03.11.1980
Neðri deild: 9. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í B-deild Alþingistíðinda. (265)

17. mál, olíugjald til fiskiskipa

Frsm. meiri hl. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það kemur mjög oft fram hjá hæstv. ráðh. í þessari ríkisstj., að þeir telja eiginlega að um öll mál, sem þeir leggja fram, eigi helst engar umr. að fara fram. Inn í þetta mál spinnast auðvitað umr. um vandamál sjávarútvegsins. Hvenær hófust þessar umr.? Þær hófust kl. 3 í dag. Hálfsystir ráðh. og aðili að ríkisstj. stóð hér upp utan dagskrár með miður skemmtilegum hætti og tafði þessar umr. Síðan hófust þær aftur kl. 9. Frsm. minni hl. n. eyddi hér þremur stundarfjórðungum í.sína ræðu, og ég skal játa að ég flutti langa ræðu, um einn og hálfan tíma. En ég tel að þessi mál séu það mikilvæg, að í þau megi eyða nokkrum tíma, og mér finnst ráðh. engin vorkunn og mættu þeir fleiri sitja þingfundi og hlýða á mál manna og taka þátt í umr. heldur en eingöngu sjútvrh. Hann á ekki einn að standa í forsvari eða gefa upplýsingar, heldur ekkert síður aðrir ráðh. í ríkisstj.

Hæstv. ráðh. svaraði nokkrum fyrirspurnum mínum. M.a. kom hann inn á skuldbreytingarnar. Ég fagna því, að von sé á nýrri frétt um hvernig að þeim hefur verið staðið. Hins vegar brá mér ansi mikið við það, þegar hann sagði að hann teldi að þessar skuldbreytingar gætu orðið upp á um 13 milljarða, en það er sú tala sem olíuvanskilin eru eða nálægt því, 12—13 milljarðar. Ég vék að því í dag, að vanskil sjávarútvegsins við Byggðasjóð einan eru 3.7 milljarðar miðað við 1. okt. án dráttarvaxta, og vanskil útgerðarinnar og fiskvinnslunnar við Fiskveiðasjóð eru meira en 11.4 milljarðar. Síðan koma allar aðrar lausaskuldir og skuldir við bankana, svo að þessi vandi er auðvitað margfalt meiri en hæstv. ráðh. gaf í skyn.

Það má vel vera að hann trúi því, að fiskvinnslan og útgerðin séu á núlli, og hafi það eftir Þjóðhagsstofnun. Ég trúi því ekki. Reynslan verður að skera úr um það, hvor er sannspárri í þeim efnum, hæstv. ráðh. eða ég. Ég bíð ósköp rólegur eftir því. Og ef mér hefur orðið á að meta rangt stöðu bæði fiskvinnslu og útgerðar, þá mun ég auðvitað játa staðreyndum þegar þær liggja fyrir. En allar þær upplýsingar og gögn, sem ég hef fengið til þess að kynna mér þau mál, met ég töluvert á annan veg en hæstv. ráðh.

Hæstv. ráðh. sagði að ég hefði greitt atkv. með mun hærra olíugjaldi en hér er lagt til. Áttu þm. margra kosta völ í desembermánuði á s.l. ári varðandi olíugjaldið? Var um nokkuð annað að ræða en samþykkja brbl. sem lágu fyrir þinginu til staðfestingar? Ætli það hefði ekki orðið erfitt fyrir fiskvinnsluna, ef þessi brbl. hefðu verið felld, að sækja aftur olíugjaldið til allra báta og togara í landinu? Allt öðru máli gegndi um frv. sem lagt var fram af fyrrv. sjútvrh. í janúarmánuði, þar sem olíugjaldið er lækkað úr 9% í 5%. Ég stóð að því að samþykkja það frv. vegna þess að um það náðist fullt samkomulag á milli allra þingflokka og aðila í sjávarútvegi og þar með sjómanna. Þá vildi ég ekki standa á móti því.

En það sem ég gagnrýni hér nú, er að þegar sjómenn og fiskkaupendur sögðu upp fiskverðinu á miðri vertíð, allir aðilar nema útgerðin, þá er hlaupið til og sagt: Olían kemur til með að lækka og nú er óhætt að lækka gjaldið um helming eða niður í 2.5 prósentustig. Og ég sagði þá, það er rétt, — þó að hv. 4. þm. Suðurl. hafi séð illa með gleraugunum sínum þegar hann var að lesa upp, þá er það alveg rétt hjá honum, að ég var harður á því, að olíugjaldið ætti að vera óbreytt alla vertíðina eins og búið var að ná fullkomnu samkomulagi um. En ég vissi ekki að hv. 4. þm. Suðurl. væri farinn að heyra illa, því að ég kom inn á þetta í ræðu minni í dag og í kvöld, sérstaklega í dag. Þar vitna ég einmitt í nál. á þskj. 281, sem er dags. 1. apríl, og þar segjum við: Pétur Sigurðsson, Halldór Blöndal og ég: „Fulltrúi sjómanna tók jafnframt fram, að hann gerði ekki kröfu um lækkun olíugjalds umfram það sem gert var samkomulag um í janúarmánuði milli allra aðila, sem um fiskverð fjalla, og stjórnvalda, sem Alþ. lögfesti með samhljóða atkvæðum þingmanna 23. jan. s.l.“ Mér datt ekki í hug að rifta þessu samkomulagi. Í þeim lögum er gert ráð fyrir að fiskkaupendur greiði útgerðarmanni eða útgerðarfyrirtæki olíugjald, er nemi 5% miðað við fiskverð eins og það er ákveðið af verðlagsráði sjávarútvegsins. Þessi lög tóku gildi og ákvæði þeirra skulu taka til fiskafla og hlutaskipta frá upphafi til loka árs 1980. Þessu vildum við ekki breyta. Við vildum ekki elta þá vitleysu að lækka þetta gjald um mánaðamótin mars-apríl úr 5 í 2.5%. En ráðh. var alveg ólmur og sagði að með því að lækka það mundi leysast deila togarasjómanna og útgerðarmanna á Ísafirði.

