24.02.1981
Sameinað þing: 53. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2502 í B-deild Alþingistíðinda. (2661)

211. mál, húshitunaráætlun

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svör hans, en ég hef ástæðu til þess að gera nokkrar athugasemdir við þau.

Það eru alvarlegustu upplýsingarnar, sem fram komu í máli hans, að það hefur ekki verið lokið við að gera þá áætlun sem lögin frá því í fyrra gerðu ráð fyrir. Það er alvarlegt vegna þess að það er komið hátt upp í eitt ár frá því að lögin voru sett. Og þetta fjallar um mál sem var ekki nýtilkomið þá. Það er öðru nær.

Á síðasta þingi bárum við sjálfstæðismenn fram þáltill. um framkvæmdaáætlun í orkumálum vegna húshitunar. Þar var í ítarlegu máli gerð grein fyrir þessum viðfangsefnum. Í tillögugreininni voru taldir upp þeir framkvæmdaliðir sem sérstök ástæða var að leggja áherslu á. Það var í fyrsta lagi jarðhitaleit, í öðru lagi framkvæmdir við hitaveitur, í þriðja lagi lagning aðalháspennulínu rafmagns, í fjórða lagi styrking rafdreifikerfis, í fimmta lagi að sveitarafvæðingunni yrði lokið og í sjötta lagi orkusparandi aðgerðir.

Ríkisstj. dauðheyrðist við þessari till., en enginn talaði gegn henni. Raunar mátti skilja mál hæstv. iðnrh. á þá leið, að hann væri meðmæltur tillögunni þegar hún var til umr. Honum var þetta mál ekkert óljóst. En má ég minna á að þetta var á síðasta þingi, en á þinginu þar áður, á þinginu 1978 – 1979, berum við sjálfstæðismenn fram hliðstæða till. um þetta mál.

Allir hafa sagt að ekkert væri þýðingarmeira í orkumálunum en að vinda bráðan bug að framkvæmd þessara mála. Enginn hefur mælt á móti því og þetta hefur öllum verið ljóst. En svo kemur hæstv. iðnrh. núna og segir að það sé ekki lokið þessari áætlunargerð. Þó er þessi hæstv. ráðh. búinn að vera ráðherra iðnaðarmála hartnær allan tímann frá því 1978. Hvernig stendur á þessu? Hvernig stendur á þessum seinadrætti í jafnþýðingarmiklu máli sem þessu? Hvernig stendur á því, að það þokast svo seint áfram í máli sem allur þingheimur segist vera sammála um að þurfi að vinna að? Hver er skýringin? Skýringin er sú, að hæstv. ríkisstj. dregur fæturna í þessu máli. Það er skýringin. Og það er ekki nóg með það.

Ég verð að segja að þær upplýsingar eru einkennilegar sem hæstv. ráðh. gaf hér áðan um vinnubrögð í sambandi við áætlunargerðina sem hann segir að sé nú verið að vinna að. Mér finnst það harla einkennilegt hvað hæstv. ráðh. segir að sé lögð mest áhersla á núna við áætlunargerðina, en það er að kanna betur jarðhita svo að hægt sé að koma á smáhitaveitum og að kanna jaðartilvik, sem hann nefnir svo. Það kann að vera, og ég mótmæli því ekki, að það sé sjálfsagt að gera þetta, en það er höfuðatriði nú að leggja áherslu á framkvæmdir í hitaveitumálum þar sem þéttbýli er. Það hefur mesta þjóðhagslega þýðingu. Hvað gerir ríkisstj. í þessu efni? Hún dregur fæturna í þessu máli. Það kemur berlega fram í því, að það er ekki nægilega vel haldið á framkvæmd þessara mála með því að útvega þeim aðilum, sem standa í hitaveituframkvæmdum, meira fjármagn og ýta undir það að fleiri aðilar en nú eru að fást við þessi viðfangsefni taki til hendinni í þessu efni.

Ríkisstj. gerir ekki nægilegt til að ýta undir þetta. Hún sefur á verðinum meira og minna í þessu efni. Það lýsir sér best í þeirri staðreynd, að það skuli ekki enn þá vera lokið þeirri framkvæmdaáætlun í húshitunarmálum sem ég hef gert hér að umræðuefni.