. Hyggjast hv. tillögumenn ná slíkum tekjum með hækkun skatta t.d. — eða eftir hvaða leiðum hyggjast þeir ná tekjum til að greiða niður olíuna?

Ég er út af fyrir sig sammála því, að mikill olíukostnaður mætti gjarnan greiðast úr sameiginlegum sjóði landsmanna. En staðreyndin er bara sú, að þau gjöld, sem við leggjum á, koma venjulega, þegar upp er staðið, að meira eða minna leyti frá sjávarútveginum sjálfum. Sjávarútvegurinn er sú uppspretta auðlegðar sem þessi þjóð byggir á. Vel má vera að umræddri nefnd, sem fjallar um hlutaskiptin, komi til hugar að gera till. um eitthvað slíkt og nái samkomulagi um eitthvað í þessa veru. Á það verður sannarlega hlustað. En aðalatriðið er að samstaða sé um málið á milli sjómanna og útgerðarmanna.

Hér hefur töluvert verið rætt um skuldbreytingu útgerðarinnar. Ég get svarað spurningum hv. þm. einfaldlega með því að segja: Að henni hefur verið unnið og er verið að vinna. Sú vinna hófst s.l. vor, þá fyrst og fremst gagnvart frystingunni. Þá var ákveðið að reyna að fara svipaða leið og farin var 1975, þ.e. að fá uppgjör frá fyrirtækjunum. Viðskiptabankarnir tóku að sér að afla slíks uppgjörs. Eftir nærri þrjá mánuði lá aðeins fyrir uppgjör frá helmingi þeirra fyrirtækja sem viðskipti hafa t.d. í Landsbanka Íslands. Það sýnir sig, að fyrirtækin mörg hver hafa ekki viðhlítandi upplýsingar sem á er unnt að byggja, a.m.k. ekki um mitt ár, og þessi leið virðist taka langtum lengri tíma en æskilegt er. Þetta er í raun og veru ekki nýtt. Þessi leið var farin 1975 og tók þá mjög langan tíma. Það sýndi sig einnig þá, að ákaflega mikið af þeim upplýsingum, sem fengust, var þannig að erfitt var á því að byggja, og því dróst á langinn að skuldbreytingin gæti orðið. Samhliða þessu var því ákveðið að biðja Seðlabanka Íslands að afla upplýsinga um skuldir útgerðar og fiskvinnslu við viðskiptabanka, við olíufélög og við opinbera sjóði. Þessara upplýsinga var einnig aflað af sjútvrn. Þær liggja nú fyrir í stórum dráttum. Ég geri ráð fyrir því, að eftir örfáa daga verði unnt að gefa út tilkynningu um hvernig að þessari skuldbreytingu verði staðið. Byggt á þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, virðist þurfa að skuldbreyta u.þ.b. 13 milljörðum króna. Þessi upphæð kann eitthvað að breytast við síðustu yfirferð, en eins og ég segi, samkv. því bráðabirgðaáliti, sem ég hef fengið frá Seðlabankanum, er skuldbreytingin af þessari stærðargráðu.

Þessi skuldbreyting nær að sjálfsögðu einnig til skulda við olíufélögin. Í því sambandi er að því stefnt, að skuldir útgerðar við olíufélögin verði svipaðar og þær voru í upphafi ársins 1979, eða þegar síðast var gert átak af þessu tagi.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð, en endurtek að ég geri mér fastlega vonir um það — átti síðast í morgun fund um það með Seðlabankanum — að endanlegar hugmyndir um skuldbreytinguna liggi fyrir nú eftir fáa daga. Jafnframt hefur verið starfandi sérstök nefnd — með fulltrúum frá viðskiptabönkunum, bæði Landsbanka og Útvegsbanka, frá Byggðasjóði, Fiskveiðasjóði og nú frá Seðlabanka auk rn. — sem er ætlað að fjalla um einstök vandamál í sambandi við þessa skuldbreytingu. Það er alveg rétt, sem kom fram hjá hv. þm. Halldóri Blöndal, að skuldastaða fyrirtækja í útgerð og reyndar fiskvinnslu er mjög breytileg, og þar eru nokkur tilfelli sem verður að taka sérstökum tökum, og afla þá viðbótarfjármagns til.

