23.02.1981
Neðri deild: 56. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2479 í B-deild Alþingistíðinda. (2645)

226. mál, atvinnuréttindi útlendinga

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Eins og kunnugt er hefur málefni farandverkafólks borið talsvert á góma í opinberri umræðu undanfarin misseri. Samtök farandverkafólks hafa verið stofnuð og þau hafa látið talsvert að sér kveða á þessum tíma, og í ljós er leitt ýmislegt sem betur mætti fara í málefnum farandverkafólks. Á þessum málum eru einkum tvær hliðar. Önnur er sú sem snýr að útlendingum sem starfa hér í töluverðum mæli á hverju ári tímabundið. Hin hliðin snýr að aðbúnaði og starfskjörum innlends farandverkafólks, húsnæði þess og fleira.

Hvað þá útlendinga snertir, sem hingað kjósa að koma til starfa tímabundið, hefur komið í ljós að kjaramálum þeirra og starfsskilyrðum er í ýmsu áfátt. Þetta fólk hefur oftast valist til fiskvinnslustarfa, en í þeirri starfsgrein er m.a. viðloðandi hráefnisskortur öðru hverju. Sú sérregla gildir hér á landi sem kunnugt er, að í slíkum tilvikum er verkafólk réttlítið og atvinnurekanda heimilt að vísa því heim án þess að þurfa að greiða laun. Gegn þessum fyrirvaralausa atvinnumissi hafa launþegasamtökin að vísu náð samningum um kauptryggingu í fiskiðnaði sem býður sjö daga uppsagnarfrest í hráefnisskorti. Það hefur hins vegar komið í ljós, að útlendingum var oft ókunnugt um þessa íslensku reglu, og í mörgum tilvikum hafði ekki verið gerð gangskör að því að koma þeim á svokallaðan kauptryggingarsamning við atvinnurekanda. Af þessu leiddi töluverð átök á s.l. ári eins og kunnugt er, sem ásamt því, að í ljós þótti leitt að aðbúnaður farandverkafólks var víða slæmur, hafði það í för með sér, að 18. mars á s.l. ári skipaði ég nefnd til þess að athuga gildandi lög og reglur er varða kjör og aðbúnað farandverkafólks, þar með talið erlent verkafólk, og var nefndinni gert að gera tillögur til úrbóta í þeim efnum.

Nefnd þessi hóf þegar störf og var ætlunin að ljúka verkefninu á tveim til þrem mánuðum. Ýmislegt kom þó í veg fyrir að svo gæti orðið, m.a. það, að nefndin tók þá ákvörðun í upphafi, að tillögu fulltrúa launþegasamtakanna, að láta fara fram á vegum Heilbrigðiseftirlits ríkisins umfangsmikla könnun á aðbúnaði farandverkafólks í landinu, þ.e. á öllu húsnæði sem því var ætlað, með það fyrir augum að semja nýjar reglur þar að lútandi. Þá taldi nefndin einsýnt að breyta þyrfti ákvæðum um rétt og ráðningu útlendinga til landsins og samræma lögin nútímaviðhorfum í því efni.

Rannsókn Heilbrigðiseftirlits ríkisins á húsnæði farandverkafólks lauk um miðjan september s.l. og var af því tilefni gefinn út bæklingur undir heitinu „Aðbúnaður farandverkafólks“. Þar er gerð ítarleg könnun á húsnæði farandverkafólks, svo sem svefnherbergjum, göngum og forstofum, eldhúsum og matstofum, snyrtingum, þvottaaðstöðu, tómstundaaðstöðu og umhverfi húsnæðisins. Við mat á aðstæðum var stuðst við heilbrigðisreglugerð nr. 45 1972, um íbúðarhúsnæði, svo og greinar í veitingastaðareglugerð þar sem þær áttu við. Þá var stuðst við reglugerð um húsnæði vinnustaða og fleiri reglur.

