23.02.1981
Neðri deild: 56. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2491 í B-deild Alþingistíðinda. (2655)

201. mál, sérhannað húsnæði aldraðra og öryrkja

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst og fremst nota þetta tækifæri til að þakka þeim hv. ræðumönnum, sem hafa tekið til máls um þetta mál. fyrir góðar undirtektir þeirra, sérstaklega hæstv. heilbrmrh. og reyndar líka fyrrv. heilbrmrh., hv. 5. þm. Suðurl.

Að sjálfsögðu hafa komið fram nokkur atriði sem væri vert að ræða nánar.

Ég vil þá byrja á því að lýsa ánægju minni yfir því sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að þegar sú þáltill., sem ég fór nokkrum orðum um í framsöguræðu minni, — mjög vönduð og ítarleg þáltill. um mál þeirra sem ekki eru geðheilir, — var hér til umr. skyldi þessi þm., hv. 6 þm. Norðurl. e., taka til máls og benda á þetta sérstaka vandamál, sem er gífurlega mikið vandamál hjá okkur hér á Íslandi og reyndar alls staðar þótt í nágrannalöndum okkar t.d. hafi verið gerðar sérstakar ráðstafanir til að mæta því.

Hv. þm. minntist á mjög athyglisvert atriði í ræðu sinni, hinar svokölluðu blönduðu íbúðir. Nú er ég búinn að umgangast gamalt fólk á liðnum tuttugu árum sem nemur líklega þúsundum, alla vega mörgum hundruðum, og hef rætt við það þegar það hefur verið að leita sér vistunar á dvalarheimilum. Og ég hef aldrei nokkurn tíma heyrt hjá þessu fólki sérstakar óskir um að geta umgengist börn. Í allflestum tilfellum á þetta fólk sín barnabörn og því þykir ærið nóg á fá þau í heimsókn svona einu sinni í viku og sjá þau þá. Þetta fólk er komið til þess að leita sér að friði og ró, það er að sækjast eftir kunningsskap við sína jafnaldra eða fólk á líku reki og með sömu hugðarefni og það sjálft, sem er mjög fjarri því sem er hjá ungu fólki í dag.

Hitt er annað mál og það vil ég taka undir, að öll hin svokölluðu vandamál aldraðra eru auðvitað sömu vandamálin og hjá okkur sjálfum. Og þau eru kannske jafnmörg og einstaklingarnir sjálfir. Það er því ekki til nein ein lausn. Þess vegna þurfum við að búa okkur undir það í okkar þjóðfélagi, ef vel á að vera, að geta mætt því, sem ég hef margoft bent á sjálfur, en kom fram hjá hæstv. heilbrmrh. í ræðu hans hér um daginn, að við þurfum að búa okkur undir að verða við óskum hvers og eins um það, hvar vill hann búa og í hvers konar húsnæði.

Mér þykir sjálfsagt, og það er ekkert í mínu frv. sem kemur í veg fyrir það ef eitthvert byggingarfélag vill taka undan í sinni stórbyggingu íbúðir fyrir aldraða eða öryrkja, þá er ekkert ákvæði sem bannar það. Ég vil bara, og það er meginmál í þessu frv. mínu, að íbúðirnar, sem bera þetta nafn, séu búnar ákveðnum lágmarkseiginleikum. Og þegar þær falla undir hugtakið, þá vil ég að Alþingi Íslendinga, sveitarfélögin, einstaklingarnir, félagasamtökin, verkalýðshreyfingin geti í góðri trú stutt slíkar byggingar, hver sem er á ferðinni með þær, hvort sem það eru sveitarfélög, ríkið, sjálfseignarstofnanir, verkalýðshreyfingin eða einhverjir aðrir, en það sé bara vitað að það sé ekki verið að hlaupa fram hjá vandamálinu þegar verið er að byggja slíkar íbúðir.

Ég benti á það í minni framsöguræðu, að dæmi væru um það að komnar væru upp íbúðir sem væru kallaðar íbúðir aldraðra — ég er ekki að tala þá um Reykjavík, ég tek það fram, heldur hjá öðrum sveitarfélögum, alla vega einu sveitarfélagi — sem væru ekki í neinu frábrugðnar venjulegum íbúðum. Ef við ættum að fylgja þessu, þá gætum við að sjálfsögðu látið kalla hverja einustu íbúð á Íslandi íbúð fyrir aldraða, því að margt eldra fólk hefur búið í þeim flestum.