Nú spyr ég einu sinni enn: Hvernig stendur á því, að það er nauðsynlegt að hækka gjaldið núna um 200%, þegar olían hefur hækkað um 35.3% og áætlað er að meðalolíukostnaður þeirra skipa, sem stunda botnfiskveiðar hafi aukist frá því að þetta gjald var ákveðið um 30%? Hvernig stendur þá á því, að allt í einu er orðið nauðsynlegt að hækka þetta gjald um 200%? Ég segi fyrir mitt leyti: Ég hleyp ekkert eftir hringsnúningi eins og þessum. Ég hefði staðið við þau orð mín, og við fulltrúar Sjálfstfl. í n., að greiða fyrir að þetta 5% gjald hefði gilt út árið. En það er líka annað sem kemur þessu við, sem hefur breyst á þessu tímabili. Það hefur hvað eftir annað verið gengið á sjómenn í þeim efnum, að fiskverðið hefur ekki fylgt almennum launahækkunum í landinu. Það er auðvitað hægt að benda á ákveðna útgerð og ákveðna sjómenn á ákveðnum svæðum sem hafa allgóðar tekjur. Það má þá líka taka vinnutímann þegar verið er að bera það saman. En það eru líka til aðrir sjómenn sem hafa ekki haft meira en tryggingu. Hv. 4. þm. Suðurl. viðurkenndi það, að nú þyrfti að fiska ólíkt meira en áður til þess að hafa fyrir tryggingu. Og ég ætla að bæta því hér við til hæstv. sjútvrh., að ég vara hann við mjög eindregið og í fullri vinsemd. Ég tel að það sé rangt að gera þessa breytingu með þessum hætti í fullri andstöðu við sjómenn, eftir að farið er að krauma í þeim samtökum út af því, að fiskverðið hefur ekki fylgt almennum launahækkunum eftir. Eftir er að ákveða fiskverð um næstu áramót. Sú fiskverðsákvörðun er miklu afdrifaríkari en fiskverðsákvörðunin 1. okt. Þá er verið að ákvarða fiskverð, sem er meira en helmingur aflaverðmætis botnfiskaflans sem á land kemur á heilu ári, og þá er verra fyrir hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. að standa frammi fyrir heildarsamtökum sjómanna, þegar þau eru komin á suðupunkt út af því hvað gerst hefur undanfarið við verðlagningu. Þess vegna hefði ég talið hyggilegra — og þá vil ég ráða hæstv. sjútvrh. alveg heilt — að hafa gott samráð og gott samstarf við sjómannasamtökin núna, því að verið getur að það verði ekki eins hægur vandi að verða við óskum allra um næstu áramót. Þetta er það sem fyrir mér vakti í þessari afstöðu minni.

Ég á ekki að koma hér fram og segja: hvaða skatt vilt þú leggja á, ef á að ganga frá olíugjaldinu. Við segjum í nál., sem fylgir núna þessu frv., að við séum reiðubúnir til þess að finna leiðir til að landsmenn allir greiði þetta olíugjald, en það sé ekki lagt á sjómenn eina. Með því gefum við til kynna að við viljum eiga vinsamleg samskipti við sjútvrh. og ríkisstj. til að leysa það mál með þessum hætti, þannig að um næstu áramót verði ríkjandi gott andrúmsloft á milli sjómanna og stjórnvalda þegar ákvarða á nýtt fiskverð. Þetta er það sem var á bak við þessi ummæli mín og okkar sjálfstæðismanna.

Hv. 4. þm. Suðurl. sagði að ríkisstj. hefði ekki spurt sig. Það er eðlilegt að ríkisstj. hafi ekki spurt hann, því að þeir vita að hann hlýðir alltaf þó að hann sé aldrei spurður. Hann bara eltir ráðamennina í Alþb. alveg hundóánægður. Hann er á móti þessu olíugjaldi, hann er á móti þessum vinnubrögðum, eins og hann sagði þegar hann talaði frá hjartanu. En svo fór hann að sperra sig upp í að tala á móti sannfæringu sinni og það tókst honum alveg hörmulega illa. Þetta er besti drengur og ágætur maður, en þetta hlutverk fer honum heldur illa.

Hann ætti að fara að manna sig upp í það að gegna ekki svona hlutverki og láta hjartað og metnað sinn ráða meira afstöðu sinni hér á hv. Alþingi.

Ég ætla að enda á því að lýsa því yfir, og gleðja þar með hæstv. sjútvrh., enda veitir víst ekki af, að ég ætla ekki að eyða fleiri orðum hér á þingi um þetta olíugjald. Ef ekki verður sérstakt tilefni til ætla ég ekki að tala við 3. umr., til þess að ljúka megi umr. þessa máls. Það stóð ekkert á mér eða okkur sjálfstæðismönnum að ræða málið s.l. fimmtudag. Það kom ósk um það frá Alþfl. vegna flokksþings, að því væri frestað. Og eins og formaður sjútvn. viðurkenndi og sagði frá í sinni ræðu, þá gerðum við allt sem hægt var til þess að flýta fyrir afgreiðslu málsins úr nefnd. Ég tel enga ástæðu til þess, þó að máli sé þannig háttað í n., að stjórnarliðar séu þar í minni hl., að stjórnarandstæðingar séu að beita ofríki með því að liggja á málum stjórnarinnar. Það þekki ég frá því að vera stjórnarsinni og það er ljótur siður þegar stjórnarandstæðingar taka þann hátt upp.