Alls voru skoðuð um það bil 78 híbýli sem teljast húsnæði farandverkafólks, á 31 stað víðs vegar um landið. Þar kom fram við skoðun að húsnæði farandverkafólks er að mestu leyti af þremur gerðum: Í fyrsta lagi íbúðarherbergi í sama húsi og vinnustaður, oft efri hæð í fiskvinnsluhúsi og mötuneyti í byggingunni. Í öðru lagi íbúðarhús, ein- eða fleirbýlishús sem verkafólk hefur til afnota og með flestum atmennum þægindum, sem venjulega eru í íbúðarhúsum. Og í þriðja lagi færanlegt húsnæði, skálar, oftast timburhús, sem færa má úr stað eftir verkefnum eða hugsaðir sem bráðabirgðahúsnæði. Þá voru í nokkrum tilvikum hús byggð sem verbúðir, en þó ekki staðsett á sjálfu vinnusvæðinu.

Ekki skal farið ítarlega út í niðurstöður könnunar Heilbrigðiseftirlits ríkisins hér. Þess skal þó getið, að af 74 híbýlum sem skoðuð voru voru gerðar kröfur um úrbætur innan eins mánaðar á 8 stöðum, úrbætur innan eins til þriggja mánaða á 41 stað, úrbætur innan sex mánaða á 13 stöðum, en á aðeins 12 af þessum 74 stöðum þótti ekki ástæða til afskipta.

Af þeim 74 vistarverum, sem skoðaðar voru, var bað- og snyrtiaðstaða góð í 38 tilfellum, gölluð í 21 tilfelli og óhæf í 15. Eldunaraðstaða var fyrir hendi í 33 tilvikum, mötuneyti í 37, en hvorugt í fjórum. Ástand og búnaður í eldhúsum var í 60% tilvika góður, en í 40% verulega ábótavant. Aðstaða til þvotta var aðeins á 39 stöðum, í öðru húsi var.aðstaða til þvotta á 11 stöðum, í 5 tilvikum var séð um að þvo og hirða þvott fyrir fólk, en engin aðstaða var til þvotta af neinu tagi í 19 tilvikum. Aðstaða til tómstunda reyndist venjulega vera setustofa með nokkrum húsgögnum og sjónvarpi. Á nokkrum stöðum voru sérstaklega innréttaðar stórar stofur eða salir fyrir ýmis tómstundastörf. Af þeim 74 tilvikum, sem athuguð voru, reyndist vera tómstundaaðstaða, oft minni háttar, til á 60 stöðum, en engin tómstundaaðstaða af neinu tagi á 14 stöðum. Umhverfi reyndist í 34 skipti af 74 gott eða þrifalegt, en í 42 óviðunandi eða mjög óþrifalegt. 23 verbúðir af þeim, sem athugunin náði til, voru í sama húsi og fiskvinnslufyrirtæki.

Niðurstaða þeirrar könnunar, sem ég hef nú sagt frá, er sú, að í ljós kom að víða er úrbóta þörf á aðbúnaði farandverkafólks. Gera þarf stórátak í þessum málum og er þá eðlilegt að ekki séu dregin sérstök mörk milli farandverkafólks og annars verkafólks í hverju sveitarfélagi. Þetta þýðir m.ö.o. að ef velætti að vera þyrfti íbúðarhúsnæði handa farandverkafólki að vera utan almenns vinnusvæðis. Þar sem svo háttar að um er að ræða starfsmannabúðir, t.d. virkjanir og önnur slík vinnusvæði, verður að gera kröfu til þess, að íbúðarbygging sé velaðskilin frá vinnusvæði vegna hávaða, ónæðis og af fleiri ástæðum. Vegna sérstöðu hins svokallaða færanlega húsnæðis — en með því er átt við íbúðarskála sem oft er færðir úr stað og mynda starfsmannabúðir við samsetningu — er ekki óeðlilegt að um það séu settar skýrar reglur er varða stærð og annan búnað. Eðlilegast er í raun að allt húsnæði lúti sömu kröfum og íbúðarhúsnæði og að það fullnægi kröfum um hollustuhætti á hverjum tíma. Er mér kunnugt um að þetta viðhorf ríkir innan þeirrar nefndar sem undirbúið hefur frv. það sem hér liggur nú fyrir hv. Alþingi.

Nefndin, sem ég minntist á og skipuð var til þess að gera tillögur um úrbætur á málefnum farandverkafólks, vinnur nú að smíði reglugerðar á grundvelli þessarar könnunar. Er þess að vænta, að reglugerðin verði tilbúin á allra næstu vikum.

