24.02.1981
Sameinað þing: 53. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2499 í B-deild Alþingistíðinda. (2660)

211. mál, húshitunaráætlun

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég svara hér fsp. hv. 4. þm. Vestf. varðandi húshitunaráætlun.

Í fyrsta lið er spurst fyrir um það, hvort gerð hafi verið húshitunaráætlun fyrir tímabilið 1981 – 1983 um nýtingu innlendra orkugjafa til húshitunar í stað olíu. Unnið hefur verið að gerð áætlunar um þetta efni á Orkustofnun og samráð höfð við Rafmagnsveitur ríkisins um þetta efni og fleiri aðila allt frá því að lög um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar, nr. 53 frá 28. maí 1980, voru samþykkt. Áætlunargerðin er langt komin, en ekki lokið með afhendingu endanlegra tillagna eða skýrslu til iðnrn., en ég mun kynna hér þau drög sem fyrir liggja um þetta efni.

Við áætlunargerðina hingað til hefur megináhersla verið lögð á að kanna betur hvar hitun með jarðhita er vænleg eða möguleg á næstu þremur til fjórum árum. Hefur sérstök áhersla verið lögð á að athuga minni þéttbýlisstaði og einstakar bæjaþyrpingar í sveitum sem geta átt möguleika á sameiginlegri jarðhitaveitu. Þessu verki er langt komið, en ekki lokið. Eftir er að gera stofnkostnaðaráætlanir um nokkrar slíkar minni háttar jarðhitaveitur svo og að athuga nánar ýmis jaðartilvik, þar sem mjög er mjótt á munum milli rafhitunar og jarðhita hvað hagkvæmni snertir. Slík tilvik verða nánar athuguð í samráði við Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða. Þá þarf að tímasetja einstakar hitaveituframkvæmdir fram í tímann.

Ástæður þess, að áætlunarstarfið var hafið á þessum minni háttar jarðhitaveitum, eru tvær: Í fyrsta lagi hefur aðaláherslan verið á því fram að þessu að afla jarðhita fyrir stærri byggðarlög. Í öðru lagi geta jarðhitaveitur í strjálbýli, sem koma í stað rafhitunar, haft veruleg áhrif á álagið á raforkukerfi á viðkomandi stöðum og þar með á það, hversu aðkallandi er að styrkja rafdreifikerfið þar. Það er því nauðsynlegt að hafa gert sér glögga grein fyrir þeim áður en farið er að skipta styrkingu rafdreifikerfis niður í áfanga og skipuleggja hana í smáatriðum.

Þegar möguleikar á jarðhitaveitum í sveitum liggja sæmilega ljósir fyrir er ætlunin að teknar verði upp viðræður við Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða um áfangaskiptingu varðandi styrkingu rafdreifikerfisins í sveitum, og eðlilegt er að um það verði samráð haft við orkuráð. Á því sviði hefur mikilvægt undirbúningsstarf verið unnið með rammaáætlun orkuráðs frá 1979 um styrkingu sveitakerfisins svo og af Rafmagnsveitum ríkisins. Eftir er hins vegar að samræma áfangastyrkinguna því markmiði að losna við olíuhitun í strjálbýli á næstu árum, þar sem teknir eru með í reikninginn þeir möguleikar á jarðhitaveitum sem að framan eru nefndir, og áætla kostnað hvers árs um sig þegar menn hafa komið sér niður á áfangaskiptinguna. Að þessu verður unnið nú á næstu vikum og er stefnt að því að unnt verði að byggja fjárlagatillögur fyrir 1982 á slíkri áætlun. Jafnframt verður unnið að því að ljúka stofnkostnaðaráætlunum um jarðhitaveitur í sveitum svo að unnt verði að taka þær með í sambandi við undirbúning lánsfjáráætlunar fyrir 1982.

Á árinu 1977 hófust Rafmagnsveitur ríkisins handa um að láta gera heildarathugun á því, hvernig standa bæri að húshitunarmálum í þéttbýli á landinu þar sem möguleikar á öflun jarðvarma eru taldir litlir. Gerðar voru frumathuganir á hagkvæmni fjarvarmaveitna í 26 þéttbýlisstöðum. Í framhaldi af því var síðan gerður heildarsamanburður á því að hita viðkomandi þéttbýli upp með beinni rafhitun annars vegar og með fjarvarmaveitum eða svokölluðum RO-veitum hins vegar. Með RO-veitum er átt við að komið sé á fót kyndistöðvum í þéttbýli og þær látnar hita vatn með rafskauts- eða olíukötlum. Vatnsdreifikerfi er lagt um byggðarlögin til að dreifa varmanum. Niðurstöður áðurnefndrar athugunar sýndu að heldur hagkvæmara er að stefna beint í rafhitun á þéttbýlisstöðum ef lítið er á þá sem eina heild. Sé hins vegar lítið á hvern af hinum 26 þéttbýtisstöðum fyrir sig kemur í ljós að hagkvæmt getur verið að fara út í svonefndar RO-veitur á nokkrum stöðum. Var gerð athugun á því, hvaða þéttbýlisstaðir það væru sem hagkvæmast væri talið að stefna að slíkum veitum á. Þeir staðir, sem best komu út í þessari athugun á orkuveitusvæði Rafmagnsveitna ríkisins, voru Seyðisfjörður, Neskaupstaður, Höfn, Ólafsvík, Stykkishólmur og Grundarfjörður.

