24.02.1981
Sameinað þing: 53. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2505 í B-deild Alþingistíðinda. (2666)

211. mál, húshitunaráætlun

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það skal vera örstutt athugasemd.

Hér veik hv. 1. þm. Vesturl. að fjarvarmaveitum. Um þær var fjallað sérstaklega í svari við fsp. fyrr á þinginu, og ég vísa til þess sem þar kom fram og liggur fyrir í þingskjölum. Þar er mikið nauðsynjamál á ferðinni, sem þarf að fá skorið úr um fyrr en seinna, hvernig teyst verður og hvernig ráðist verður í. Það er ofureðlilegt að Rafmagnsveitur ríkisins hiki við að ganga til samninga sem eru þeim sýnilega óhagstæðir, og þar verða aðrar leiðir til að koma. Ef þær eiga að standa þar að máli verður að leggja til fé, sem tekur þá tillit til þess að um þjóðhagslega hagkvæmar framkvæmdir er að ræða, og verður þá að koma eftir öðrum leiðum.

Hv. 5. þm. Vestf. nefndi hér sveitarafvæðinguna og að það vantaði stefnu í sambandi við hana. Ég vil minna á það, að við undirbúning fjárlaga í ár ritaði ég fjvn. sérstakt erindi þar sem kynntar voru óskir iðnrn. um að fá aukið fjármagn til sveitarafvæðingar til að leysa vanda þeirra nær 30 býla, 30 jarða, sem eru innan 6 kílómetra marka hvað meðatfjarlægð snertir, og sú stefna dregin upp að þetta verkefni þyrfti að leysa á þriggja ára tímabili. En til þess hefði þurft að koma verulega meira fjármagn og raunar margfatt meira fjármagn en til þessa er ætlað samkvæmt fjárlögum í ár. Fjvn. sá sér því miður ekki fært að bæta þar við frá því sem var í fjárlagafrv.

Ég mun ýta á eftir þessu máli innan ríkisstj. við undirbúning áætlana fyrir næsta ár og jafnframt að leitað verði leiða í sambandi við vanda þeirra jarða sem eru utan við þessa umræddu fjarlægð, þar sem horfa ber til annarra leiða til að leysa vanda varðandi orkuöflun. Þar mætti m.a. líta á möguleika á að beisla vindinn.