03.11.1980
Neðri deild: 9. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í B-deild Alþingistíðinda. (266)

17. mál, olíugjald til fiskiskipa

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Hæstv. sjútvrh. hafði þau orð áðan í upphafi sinnar ræðu, að það væri ekki kynlegt þó þjóðin væri hætt að treysta stjórnmálamönnum, þar sem formenn þingflokkanna hefðu ekki staðið við þau orð sín að þessari umr. mætti ljúka í dag. Ég held nú að ráðh. ættu frekar að reyna að standa við eigin orð, t.d. um niðurtalninguna, áður en þeir fara að væna aðra menn um að þeir geti ekki afgreitt mál úr þinginu á einhverjum tilteknum mánudegi, þar sem fyrir liggur að sá dráttur, sem orðið hefur á þessu máli, er ekki að kenna sjálfstæðismönnum, heldur ýmsum öðrum og vondri skipulagningu, sem kemur þessu máli ekki við.

Ég get hins vegar tekið undir það, að það er erfitt að sjá hvers vegna Alþfl. var svo mjög í mun að þessi umr. mætti ekki fara fram s.l. fimmtudag, þar sem enginn fulltrúi frá þeim er viðstaddur þessa umr. og þeir hafa ekki gert grein fyrir sínu máli og sinni afstöðu til olíugjaldsins. (Gripið fram í: Þeir treystu okkur alveg.) Þeir treystu okkur til þess.

Það var eitt í ræðu hæstv. sjútvrh. sem óhjákvæmilegt er að gera athugasemd við. Verðbólgan æðir áfram. Hún er mæld, og verðbólguvöxturinn er um þessar mundir kannske um 80%. Síðan þýðir ekki fyrir ráðh. að koma hér upp í ræðustól og láta sem þeir séu algjörlega saklausir af þessari þróun. Ef menn gefa kost á sér til þess að sitja í ríkisstj., þá fylgir því líka ábyrgð. Og ríkisstj. á hverjum tíma verður að vera reiðubúin að mæta því, sem að höndum ber, og ráða við þá erfiðleika, sem við er að glíma, eða a.m.k. gera tilraun til þess.

Ég verð að segja það alveg eins og er, að ef við lítum á þær umr., sem urðu hér fyrst þegar olíugjaldið var lækkað á s.l. vetri, og lítum svo á stöðu útgerðar og fiskvinnslu, eins og hún er nú, og þær útskýringar sem hæstv. sjútvrh. hafði í frammi hér áðan um það, hvers vegna svona illa væri komið, þá tókst honum ekki að útskýra samhengið í þessum málum, hvers vegna hann leggur þetta til í dag og allt annað fyrir hálfu ári. Honum tókst ekki að sannfæra menn um það, að fast væri haldið um stjórnartauminn og framsýni hefði gætt í ráðstöfunum ríkisstj. á s.l. vetri, enda er það nú satt að segja, að ríkisstj., sem mynduð var í svartasta skammdeginu til þess að bjarga sæmd Alþingis, hefur ekki enn komið sér saman um neinar aðgerðir í efnahagsmálum, nema bara látið gengið dumpa og dumpa með mismunandi hraða, og er þó skýrt tekið fram í stjórnarsáttmála að aðhalds eigi að gæta í gengismálum. En hvar er nú aðhaldið?

Þess vegna held ég að hæstv. ráðh. þurfi að færa öllu sterkari rök fyrir sínu máli en hann hefur gert ef hann ætlar að sannfæra nokkurn mann um það, að einhverri heildarstefnu hafi verið fylgt í þessum málum. Sannleikurinn er að sjálfsögðu sá, eins og ég sagði áðan, að þessi ríkisstj. hefur verið og er andsnúin útflutningsatvinnuvegunum, stefna hennar miðar að því að brjóta þá niður, eins og komið hefur fram m.a. í því, að við höfum tapað mörkuðum erlendis einungis vegna þess að rekstrarskilyrði hafa ekki lengur verið fyrir hendi hér á landi, eins og var hér fyrir 2–3 árum. Það er eftirtektarvert, að hæstv. sjútvrh. fæst ekki til að svara því einu einasta orði, hvort meiningin sé að skerða kaupgjaldsvísitöluna.

Ég sé að formaður Verkamannasambands Íslands er kominn í þingsalinn, og þar sem hæstv. ráðh. fæst ekki til þess að svara þessari spurningu, þá held ég að það sé óhjákvæmilegt að spyrja hann um það, hvort honum sé kunnugt um þau kjaraskerðingaráform sem einstakir ráðh. hafa verið að lýsa af og til í blöðum og hvernig hann líti á það, ef til þess yrði gripið nú að skerða kaupgjaldsvísitöluna með einum eða öðrum hætti. Minni ég hann þá á það, eins og ég rakti áðan, en þá var hann fjarverandi, að kaupmátturinn er nú fjær því að ná 100 þús. kr. markinu, sem þessi hv. þm. setti sér í maí 1977, en hann var eftir samningana þá. Væri fróðlegt að heyra hvað þessi hv. þm. hefur um þetta að segja, hvort hann sé sammála þeim skoðunum sem fram hafa komið hjá ýmsum virtum verkalýðsleiðtogum í blöðum undanfarið, að þeir muni taka sömu afstöðu nú og 1978 til hvers konar kjaraskerðingarlaga sem sett eru af ríkisstj., — hvort hann mundi með sömu hörku ogþá setja útflutningsbann á ríkisstj. — (Gripið fram í: Á afurðirnar.) Útflutningsbann á afurðirnar, ég bið afsökunar. Ríkisstj. væri nú það síðasta sem ég vildi láta setja útflutningsbann á, því best væri náttúrlega að hún kæmi aldrei til baka, en það er nú annað mál. (Gripið fram í.) Það væri frekar að setja innflutningsbann á hana þegar hún hverfur úr landi eða einstakir ráðh. En það væri fróðlegt að fá að vita, hvað þessi hv. þm. segir um þessi mál, hvort í þeim orðum hans, að hann muni styðja ríkisstj. til góðra verka, felist stuðningur við þau kjaraskerðingarfrv. sem ríkisstj. hefur boðað.

Ég vil svo að síðustu aðeins segja það, að ég geri lítið með þetta samráð sem hæstv. sjútvrh. hefur verið að tala um að hann muni hafa í sambandi við endurskoðun fiskverðsins. Það upplýstist á fundi sjútvn., að ekkert samráð hafði verið haft við fulltrúa sjómanna í nefndinni, Ingólf Ingólfsson, og sagðist hann á sínum langa ferli ekki vita dæmi annars eins. Þar hafi atgjörlega verið gengið fram hjá fulltrúum sjómanna og ekkert samráð haft við hann, eins og venja hafi verið þau ár sem hann hefur unnið að fiskverðsákvörðunum.