Hv. 5. þm. Suðurl. sagði að það væri ekki rétt að gera samanburð á dvalarheimili og Hátúnsdeildinni. Það er rétt, enda gerði ég það ekki. Ég gerði hins vegar samanburð á hjúkrunar- og sjúkradeild á dvalarheimili. Og ég gerði það m.a. vegna þess að ég hef í höndum — og hef haft í höndum alla vega frá 1987 — upplýsingar um hjúkrunarþyngd á þessum stofnunum. Þess vegna leyfði ég mér að bera þetta saman. Og það er eitt meginvandamálið í sambandi við öll þessi heimili og ákvörðun daggjaldanefndar um daggjöld, að daggjaldanefnd skuli ekki geta haft þann starfskraft í vinnu hjá sér, getum við sagt, sérfróðan starfskraft, sem getur farið og metið hjúkrunarþyngdina á fólkinu. Auðvitað ættu daggjöldin að fara eftir því hvað er lagt mikið af mörkum við að þjóna ákveðnum sjúklingi. Þá væri líka hægt að deildaskipta betur þannig að fólk, sem væri betur í stakk búið að vera með fólki á sama reki, gæti verið saman. Og svo við komum aftur að þessu blessaða fólki sem býr við einhver geðræn vandamál eða umgengnisvandamál, þá getur það frekar verið til hliðar, en þó aldrei þannig að það sé lokað einhvers staðar inni og útilokað frá umgengni við aðra. Það finnst mér vera ómanneskjulegt, enda held ég að hjá okkar nágrönnum sé stefnt í gagnstæða átt.

Í ræðu hæstv, heilbrmrh., sem var mjög ítarleg komu fram nokkur atriði sem mig langaði til að víkja að. Hann spurði — ég held það hafi verið eina spurningin sem var varpað fram til mín — hvort þjónustumiðstöðvar ættu að verða í hverju dvalarheimili, minnir mig hann segði. Nú má segja að þjónustumiðstöð fyrir aldraða sé í hverju deildaskiptu dvalarheimili. Og hún starfar samkvæmt lögum og skilyrðum sem eru sett af heitbrigðisyfirvöldum. Að vísu gerist ekki mikið af því, að þær taki fólk utan heimilanna til meðferðar. Þó þekkist það. Ég tel t.d. að á margan hátt sé Hátúnsdeildin í Reykjavík þjónustustöð fyrir aldraða á miklu stærra svæði en margur hyggur, því þangað kemur fólk til meðferðar ótrúlega víða að. Og vegna þess að ég þekki til þar er mér ljúft að segja það hér, að læknar þar hafa náð frábærum árangri í sínu starfi á þeirri deild einmitt í endurhæfingu þessa fólks.

En við skulum ekki gleyma því, að slík endurhæfing — þó ekki hafi verið hægt að leggja alls staðar jafnmikla peninga til hennar — er komin á laggirnar alls staðar á þessum heimilum. T.d. verður það heimili, sem er núna í byggingu hjá sjómannadagssamtökunum í Hafnarfirði, með mjög fullkomna þjónustumiðstöð, svo fullkomna að það hefði verið hægt að koma fyrir heilsugæslustöð fyrir byggðina þar syðra ef það hefði ekki verið stöðvað af vissri togstreitu á milli byggðarlaga og arfi af gömlum þótta sveitarfélags sem telur sig kannske vera meira í dag en það í rauninni er. En það er skrýtið að hugsa til þess, að t.d. í Hafnarfirði vantar heilsugæslustöð. Það er vitað að læknar, sem hafa gegnt störfum þar, eru á götunni eftir nokkra mánuði. Samt sem áður hefur ekki náðst nein samstaða um það fyrir þá að flytja inn í húsnæði sem þeir gætu vel notað með læknum þessa heimilis og veitt náttúrlega enn víðtækari og meiri þjónustu en ella. En þjónustumiðstöð verður þar fyrir aldraða, sem mun þjóna miklu stærra svæði og fleira fólki en kemur til með að búa á þessu heimili. Þarna er fyrirhuguð byggð með mörgum gerðum íbúða fyrir aldrað fólk og eftirlaunafólk og fólk sem er að minnka við sig og búa sig undir efri árin, sem er kannske eitt af þeim réttu skrefum sem tekin eru í dag. Slík byggð verður þar í næsta nágrenni og þjónustumöguleikarnir í þessu hjúkrunarheimili standa þessu fólki til boða ekki síður en íbúum heimilisins. Þannig er þetta, þó við tökum ekki nánar fram í okkar frv. um slíka þjónustumiðstöð fyrir aldraða, sem veitir fleirum þjónustu en inni á heimilinu búa, þá er þetta m.a. til grundvallar. Enda sé ég ekkert því til fyrirstöðu, og ekkert í lögum sem bannar það, að slíka þjónustumiðstöð mætti setja upp, ekki bara af ríkinu og ekki bara af sveitarfélagi, heldur af einstaklingum. Nokkrir tæknar geta tekið sig saman um að koma slíkri stofnun á fót ásamt sérfræðingum sem til þarf til þess að veita þá endurhæfingu sem nauðsynleg er.