Hv. þm. Matthías Bjarnason lýsti undrun sinni yfir því að dollarinn væri kominn í 557 kr. Ég er undrandi á því, að hann skuli ekki hafa fylgst með því, hvað dollarinn hefur styrkst upp á síðkastið. Þegar um er að ræða gengissig, þá er að sjálfsögðu átt við meðalgengi íslenskrar krónu.

Hv. þm. ræddi nokkuð um fiskiskipastólinn og ég tek undir það með honum, að stærð fiskiskipastólsins er meiri háttar vandamál. Ég geri ráð fyrir því, að reglum Fiskveiðasjóðs verði breytt. Ég bið eftir endanlegum tillögum frá starfshópi sem í eru fulltrúar hagsmunaaðila, þ.e. bæði útvegsmanna, skipasmíðastöðva, Fiskveiðasjóðs og fleiri sem um þessi mál fjalla. Þar er leitað að leiðum til að tryggja eðlilega endurnýjun skipaflotans án þess að sóknarþunginn aukist. Í raun og veru er þetta heldur vandmeðfarið og inn í það spilar líka sú staðreynd, að íslenskar skipasmíðastöðvar eru af ýmsum ástæðum illa samkeppnisfærar við erlendar að verði til. Þessu valda ýmsar ástæður, eins og ég sagði, m.a. þær, að erlendar skipasmíðastöðvar njóta gífurlegra styrkja. Norðmenn styrkja auk þess útflutning eldri skipa með því að greiða verðið niður um 30%. Ég hygg að alls ekki sé unnt að gera ráð fyrir því, að íslenskar skipasmíðastöðvar geti keppt við slíkan stuðning. Hins vegar er að mínu mati alrangt að velta vanda skipasmíðaiðnaðarins yfir á útgerðina. Íslenskur sjávarútvegur á nú í harðri samkeppni við sjávarútveg annarra landa, sem býr við hinar ótrúlegustu niðurgreiðslur og styrki, og getur ekki til viðbótar tekið á sig slíkan kostnaðarmun þrátt fyrir meiri hagkvæmni en annars staðar þekkist.

Ég tel einna mikilvægast að skapa íslenskum skipasmíðastöðvum aðstöðu til að raðsmíða hentuga báta, því að fyrst og fremst eru það bátarnir, sem eru orðnir gamlir, um 450 yfir 15 ára gamlir og margir mjög óhentugir til nútímaveiða. Þar er um gífurleg verkefni að ræða sem þarf að efla íslenskar skipasmíðastöðvar til að sinna. Ég vil hins vegar vísa því frá, að einhver breyting hafi orðið að þessu leyti nú síðustu mánuði. Fiskveiðasjóður hefur árlega samþykkt smíði nokkurra togara í íslenskum skipasmíðastöðvum samkvæmt þeim reglum sem hafa gilt, en eins og ég sagði áðan að verður breytt. Á þessu sumri eða í vor samþykkti Fiskveiðasjóður smíði á þremur togurum og í fyrra á þremur. Viðbætur við flotann má einnig rekja lengra aftur í tímann, t.d. til samninga við Portúgal. Tveir togarar hafa nýlega komið þaðan og eru þeir að sjálfsögðu hreinar viðbætur við flotann. Ég sé ekki ástæðu til þess að áfellast þáv. hæstv. sjútvrh. fyrir þá samninga. Ég geri mér fulla grein fyrir því, að þarna er vandrötuð meðalbrautin.

Erlendis frá hefur núna verið leyfð endurnýjun á tveimur togurum, en einn viðbótartogari erlendis frá er væntanlegur, þ.e. togari sem samþykktur var á grundvelli niðurstöðu Framkvæmdastofnunar um það hvernig ætti að leysa byggðavanda Þórshafnar. Ég hef litið á það sem algera undantekningu og sem byggðavandamál og hef lagt á það áherslu, að fjárhagslega beri að leysa það mál, þ.e. fjármögnun í gegnum Byggðasjóð, sérstaklega. En eins og ég hef þegar sagt, verða þessi mál tekin til endurskoðunar og breyting mun verða á fyrir næstu úthlutun lána úr Fiskveiðasjóði.