Frv. það, sem hér er flutt, er niðurstaða nefndarstarfs hvað varðar rétt erlendra manna á Íslandi og byggist á endurskoðun gildandi laga, nr. 39 1951. Höfð var hliðsjón af lögum um eftirlit með útlendingum, nr. 44 1975, og reglugerð um eftirlit með útlendingum, nr. 148 1965. Þá var lítið til þáltill. sem borin var fram á Alþingi á vorþingi árið 1979 og var samþykkt þar. En þar ályktaði Alþingi að fela ríkisstj. að láta fram fara endurskoðun á lögum nr. 39 1951 með það fyrir augum að leidd verði í lög fyllri ákvæði um upplýsingaskyldu þeirra, sem vilja ráða erlenda verkamenn í þjónustu sína, gagnvart þeim sem ráðnir eru, um launakjör, vinnutíma og aðbúnað við vinnu hér á landi. Enn fremur um skatta og önnur opinber gjöld svo og þær skyldur, sem erlendir takast á hendur við vistráðningu hérlendis, svo að tryggð verði með lögum félagsleg og kjaraleg réttindi þeirra útlendinga, sem hér fá atvinnuleyfi, til jafns við heimamenn, eins og þau eru samkv. lögum og gildandi kjarasamningum á hverjum tíma.

Helstu breytingar, sem frv. þetta felur í sér, eru þær, að hér er lagt til að til þess að veita megi útlendingi atvinnuleyfi verði að liggja fyrir umsögn verkalýðsfélags á staðnum í hlutaðeigandi starfsgrein eins og áður, en að auki liggi fyrir undirskrifaður ráðningarsamningur milli atvinnurekanda og viðkomandi starfsmanns. Í þessum ráðningarsamningi sé kveðið á um starfstíma og verkefni. Þessi ráðningarsamningur verður að tryggja erlendum starfsmanni laun og önnur starfskjör til jafns við heimamenn, og í honum skal vísað til þess kjarasamnings sem um starfið gildir.

Í ráðningarsamningi þessum, sem gerður er fyrir fram, skutu vera ýmsar upplýsingar sem varða starfskjör útlendings hér á landi, m.a. um ferðakostnað og heimflutning, um húsnæði og hvernig með skuli fara þegar atvinna kann að falla niður af óviðráðanlegum ástæðum, sbr. 3. gr. laga nr. 19 1979, um rétt fólks til uppsagnarfrests.

Í ráðningarsamningi þessum, sem gert er ráð fyrir að liggi fyrir undirskrifaður þegar sótt er um atvinnuleyfi, skal vera ákvæði þess efnis, að viðkomandi starfsmaður hafi kynnt sér þær upplýsingar sem nú er lagt til að félmrn. gefi út og dreifi erlendis, sbr. 5. gr. frv. Ákvæði frv. um, að ráðningarsamningur skuli liggja fyrir og að vinnumáladeild félmrn. skuli dreifa upplýsingum erlendis er varða öll helstu atriði starfskjara á Íslandi, eru hvor tveggja nýmæli, til þess fallin að tryggja betur en nú er að erlent starfsfólk, sem hingað ræðst, fái allar tiltækar upplýsingar um aðbúnað og starfskjör á Íslandi og að aðilar hafi kynnt sér þær til hlítar áður en frá ráðningu er gengið. Ýmis önnur nýmæli frv. leiðir af þessari kerfisbreytingu og er þeirra getið í athugasemdum við einstakar greinar.

Í 3. gr. frv. eru talin þau skilyrði sem sett eru fyrir því, að útlendingi megi veita starfsleyfi á Íslandi.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því, eins og áður segir, að fyrir liggi umsögn verkalýðsfélags á staðnum í hlutaðeigandi starfsgrein.