Þetta var að ég held eina spurningin sem hæstv. ráðh. beindi til mín. En síðan voru nokkur atriði sem hann kom inn á og tölur sem mig langar að fara nokkrum orðum um.

Hann gat þess, að samkvæmt tali, líklega þeirra í heilbrmrn., þá væru — hann tók skiljanlega ekki fram að það hefðu verið 945 rými fyrir hjúkrunarsjúklinga til hér á landi, heldur væru 945 hjúkrunarsjúklingar. En einmitt í þessari fullyrðingu hefur oft legið sá stóri misskilningur, sem jafnvel okkar æðstu embættismenn í þessum málum hafa flaskað á og verið að vitna í og reikna út frá, og auðvitað hefur afleiðingin orðið sú, að niðurstaðan hefur verið tóm vitleysa.

Við skulum taka t.d. að í þessari tölu, 945, er reiknað með að það séu 225 hjúkrunarrými á Hrafnistu í Reykjavík. Þarna er fyrsti og stærsti misskilningurinn, geri ég ráð fyrir. Þar eru ekki nema 77 sérhönnuð hjúkrunarpláss plús tvö fyrir „akút“ sjúklinga, þannig að þetta minnkar nú heldur betur. Þetta er samt í tölunni um að þetta rými sé til. Þetta er mikill misskilningur. Þarna er húspláss sem hefur verið tekið til bráðabirgðalausnar hins mikla vanda. Heimilið er byggt sem dvalarheimili, sem vistheimili, og það var aðeins sérhönnuð lítil deild í byrjun fyrir 40 sjúklinga sem enn er nýtt. Annað hefur ekki verið sérhannað þar heldur en ný deild fyrir nokkrum árum sem þar var komið upp, þótt á þessu aukna plássi, sem hefur verið tekið til bráðabirgðanotkunar, hafi auðvitað verið gerðar miklar umbætur og þar komið fyrir einu og öðru, sem léttir störf fólksins sem þar vinnur. En það er bara allt annað mál. Þessi pláss eru ekki til á landinu, og því finnst mér vera kominn tími til fyrir heilbrmrn., landlækni og aðra embættismenn að hætta að tala um þetta, að þetta sé til hjá okkur, og draga fram í skýrslugerð til nágrannaþjóða okkar að við eigum svo og svo mikið af hjúkrunarplássum fyrir aldraða sem alls ekki er til. Við getum þá alveg eins talað um og tekið inn í „statistik“ þessara embættismanna sem hjúkrunarpláss fyrir aldraða herbergi á heimilum manna þar sem kannske einn og tveir hjúkrunarmenn eru allan sólarhringinn við að þjóna þessu gamla fólki. Það má alveg eins taka það með samkvæmt þessum kenningum embættismannanna. — Þetta vildi ég að kæmi hér fram og stæði í þingtíðindum.

Þá benti ráðh. á það, sem auðvitað er rétt af honum sem ráðh. að ræða og gott fyrir okkur að hafa í huga sem þingmenn, að auðvitað kostar ekki aðeins peninga að koma upp hjúkrunardeildum, heldur að reka þær jafnframt. Og hann benti á að ef komið væri upp 100 rúma hjúkrunardeild á því daggjaldi sem var hjá DAS 1. des., þá mundi reksturinn á ári kosta um 700 millj. kr. og á 300 rúma hjúkrunardeildum mundi kostnaðurinn verða 2–2.5 milljarðar, giskaði hann á. Þetta eru lauslegar tölur sem hann var að benda á, en ég held að allir hafi skilið að þetta mundi kosta mikla peninga.

Síðar í ræðu sinni kom hæstv. ráðh. inn á það, og það mun vera rétt, það held ég að sé algjör lágmarkstala, að á sjúkrahúsunum í Reykjavík séu a.m.k. 150 aldraðir sjúklingar sem gætu — eins og hæstv. ráðh. orðaði það — við venjulegar kringumstæður vistast á hjúkrunarheimilum.