Ég hygg að þetta hafi verið meginspurningarnar sem tengja má olíugjaldinu beint. Ég gæti að vísu sagt hér ýmislegt um afkomu frystingar og útgerðar. Það gerði ég við 1. umr. um málið. Ég lýsti þá niðurstöðu Þjóðhagsstofnunar sem telur að fiskvinnslan hafi, — eftir þær breytingar, sem þá voru gerðar, og það gengissig sem varð — verið rekin um það bil á núllinu og sömuleiðis að útgerðin hafi umtalsverðan rekstrarafgang brúttó. Hér hafa menn rekið upp stór augu, að því er mér sýnist, og sagt: Hafa þær launahækkanir, sem nú hafa orðið, engin áhrif á rekstrarafkomu fiskvinnslunnar? Að sjálfsögðu.

Dettur nokkrum manni í hug að fiskvinnslan geti borið 10% kauphækkun? Mér dettur ekki í hug að ætla mönnum slíkt. Þetta eru allt of skynsamir menn til að flagga slíkri skoðun.

Því miður hefur ekkert það gerst hjá fiskvinnslunni sem geri henni þetta kleift, a.m.k. frystingunni. Það var dálítið um það deilt við 1. umr., hvort vænta mætti hækkunar á Bandaríkjamarkaði, og hv. 1. þm. Vestf. vefengdi það mjög. Að vísu segja söluaðilar þar að vænta megi nokkurrar hækkunar á blokkinni, en eins og ég sagði einnig við 1. umr., þótt einhver hækkun verði á blokkinni þá vegur það ákaflega lítið í heildinni. Blokkin er minni hluti af okkar sölu, þannig að þrátt fyrir betri framleiðslusamsetningu nú hjá fiskvinnslunni, meiri sölu á Bandaríkjamarkaði, minni birgðir og að þessu og öðru leyti betri stöðu, þá er fiskvinnslan sannarlega ekki í stakk búin til að taka á sig 10% launahækkun.

Hv. þm. Garðar Sigurðsson kvartaði undan því, að þeir hv. Alþb.-menn hefðu ekki fengið að sjá frv. fyrr en daginn áður en það var lagt fram. Ég vil upplýsa að um þessi mál var rætt í ríkisstj. hvað eftir annað og löngu fyrir þann tíma. M.a. voru ítarlegar umr. um þetta mál á ríkisstjórnarfundi 2. okt., þar sem ríkisstj. komst að niðurstöðu um þá leið sem fara yrði í þessu tilfelli. Ég get ekki gert að því þótt hv. Alþb.-menn í þingflokknum hafi ekki frétt af þeim umr. fyrr. Frv. er, eins og hv. þm. sagði, smáatriði í þessu sambandi. Frv. er ekkert annað en fyrri frv. með breyttum einni eða tveimur tölum, og endanleg upphæð olíugjaldsins var ekki ákveðin fyrr en umræddan miðvikudag, þannig að frv. var ekki unnt að útbúa fyrr en þennan miðvikudag. Hins vegar lá fyrir töluvert áður hvað ríkisstj. taldi óhjákvæmilegt að gera í þessu sambandi, og að sjálfsögðu mátti ræða það í þingflokkum.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessar umr., sem eru orðnar æðilangar og hafa farið vítt og breitt. Ég vil aðeins segja það að lokum og endurtek það, að ég tel olíugjaldið meingallaða leið. Ekki þarf ég að segja hvers vegna, ég er búinn að segja það hvað eftir annað. Það er von mín, — og flestir virðast taka undir það, þótt ekki hafi þeir gert það með berum orðum, hv. stjórnarandstæðingar sem hér hafa talað, a.m.k. flestir hagsmunaaðilar, að fundin verði ný leið til að mæta olíukostnaði útgerðarinnar og um hana náist samkomulag. Undir það vil ég sérstaklega strika, um þá leið þarf að nást samkomulag og á það mun ég leggja höfuðáherslu.