23.02.1981
Neðri deild: 56. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2487 í B-deild Alþingistíðinda. (2649)

226. mál, atvinnuréttindi útlendinga

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég hef ekki miklu við þessa umr. að bæta núna. Margt kom fram í ræðu hv. 7. landsk. þm. sem ástæða væri til að ræða ítarlega, en það er ekki innan ramma þess dagskrárliðar sem hér er til umr. svo að ég sleppi því. Ég vildi bara láta það koma fram, að það hefur verið meining mín að fara þess á leit við hv. félmn. að hún reyndi að standa þannig að meðferð málsins, að það yrði afgreitt á þessu þingi. Ég tel að þetta sé í raun og veru ekki svo flókið mál að nefndin eða þingið þurfi nokkuð að hrökkva frá því verki. Og þegar það kemur í ljós, eins og hv. 7. þm. Reykv. benti á, að frv. fjallar hvorki um ættfræði, giftingar né erlend sendiráð, þá verður vafalaust hægt að hrista fram úr þessu verki. Ég vænti þess, að hv. nefnd verði við þeirri málaleitan ef þess er nokkur kostur.