Ef við tökum nú þetta sama dæmi sem hæstv. ráðh. var með, og snúum því aðeins við — og nú væri gott fyrir hv. fjvn.-menn að fylgjast með — þá mundu vistgjöld fyrir 150 slíka sjúklinga á þessu svokallaða DAS-gjaldi, sem hann orðaði svo, verða á ári 1 milljarður 182 millj. og 600 þús. kr. En á verði Borgarspítalans frá sama tíma mundu sömu 150 rúmin kosta 6 milljarða 761 millj. 625 þús. kr. Þarna er því verið að henda út um gluggann, segi ég, þessum mismun sem er 5 milljarðar 579 millj. 25 þús. kr. Og ég leyfi mér að fullyrða, vegna þessa að ég hef áætlanir yfir byggingarkostnað heimilis sem tekur 75 hjúkrunarsjúklinga, að sparnaðurinn á einu ári mundi nægja til að byggja upp og skila skuldlausu hjúkrunarheimili sem tæki þessa 150 sjúklinga. Sannleikurinn er nefnilega sá, að við stöndum hér oft að því að setja inn í heilbrigðiskerfið stórar upphæðir og látum þá, sem þar vinna, togast á um skiptinguna. Við höfum ekki sjálfir nóga sérþekkingu til þess að toga á móti, en að sjálfsögðu ættum við og þeir, sem starfa t.d. í fjvn., að leita ráða slíkra hlutlausra aðila, sem gætu tekið á þessum málum með efnislegri gagnrýni. Er ég þá að segja þessa setningu í annað skipti á örfáum dögum, en ég tel einmitt, eins og ég ræddi um fyrir nokkrum dögum, að fjárveitingavaldið þyrfti að viðhafa slíka efnislega gagnrýni, a.m.k. þegar sumir sérfræðingar Framkvæmdastofnunar ríkisins eru að koma með sínar tillögur. — Þetta vildi ég láta koma fram.

Þá kem ég að því sem hér var sagt og haft eftir borgarlækni í Reykjavík, að það vanti 350 hjúkrunarpláss hér í Reykjavík. Þetta voru hans orð fyrir nokkru, en ég held að hæstv. ráðh. hafi sagt eitthvað á þá leið, að það væri líklega Reykjavík og Reykjavíkursvæðið líka.

Nú man ég ekki betur en að fyrsta fullyrðing, sem kom frá borgaryfirvöldum um þetta mál, hafi einmitt átt við Reykjavík og það hafi verið 350. Alla vega leyfi ég mér að halda því fram, að þessi tala sé hærri á stór-Reykjavíkursvæðinu. Og ef bara er átt við Reykjavík, þá bendi ég á það, að tugir Reykvíkinga eru á slíkum heimilum utan Reykjavíkurborgar. Reykjavíkurborg hefur haft þá stefnu að stuðla sjálf að og leggja fé í það að byggja fyrir þá sem búa utan bæjar. En borgin hefur ekki viljað hjálpa til við byggingu á heimili fyrir Reykvíkinga sem eru utan Reykjavíkur. Það eru líklega um 40–50 Reykvíkingar t.d. á Hrafnistuheimilinu í Hafnarfirði, enda hefur ekki verið þar frekar en á Hrafnistuheimilinu í Reykjavík farið neitt eftir því hvar fólk býr. En ég er hræddur um að þessi tala sé t.d. ekki innifalin í tölu borgarlæknis í Reykjavík. Og ég held að þar sé ekki heldur vandamálið sem vonandi er að leysast vegna sérstakrar framgöngu og forgöngu einstaklinga í Kópavogskaupstað, að þar hafi ekki verið talin með þau hjúkrunarpláss sem vantar í þeim bæ.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa mörg fleiri orð um þetta. Málið verður sjálfsagt ítarlega rætt í nefnd, og ég mun sjálfur, af því að ég á sæti þar, gera till. um að það fari til umsagnar bæði til Sambands ísl. sveitarfélaga og Húsnæðisstofnunar ríkisins. Alla vega eru þessir tveir aðilar meðal þeirra sem ég tel sjálfsagt að fái málið til umsagnar því að þetta varðar þá báða.

Ég vil svo endurtaka þakkir mínar til ræðumanna, sem hafa talað í málinu, fyrir þeirra góðu undirtektir.