Í öðru lagi er gerð til þess krafa, eins og nefnt var hér að framan, að áður en umsókn um atvinnuleyfi er lögð inn hjá félmrn. liggi fyrir undirskrifaður ráðningarsamningur til tiltekins tíma eða verkefnis og að í honum séu ákvæði þess efnis, að erlendum starfsmanni verði tryggð laun og öll önnur starfskjör til jafns við heimamenn, ásamt viðeigandi tilvísun til þess kjarasamnings, sem um þau kjör og starfsgrein gilda. Ýmislegt fleira þarf að vera í ráðningarsamningi þessum, m.a. um flutning viðkomandi frá Íslandi að starfstíma loknum, um fæði og húsnæði og um hvernig með skuli fara þegar atvinna fellur niður af óviðráðanlegum ástæðum.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því, að í ráðningarsamningi séu ákvæði þess efnis, að viðkomandi starfsmaður hafi kynnt sér þær upplýsingar sem vinnumálaskrifstofa félmrn. útbýr og dreifir erlendis. Sú skylda hvílir á herðum atvinnurekanda eða umboðsmanns hans, að sjá um að sú upplýsingaskylda sé virt.

Þessi atriði tengjast ákvæðum 5. gr. frv., en þar er lagt til að vinnumálaskrifstofa félmrn. taki nú að sér að útbúa og dreifa skriflegum upplýsingum erlendis til íslenskra sendiráða, vinnumiðlana útlendinga og annarra sem áhuga hafa á. Upplýsingar þessar skulu vera nokkuð víðtæk heimild um almenn starfskjör á Íslandi, bæði hvað varðar efni í kjarasamningi og þau lög sem mestu máli skipta í því sambandi, t.d. um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, skatta og opinber gjöld og rétt til yfirfærslu fjármuna o.fl.

Þá er gerð til þess krafa, að vottorð viðkomandi yfirvalda liggi fyrir um að atvinnurekandi hafi hæfilegt húsnæði til ráðstöfunar fyrir erlendan starfsmann, ef þannig hagar til að atvinnurekandi leggur til húsnæði. Ákvæði þetta beinist auðvitað fyrst og fremst að svokölluðum verbúðum fyrir farandverkafólk. Því er ætlað að tryggja með vottorði yfirvalda að það húsnæði uppfylli lágmarkskröfur um aðbúnað. Hér er um nýmæli að ræða í lögum. Þá er gerð krafa til heilbrigðisvottorðs viðkomandi útlendings o.fl.

4. gr. frv. er einnig nýmæli. Nýstofnuð vinnumálaskrifstofa félmrn. hefur með veitingu atvinnuleyfa að gera fyrir erlent starfsfólk. Nú eiga að fylgja með umsókn upplýsingar um vinnustað, tegund vinnu, aðila kjarasamnings, sem á svæðinu er og í starfsgreininni gildir, og áætlaða tengd daglegs vinnutíma á ráðningartímanum. Þá ber að færa fyrir því rök, að nauðsynlegt sé að ráða erlent starfsfólk, og gera grein fyrir því, hvaða tilraunir hafi verið gerðar til þess að ráða innlent fólk í starfið. Gert er ráð fyrir að vinnumálaskrifstofa félmrn. kanni síðan sjálfstætt, áður en atvinnuleyfi er veitt, hvert atvinnuástandið er á viðkomandi stað, og leiti til sambanda aðila vinnumarkaðarins um almenna stefnumörkun varðandi erlent starfsfólk með sérstöku tilliti til atvinnuástands í landinu og á ákveðnum landssvæðum.

Í 5. gr. frv. er svo nýmæli um upplýsingadreifingu félmrn. erlendis eins og áður var að vikið.

Frv. þetta felur í sér ýmsar aðrar smærri breytingar sem ekki skipta máli. Er gerð grein fyrir þeim í grg. með frv. Ef frv. þetta verður að lögum má gera ráð fyrir því, að málefnum útlendinga, sem hér starfa, sé sæmilega fyrir komið og réttur þeirra tryggður eins og frekast er unnt. Með setningu þeirrar reglugerðar, sem nú er í undirbúningi og fjallar um húsnæði farandverkafólks, standa vonir til þess, að málefni farandverkafólks séu komin í viðunandi horf og að tekist hafi að koma til móts við þær kröfur sem telja verður eðlilegar og sanngjarnar í þessu efni.

Ég leyfi mér að leggja til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. félmn.