Enda þótt nokkur vinna sé enn eftir við hitunaráætlunina, einkum varðandi kostnaðaráætlanir og tímasetningu framkvæmda, hafa þó verið gerð drög að henni. Þau drög kunna að breytast eitthvað við endanlegan frágang áætlunarinnar, einkum tímasetning einstakra framkvæmda, en varla þó svo mikið að það raski þeirri heildarmynd sem Orkustofnun hefur nú þegar dregið upp af því verkefni að losna við hitun með olíu á Íslandi.

Þessi drög voru notuð af orkuspárnefnd við gerð svokallaðrar húshitunarspár fyrir tímabilið 1980 – 2000 sem nefndin gekk frá á síðasta hausti og birti í des. 1980. Í spánni kemur m.a. fram hvernig einstökum landsvæðum verður séð fyrir orku til hitunar, hvenær hitaveituframkvæmdum muni ljúka og hvenær 90% þeirra húsa, sem verða hituð með rafmagni, hafa fengið rafhitun.

Samkvæmt drögum að húshitunaráætlun er talið að hlutdeild jarðhita, raforku og olíu breytist sem hér segir á næstu árum. Tölurnar tákna hundraðshluta hitaðs húsrýmis sem hitað verður með hverjum orkugjafa fyrir sig. Lítum á þessar tölur, sem ég hef hér fyrir framan mig í töfluformi, og tökum þróunina varðandi jarðhitann fyrst:

Á árinu 1980 voru hituð upp af húsrými 75.3% með jarðhita. Á árinu 1983 er gert ráð fyrir að þetta hlutfall hafi hækkað um 5% eða í 80.4% af öllu hituðu húsrými í landinu hlutfallslega. Á árinu 1985 hækki þetta örlítið eða í 80.7% og árið 2000 verði af húsrými í landinu 80.5% hituð upp með jarðhita. Hvað snertir raforku eru hlutfallstölurnar þessar: 1980 13.2%, 1983 15.9%, 1985 17.4% og árið 2000 19.4%. Eftir stendur þá olíuhitað húsnæði: 1980 verða 11.5% kynt með olíu miðað við þetta yfirlit, 1983 á þetta hlutfall að hafa lækkað niður í 3.7%,1985 standi eftir 1.9% og árið 2000 0.1% eða nánast ekki neitt.

Samkvæmt þessari áætlun verður hlutdeild olíu í húshitun 1983 minni en þriðjungur og 1985 einungis 1/6 þess sem hún var 1980. Að örfáum árum liðnum verður húshitun með olíu ekki tengur vandi nema mjög lítils hluta þjóðarinnar, vandi tiltölulega fámenns hóps sem mun þurfa á aðstoð samfélagsins að halda til að sitja við sama borð og aðrir, nema þá að aðrir hentugir hitunarkostir finnist en jarðvarmi og raforka.

Í þessari fsp. er vikið að fleiri þáttum, m.a. spurst fyrir um tillögur um framkvæmdir í orkumálum sem teljast nauðsynlegar til þess að sem flestir landsmenn búi við innlenda orkugjafa eða njóti orku frá olíukyntri fjarvarmaveitu í árslok 1983, og spurst er fyrir um áætlaðan kostnað framkvæmdanna svo og hvernig framkvæmdir skiptist milli ára, annars vegar með tilliti til innlendra orkugjafa og olíu til fjarvarmaveitna hins vegar. Þar sem gerð húshitunaráætlunar er ólokið er ekki hægt að gefa tæmandi svör við þessum spurningum, en nokkrar upplýsingar vil ég reiða hér fram.

