24.02.1981
Sameinað þing: 53. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2505 í B-deild Alþingistíðinda. (2665)

211. mál, húshitunaráætlun

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Hæstv. iðnrh. var að hafa orð á því að kannske væri hægt að beisla einhverja orku frá mér. Ég er honum þakklátur fyrir að vekja athygli á slíku. En því miður hefur víst engum dottið í hug að hægt væri að beisla orku frá hæstv. iðnrh. í sambandi við þetta mál.

Þá verð ég að segja það, að mér fannst nokkuð táknrænt þegar hæstv. iðnrh. gerir að einhverju atriði í máli sínu það sem hann kallar nýyrði. Ég talaði um seinagang hjá ráðh. og drátt í málum. Úr þessu segir hann að hafi orðið seinadráttur. Það getur vel verið að það megi notast við þetta orð þegar maður lýsir framgangi iðnrh. í þessu máli. Við skulum taka það til athugunar.

Ég hef ekki hér tíma til að leiðrétta sumt, sem hefði kannske verið ástæða til, og ætla ekki að brjóta þingskapareglur með því að tengja mál mitt. En ég vil leggja áherslu á að þessi framkvæmdaáætlun, sem fsp. fjallar um, hefði að réttu lagi getað verið fullbúin fyrir löngu.