Nú er verið að vinna að gerð nýrrar tveggja ára framkvæmdaáætlunar fyrir árin 1982–1983 hjá Rafmagnsveitum ríkisins. (Forseti hringir.) Herra forseti. Ég er senn búinn að svara þessu, en svolítinn tíma vildi ég fá til viðbótar. — Er fyrirhugað að sú framkvæmdaáætlun liggi fyrir í maí — júní 1981 eða nú í vor. Samtímis verður væntanlega gefin út ný fimm ára framkvæmdaáætlun fyrir árin 1982 – 1986. Tillögur Rafmagnsveitna ríkisins um úrbætur í byggðalínukerfum, stofnlínukerfum, aðveitustöðvum, innanbæjarkerfum svo og rafdreifikerfum í sveitum verða miðaðar við húshitunaráætlunina. Að hliðstæðri áætlunargerð er unnið á vegum Orkubús Vestfjarða þar sem margir búa enn við olíukyndingu.

Rafmagnsveitur ríkisins hafa reynt að meta áætlaðan kostnað við þær framkvæmdir á vegum fyrirtækisins sem nauðsynlegar teljast til að koma á aukinni rafhitun. Eru þessar áætlanir byggðar á tveggja ára framkvæmdaáætluninni, sem gefin var út í júní 1980, svo og á fimm ára framkvæmdaáætlun frá október 1979. Miðað er við áætlað verðlag í febrúar 1981.

Á árunum 1981, 1982 og 1983 er áættað að verja þurfi árlega að meðaltali um 50 millj. nýkr. í svonefndar „almennar framkvæmdir“ vegna rafhitunar á vegum fyrirtækisins. Þar er fyrst og fremst átt við framkvæmdir við stofnlínukerfi, aðveitustöðvar og innanbæjarkerfi.

Í kyndistöðvar fjarvarmaveitna svo og í fjarvarmaveitu í Grímsey er áætlað að verja um 11 millj. kr. á árinu 1981. Óvíst er með framkvæmdafé til kyndistöðva fjarvarmaveitna 1982 og 1983, en ef reistar verða fjórar slíkar stöðvar er gert ráð fyrir að til þess þurfi samtals um 25 millj. kr. á árunum 1982 og 1983. Vatnsdreifikerfi eru ekki innifalin í þessum tölum nema í Grímsey.

Ekki er talið unnt á þessu stigi að svara til um hlutdeild aukinnar rafhitunar í kostnaði við byggðalínukerfi eða orkuöflun. Sama er að segja um framkvæmdir við styrkingu rafdreifikerfa í sveitum. En þessi mál eru til athugunar og verður mótuð stefna um þau í sambandi við undirbúning áætlana fyrir næsta ár og.næstu ár og að þeim málum unnið í iðnrn.

Á þessu ári verður unnið áfram að hitaveituframkvæmdum á Akureyri, Akranesi, Borgarnesi, Suðurnesjum, Egilsstöðum, Vestmannaeyjum og víðar. Framkvæmdir verða hafnar við Hitaveitu Eyra á þessu ári og væntanlega einnig við hitaveitu á Rangárvöllum, a.m.k. gert ráð fyrir fjármagni í því skyni.

Á vegum Orkubús Vestfjarða verður unnið við fjarvarmaveitur á Ísafirði, í Bolungarvík og á Patreksfirði. Stefnt er að því að fjarvarmaveitur á Höfn og Seyðisfirði verði komnar í fulla notkun á árinu 1981. Þá hefur verið lagt til að komið verði á fót fjarvarmaveitu í Grímsey á þessu ári. Er síðan áætlað að 1983 –1984 verði reist þar vindrafstöð til framleiðslu á raforku til almennra þarfa svo og til upphitunar á vatni fyrir fjarvarmaveituna. Að sinni hefur verið slegið á frest framkvæmdum við fjarvarmaveitur í Neskaupstað, í Stykkishólmi, Ólafsvík og Grundarfirði. Var það gert vegna þess að tvísýnt þótti um að hagsmunir Rafmagnsveitna ríkisins væru tryggðir með þeirri gjaldskrá sem nota á á Höfn og Seyðisfirði. Í ljósi þeirrar reynslu, sem fæst við rekstur fjarvarmaveitna á þessum tveimur stöðum, verður tekin afstaða til áframhaldandi uppbyggingar á fjarvarmaveitum annars staðar og m.a. í því sambandi gert ráð fyrir að herða á jarðhitaleit á norðanverðu Snæfellsnesi á þessu ári, sem kæmi þá hitaveitum þar að gagni, hvort sem yrðu fjarvarmaveitur í upphafi eða jarðvarmaveitur.

Ef árangurinn af fjarvarmaveitum, sem reistar hafa verið, verður jákvæður má reikna með því, að byggðar verði fjarvarmaveitur á tveimur til þremur stöðum 1982 og einum til tveimur stöðum 1983. Gert er ráð fyrir að á þessu ári verði unnið við hita- og fjarvarmaveitur fyrir röskar 300 millj. nýkr.